12.02.1959
Efri deild: 68. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

106. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Ég skal viðurkenna það, að mér er ekki alveg ljóst, hvað hæstv. stjórnarráð meinar með þessum lögum. Ég geri ráð fyrir, að það hafi undirbúið það einhver þar, sem hafi sett sig inn í málið, og þá kann að vera, að það, sem ég nú segi, sé sprottið af misskilningi mínum. Það eru ekki mörg ár síðan ég varð sjötugur og bar réttur til eftirlauna, því þegar ég fór frá Hólum eftir að hafa verið kennari og skólastjóri við bændaskólana lengi, þá setti ég það skilyrði fyrir því að fara til Búnaðarfélagsins, að mér yrði leyft að tryggja mig áfram í lífeyrissjóði embættismanna. Og þá var gerð á lögunum breyting og búnaðarfélagsstarfsmönnum heimilað að tryggja sig í sjóðnum. Síðan var alltaf tekin rétt prósenta af mínum launum og Búnaðarfélagið borgaði á móti. Þegar ég svo varð sjötugur, komu eftirlaunin, og þá voru þau reiknuð eftir meðaltali af þeim launum, sem ég hafði haft s. l. 10 ár. 60% af því bar mér að fá í eftirlaun, þegar samanlagður aldur minn og embættisaldur var 95 ár og svo ákveðna prósenttöluhækkun fyrir hvert ár, sem fram yfir var upp í 75. Þetta eru þau lög, sem núna gilda. Síðan ég tók þessi eftirlaun, svona reiknuð, hefur lögunum ekki verið breytt. Nú er ætlazt til þess, að maður, sem hafi verið starfsmaður hins opinbera og verður veikur og hættir þess vegna, — en á því leikur ekki neinn vafi, hann hefur sitt læknisvottorð og allt í lagi, — hann er veikur tíu ár, og svo vill hann verða starfsmaður ríkisins aftur, þá er honum heimilt, skilst mér, eftir lögunum að kaupa sig, sem kallað er, inn í sjóðinn með því að borga sinn part, eins og hann hefði alltaf fengið laun, sín 2% af þeim hugsanlegu launum, sem hann hefði fengið öll þessi ár, sem hann var í burtu, og ríkið á þá að borga á móti. Á þann hátt kaupa menn sig inn í sjóðinn. Menn, sem kaupa sig inn í sjóðinn, eins og t. d. sumir búnaðarfélagsmenn hafa gert, því er ég vel kunnugur, — þeir eiga að borga 2% af laununum, sem þeir hafa haft á ári, og svo hefur Búnaðarfélagið orðið að borga á móti. Þá hafa þeir fengið fullan rétt. Öðruvísi fá þeir það ekki. Nú liggur fyrir heimild fyrir þessu. En þá spyr ég bara: Er rétt að vera að láta ríkið borga á móti, til þess að þeir fái þennan rétt?

En svo skil ég ekki hitt, hvernig þeir eiga að fá eftirlaun eftir hærri laununum, þegar þeir eru komnir á lægri launin, því að það kemur alveg í bága við það, að eftirlaunin skuli miðast við síðustu 10 ára meðaltal af launum mannsins. Ef ég hefði verið skrifstofustjóri í stjórnarráðinu og farið frá sem skrifstofustjóri og er svo settur niður í einhvern annan starfa, þar sem minna er að gera, og látinn halda áfram þar og er þar 10 ár, þá ætti ég að fá eftirlaun eftir því, sem hærri laun mín sögðu til um. Það er ekki til í dæminu, því að þá segja lögin alveg ákveðið núna, að ég skuli hafa eftirlaun miðað við meðaltal síðustu 10 áranna, sem ég starfaði. Þess vegna rekst þessi breyting á lögin, eins og þau eru núna, það er alveg gefið. Ég held það sé alveg gefið og þurfi að grandskoða það.

Núna fær hver maður eftirlaun eftir ákvæðum laga þannig lagað, að hann fær meðaltal af þeim launum, sem hann hefur haft síðustu árin og misjafna prósenttölu af þeim eftir því, hvað hann er búinn að vera lengi, frá 40 og allt upp í 75, ef ég man rétt. Og þess vegna er það að ákveða, að maður, sem er kominn niður í lægri laun, allt í einu eigi að fá eftirlaun eins og hann hefði verið á hærri launum, sem hann hefur verið á einhvern tíma áður, án þess að breyta þeim ákvæðum í lögunum, sem segja til, hvernig eftirlaunin eigi að reiknast nákvæmlega, það er ekki hægt, áreiðanlega ekki hægt og þarf að athugast nánar.