20.11.1958
Neðri deild: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Það eru nú örfá orð aðeins og kannske ástæðulaust í sjálfu sér, því að það er nú fundið, að hv. 1. þm. Rang. er á hröðu undanhaldi um andstöðu við málið. — Ég skal endurtaka það, ef hv. þm. hefur ekki skilið, hvað ég sagði.

Nú á að flýja til þess að senda þetta í öll hreppabúnaðarfélög landsins. Ég held ég hafi nefnt það áðan, að þetta er ekkert annað en látalæti. Þá er miklu heppilegra fyrir þennan hv. þm. að vera algerlega á móti málinu.

Ég skil sannast að segja ekki, hvernig á að undirbúa málið betur frá hálfu bændastéttarinnar, en gert er með þessu. Jú, hv. þm. segir, að það hafi ekki verið kosið um þetta mál til búnaðarþings, ekki eingöngu. En ég hef nú grun um, að einmitt Rangæingar hafi ekki leyft búnaðarþingsmanni, sem hefur setið með prýði á búnaðarþingi um langan tíma, að fara í framboð, og það var maður, sem mælti á móti þessu máli t. d., og voru þó aðeins mjög lítil mótmæli á búnaðarþingi gegn þessu. Ég held því, að það sé miklu betra fyrir hv. 1. þm. Rang. að hætta umræðum um þetta. Ég reyndi að leggja málið fram alveg hlutlaust, en þið skuluð ekki ætla, að það standi á mér að taka málið upp á öðrum vettvangi, ef þið óskið eftir því. Ég er alveg reiðubúinn til þeirra hluta. En ég eiginlega skil ekki, á hvern hátt hægt er að undirbúa betur mál, en þetta hefur verið gert og ummæli hv. 1. þm. Rang. um að fara nú að skrifa til allra hreppabúnaðarfélaga eru náttúrlega alveg út í hött. Ég hef nú verið við framkvæmdastjórn Búnaðarfélagsins í 25 ár, held ég, að vísu með nokkurri frátöf, þegar ég lenti í stjórnarráðinu, en hvað um það, ég veit vel, að það tekur minnst ár, og þessi hugmynd hv. 1. þm. Rang. um, að það væri hægt að fá svör fyrir jól, er algerlega út í hött. Fyrst og fremst vitum við það, að aðalfundir búnaðarfélaganna eru haldnir einu sinni á ári og þetta eru ekki félög, sem halda fundi oft eða boða til aukafunda og kannske þá ekki frekar um svona mál en önnur, og þessir fundir eru haldnir einhvern tíma á áliðnum vetrum yfirleitt, svo að þetta er alveg fjarri lagi að mínum dómi. Það er miklu betra að vera hreinlega á móti málinu, því að þessi afstaða hv. þm. þýðir að mínum dómi ekkert annað en að hann sé á móti því, og hví þá ekki að segja það alveg hreinlega? Það get ég metið eins og alla hreina afstöðu, en alls ekki þetta.

Það er ekki heldur rétt, að stéttarsambandsfundurinn hafi ekki vitað um, hvernig málið lá fyrir, því að það var búið að senda út ályktanir búnaðarþings til allra sambandanna og til allra, er sæti fengu á stéttarsambandsfundinum, og þar er einmitt þetta mál tekið fyrir. Mér þykir ótrúlegt, að hv. 1. þm. Rang. telji, að það þurfi að tyggja þetta eitthvað sérstaklega í bændur, að þeir geti ekki blaðað í gegnum 100 blaðsíðna bók eins og tíðindin frá búnaðarþingi eru og áttað sig á því, hvað þar hefur verið samþykkt. Það vissu allir og það veit hv. 1. þm. Rang. líka, að á þessum stéttarsambandsfundi yrði þetta mál tekið til ákvörðunar og úrskurðar. Það var alveg ljóst, vegna þess að málið kom hér fyrir Alþingi í fyrra, og það varð samkomulag milli Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda um, að ýta ekki á framgang málsins, fyrr en búið væri að vita með vissu, hvað Stéttarsambandið vildi um það segja.

Hv. þm. sagði nú lítið um bygginguna sjálfa, enda vildi ég ekki fara að ræða um það. Ég get metið það að mörgu leyti, þó að eitthvað sé fundið að framkvæmdinni út af fyrir sig. En við réðum til þess að vera aðalbyggingarmeistara mikilsmetinn mann, Halldór Jónsson, og við höfðum ekki önnur úrræði, — ég segi fyrir mig: ég er ekki byggingafróður, — en að hlíta hans forsjá í þessum efnum. Og hvort þetta hús kostar einum 2 eða 5 millj. kr. meira eða minna, þegar það kemur upp, það er í mínum augum algert aukaatriði. Hitt er aðalatriðið, að húsið sé við hæfi þessara stofnana og að þetta geti orðið. — Ég skal viðurkenna, að ég hef kannske áætlað aldur hv. 1. þm. Rang. of háan, að hann lifði 70 ár enn. Það kann að vera, að það mætti eitthvað minnka þetta. En hvað um það, þó að mætti eitthvað minnka það, þá er ég eins viss um, að landbúnaðurinn á Íslandi fyllir þetta hús innan stundar, svo að ég segi ekki meira um það.

Annars tel ég nú ástæðulaust að vera að karpa um þetta, því að ég hef enga trú á, að nokkur hafi á móti því, að þetta mál fari í nefnd, landbn., eins og ég hef lagt til og þar eru auðvitað öllum hv. þm. og þá ekki sízt hv. 1. þm. Rang. opnar dyr til þess að flytja fram sín sjónarmið um það, hvernig nefndin kann að taka á málinu. Ég skal svo ekki segja meira um þetta.