20.11.1958
Neðri deild: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki mikið að segja. Það var rétt, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að ég mundi fylgja þessu máli, þegar ég veit, að bændurnir eru reiðubúnir til þess að taka skattinn á sig. Og það er ekki sambærilegt, hvort hreppabúnaðarfélögin eru spurð í þessu máli eða hvort í hverju einstöku tilfelli á að spyrja alla um það, hvað þeir vilja.

Hér er um dálítið sérstakt mál að ræða. Það er um það að ræða, hvort bændur eiga að borga nýjan skatt, sem nemur nú a. m. k. 2 millj., kannske 3–4 millj. eftir fá ár. Það er þetta, sem verið er að spyrja um. Ég er viss um það, eins og hv. frsm. sagði hér áðan, að eftir 70 ár þykir þetta hús, sem nú er fyrirhugað að byggja, ekki of stórt. Vonandi þykir það þá allt of lítið. Vonandi verður sú þróun í íslenzku þjóðlífi á næstu árum, að eftir 70 ár þyki það lítið og kotungslegt, sem okkur finnst stórt í dag. En ég spyr nú: Er það eðlilegt, að þeir bændur, sem nú framleiða mjólk og kjöt, borgi húsnæði til næstu 70 ára? Er ekki eðlilegra, að byggingarkostnaðinum sé dreift þannig á fleiri aðila, líka að einhverju leyti á þá, sem yngri eru og koma á eftir? Ég held, að þessari byggingu hefði mátt haga þannig að byggja nú fyrir næstu ár, sem var gott og nægilegt, en byggja með það fyrir augum, að það megi stækka og auka við, svo að vel fari, bæði hvað notagildi og útlit snertir.

Það kom að því, sem ég sagði áðan, þegar því er mótmælt, að bændur verði spurðir, að þetta mál verði sent til hreppabúnaðarfélaganna, þá er færð fram sú ástæða, að búnaðarþing og aðalfundur Stéttarsambandsins hafi mælt með því. Nú vil ég segja það, að síðast þegar kosið var til búnaðarþings, þá var ekki kosið um þetta mál. Þetta mál lá þá algerlega niðri og mér er kunnugt um það, að vegna þess, að málið dagaði upp á síðasta þingi, án þess að á það reyndi, hvort það hefði fylgi, þá töldu ákaflega margir bændur, sem ég hef talað við, að það mundi ekki aftur verða sýnt, vegna þess að þess væri ekki brýn þörf, það væri mögulegt að koma upp góðu húsnæði fyrir Búnaðarfélagið og stéttarsamtökin með þeim peningum, sem koma í búnaðarmálasjóð eftir gildandi lögum. Það er þess vegna, sem þetta mál hafði engin áhrif á síðustu búnaðarþingskosningar.

Þótt þetta mál hefði verið á dagskrá, þá eru svo ótal mál önnur á dagskrá og þótt bóndinn sé á móti búnaðarþingsfulltrúanum í einu máli, þá gæti verið, að hann hefði samt kosið hann af öðrum ástæðum, vegna þess að þetta er, sem betur fer, ekki eina málið, sem bændastéttina varðar og hún ræðir um. Þetta eru því ekki rök hjá hv. frsm., að búnaðarþingi hafi verið vottað traust að þessu leyti, með því að flestir hinir sömu búnaðarþingsfulltrúar hafi komið nú aftur til þings. Og fulltrúar á aðalfundi Stéttarsambands bænda, þegar þeir voru kosnir á s. l. sumri, þá hygg ég, að þetta mál hafi ekki verið til umræðu, heldur miklu frekar verðlagsmál landbúnaðarins, sem aðalfundur Stéttarsambandsins venjulega fjallar um.

Ég segi þess vegna: Ef hv. flm. telja, að skoðun búnaðarþings og skoðun aðalfundar Stéttarsambands bænda sé í samræmi við vilja bændastéttarinnar, hvers vegna er þá ástæða fyrir þá að hafa á móti því til þess að fá samstöðu um þetta mál hér í Alþ. að skrifa stjórnum hreppabúnaðarfélaganna og láta atkvgr. fara fram um málið? Það er áreiðanlega eðlilegra, eins og málin eru, að þetta sé gert. Þetta er kostnaðarlítið og tefur á engan hátt fyrir málinu, ef bændur vilja láta það ganga fram. En vilji þeir ekki láta það ganga fram, þá á það ekki heldur að gera það, og þá veit ég líka, að hv. 1. flm. og aðrir flm. þessa frv. eru það góðir drengir, að þeir kæra sig ekki um að berja það fram, eftir að vilji bændastéttarinnar hefur sýnt, að þeir eru málinu mótfallnir.