12.02.1959
Efri deild: 68. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

106. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, hafði n. sáralítið athugað þetta frv., þó að hún að forminu til tæki að sér að koma því á framfæri, eins og venja er til að n. geri, ef ríkisstj. fer fram á það. Athugun á frv. í n. er eftir, eins og ég gat um. Ég geri ráð fyrir, eins og frv. liggur fyrir, að það sé ekki hægt samkv. því að krefja neinn opinberan starfsmann um hærri iðgjaldsgreiðslur í lífeyrissjóðinn, en laun hans á þeim tíma segja til um, ef ekkert er sérstaklega tekið fram um annað. Og þrátt fyrir það ákvæði, að eftirlaunin skuli reikna eftir því starfinu, sem hærra var launað, virðist mér eftir því, hvernig frv. er nú orðað, að hlutaðeigandi greiði aðeins iðgjald af þeim launum, sem hann hefur á hverjum tíma. Þetta atriði er sjálfsagt að taka til athugunar, hvort ekki er einmitt rétt að setja skýr ákvæði um það, að hann fái því aðeins þennan rétt, að hann greiði iðgjald til sjóðsins í samræmi við hin hærri laun. En mér virðist, eins og frv. liggur fyrir, ekki heimild til að innheimta hærri iðgjöld af neinum opinberum starfsmanni, en laun hans segja til um.