20.11.1958
Neðri deild: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Fram. minni hl. (Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef ekki getað verið sammála eða samferða meiri hl. landbn. um afgreiðslu þessa máls, eins og fram kemur í nál. mínu á þskj. 152 og liggja til þess þær orsakir, sem þar eru greindar.

Í raun og veru þarf ég ekki að bæta mjög miklu við það, sem ég segi í þessu nál. En bæði af tilefni þeirrar ræðu, sem vinur minn, frsm. meiri hl., flutti hér, og öðru leyti af þeim umr., sem um þetta mál hafa farið fram, þykir mér þó ástæða til að fara nokkru fleiri orðum um þetta stóra mál, því að því verða menn að gera sér grein fyrir, að hér er stórmál á ferðinni.

Í fyrsta lagi vil ég þá segja, að það er í samræmi við mína skoðun frá upphafi, að ég tel það einhvern allra ósanngjarnasta og fráleitasta skattagrundvöll, sem farið er inn á, að leggja prósentugjald á vörur, framleiðsluvörur eða á umsetningu, eins og sums staðar var gert. Ég var á móti þessari leið upphaflega, þegar búnaðarmálasjóðsgjaldið var sett á. Og ég hef frá upphafi verið á móti því að leggja útflutningsgjald á sjávarafurðir og tel það eitt hið vitlausasta, sem hægt er að hugsa sér að gera. Þetta er af því í báðum þessum greinum, að eins og sakir standa, verður hið opinbera að gefa tugi, ja, hundruð millj. með þessum vörum, þessum bjargræðisvörum þjóðarinnar, til þess að það sé mögulegt að framleiða þær og þó eru þær, a. m. k. landbúnaðarvörurnar, enn þá þrátt fyrir þetta framleiddar með halla.

Þetta er það sjónarmið, sem ég get aldrei hvikað frá, að ég tel hreina fjarstæðu að fara inn á þessa skattaleið, hvenær sem það er gert. Dálítið hliðstætt þessu er hið svokallaða veltuútsvar, sem lagt er á víðs vegar um land og er hrein óhæfa að skuli vera í lögum og lagt á alveg án tillits til þess, hvort atvinnureksturinn þolir það, hvort hann ber sig eða er rekinn með stórum halla og í botnlausum skuldum eða ekki. Þetta er stórt mál, sem grípur mjög yfir þetta atriði, sem hér er farið fram á og þó að með þessu frv. sé lofað, að þetta skuli ekki standa nema í fjögur ár, þá hef ég enga trú á því, að það sé nokkurn hlut eftir því farið, ef þetta skattgjald yrði á annað borð lögfest. Við þekkjum svo mörg dæmi um það, þegar búið er að lögleiða skatta, að þeir eru framlengdir endalaust, og þegar við höfum með húsbyggingu að gera, sem kostar með núgildandi verðlagi, eins og ég tek fram, aldrei undir 30–35 millj. kr., og vitað er, að rekstrarhalli verður á byggingunni, þegar þar að kemur og hún er fullkomlega komin upp, þá dettur mér ekki í hug, að þetta skattgjald verði afnumið.

Það er þess vegna alveg út í hött að tala um það við mig, að það sé í ósamræmi við annað, að ég skuli ekki geta fallizt á að leggja þetta prósentugjald á afurðir bændastéttarinnar.

Þá er hitt atriðið, sem er þýðingarmikið í þessu sambandi og er deilumál, hvort bændastéttin yfirleitt sé þessu samþykk eða ekki samþykk. Það er í því sambandi engan veginn sönnun fyrir vilja bændastéttarinnar í heild sinni, þó að það fengist meiri hluti á búnaðarþingi og stéttarsambandsfundi fyrir þessu frv. Þar eru í fyrsta lagi að miklu leyti sömu menn á báðum stöðum, og auk þess hefur verið þar mjög mikill ágreiningur og ekki sízt hjá Stéttarsambandi bænda, sem hélt sinn aðalfund nú á s. l. hausti.

Ég veit ekki eins vel og skyldi, um álit bænda í öðrum landsfjórðungum, Vestfirðingafjórðungi, Austfirðingafjórðungi og Sunnlendingafjórðungi. En ég tel mjög sterkar líkur til, að í mínum landsfjórðungi, Norðlendingafjórðungi, sé mikill meiri hluti bænda á móti þessu skattgjaldi. Í fyrsta lagi er það að segja um þær sýslur, sem standa mér næst, sem eru báðar Húnavatnssýslur og Skagafjarðarsýsla, að úr þessum sýslum voru 6 fulltrúar á síðasta aðalfundi Stéttarsambands bænda. Af þeim voru 2 með þessu máli, en 4 á móti. Og þetta fór engan veginn eftir flokkum, því að af þeim 4, sem á móti skattgjaldinu voru, voru 3 framsóknarmenn og 1 sjálfstæðismaður. En af þeim 2, sem samþykktu þetta, var annar sjálfstæðismaður, hinn framsóknarmaður.

Þetta sýnir nú dálítið svipinn fyrir utan það, sem við þekkjum til um álit manna á þessu máli í þessum héruðum. Og eru þó enn þá gleggri upplýsingar, sem fyrir liggja úr Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, því að í þeim héruðum eru til bændafélög, sem héldu fundi sina á s.l. vetri og sendu harðorð mótmæli gegn þessu máli og að því er virtist samþykkt með shlj. atkv.

Ég hitti nýlega einn merkan mann og gamlan bónda úr Norður-Þingeyjarsýslu, sem hefur verið fulltrúi árum saman hjá Stéttarsambandi bænda. Hann var eindregið á móti þessu skattgjaldi og sagði, að þar væri mjög mikil andstaða gegn því að leggja þetta á.

Þá er það í þriðja lagi um þessa fyrirhuguðu byggingu, að hún er að grunnfleti til tvisvar sinnum stærri ,en Búnaðarbankahúsið og á að verða eftir áætlun 25 þús. m3. Nú er það í sjálfu sér ekki deilumál milli neinna manna, að Búnaðarfélag Íslands þarf á öðru húsnæði að halda, en það hefur haft. Til þess hafa verið mörg tækifæri á undanförnum árum og eru enn að greiða úr því máli varðandi skrifstofubyggingu Búnaðarfélagsins án þess að leggja í stórfyrirtæki eins og þarna er um að ræða. Búnaðarfélag Íslands átti kost á því fyrir nokkrum árum að fá eina hæð í húsi Búnaðarbankans og virtist það vera mjög eðlileg lausn á þessu máli og hefði verið að mínu áliti mjög góð. Sumir menn vildu taka því, aðrir ekki. En það, sem hér er aðaldeilumál, er að blanda saman við skrifstofubyggingu Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins stórkostlegri verzlunarbyggingu og hótelbyggingu, sem ég tel alveg óþarft að blanda þarna inn í.

Annars er það frá mínu sjónarmiði ekki aðalatriði í málinu með þessa húsbyggingu. Ég hef ekki komið nálægt því máli á neinn hátt. Það hefur ekki verið undir mig borið, og ég ber enga ábyrgð á þeim áætlunum, sem þarna eru í gangi. Hitt er aðalatriðið frá mínu sjónarmiði, að ég tel skattlagningar-aðferðina, sem hér er farið fram á, algerlega óhæfilega.

En varðandi það, sem sagt er til samanburðar við aðrar byggingar, eins og hv. frsm. meiri hl. var að tala um, og allt er rétt, þá vil ég segja það, að frá mínu sjónarmiði er okkar þjóð þar á svo mikilli öfgaleið, að það er ekki á neinu viti byggt með þessar opinberu byggingar hér og þar í tugatali, opinberar og félagslegar byggingar, sem í flestum tilfellum eru byggðar af hreinum öfgum. Og ég vil segja, ef nokkuð ætti að stöðva, sem verður að gera, eins og fjárhagsástandið er nú orðið í okkar þjóðfélagi, þá á þessu að fresta eða stöðva það fyrr eða síðar og því fyrr, því betra. Og ég verð að segja það, að mér þykir það ákaflega hart, að margir af mínum stéttarbræðrum og þingbræðrum skuli telja fært að leggja í svona tugmilljóna byggingu fyrir bændastéttina, samtímis því sem það er kunnugt, að það er fjöldi jarða víðs vegar um land, sem ekki eru í vegasambandi og ég vil segja, að vegasamband og brúargerðir, sem á vantar enn, eru lífsbjargarmál, — það er blátt áfram lífsbjargarmál fyrir byggðirnar úti um landið, og það á að sitja fyrir að mínu áliti öllu öðru og ekki sízt svona kostnaðarsamri byggingu, því að ég tel það ekki á neinu viti byggt, að bændastéttin fari að stuðla að því að leggja tugi millj. í verzlunarhús og hótelbyggingu hér í Reykjavík.

Annað vil ég nefna í þessu sambandi, sem ríður miklu meira á, en þessu og bændastéttin almennt, þar sem ekki er úr greitt, hefur sterkan áhuga á og sterkari en flestu öðru, og það eru rafmagnsmál sveitanna. Það kom fyrir á síðasta sumri, að hæstv. fyrrv. ríkisstj., sem er sú fjáreyðslusamasta, sem nokkurn tíma hefur starfað á þessu landi, stöðvaði margar rafmagnsframkvæmdir, sem búið var að samþykkja í raforkuráði og búið var að lofa af raforkustjórninni. Ég held, að það hefði verið miklu nær fyrir þá hæstv. ríkisstj. að stöðva eitthvað af opinberum byggingum, heldur en bera þarna niður, eða a. m. k. er það af hálfu bændastéttarinnar miklu meiri nauðsyn og miklu meira áhugamál að hraða þeim framkvæmdum og bjarga þar með þeim þægindum, sem bændurnir leggja mest upp úr, heldur en að fara að hamast í því að taka þátt í kapphlaupi um stórbyggingar hér í Reykjavík, með þessari hallarbyggingu, sem þarna er um að ræða.

Hv. frsm. meiri hl. vék að því, að það hefði komið fram till. um að vísa þessu máli heim til búnaðarfélaganna til umsagnar og náttúrlega er það ekki fjarstætt, þótt till. komi frá hv. 1. þm. Rang. hér við 1. umr. Ég geri nú ekki neina till. um þetta, því að ég veit það mikið um ágreining bændastéttarinnar um þetta mál, að ég tel það ekki þurfa og þess vegna legg ég til, að málinu sé vísað frá með þeirri rökstuddu dagskrá, sem er í mínu nál., og á þeim grundvelli, að ég tel það ósanngjarnt, — ekki sízt þegar svona óhæfilega leið í skattamálum er verið með, þá tel ég það ósanngjarnt, að skattaálöguvald Alþingis sé notað til þess að gera upp ágreiningsmál innan bændastéttarinnar með því að lögfesta það gjald, sem hér er farið fram á. Stéttarsamband bænda eða meiri hluti þess og búnaðarþing getur þá haft það í hendi sinni að innheimta gjald hjá þeim hluta bændastéttarinnar, sem hefur áhuga fyrir því að leggja þetta á sig og umfram það og telur það nauðsynlegra en allt annað, sem fyrir liggur í þeirri fjárþröng, sem fram undan er.

Ég hef enga tilhneigingu til þess að þræta mikið hér um þetta mál. Ég hef hér greint eindregið frá minni skoðun um það og ætlast til þess, að hv. þm. hugsi sig um, áður en þeir samþykkja að leggja þetta skattgjald á. Málið liggur tiltölulega ljóst fyrir, svo að það ætti að vera vandalaust fyrir hv. þm. að greiða um það atkv., þegar að atkvgr. kemur. Þess vegna læt ég þetta nægja, ef ekki gefast einhver sérstök tilefni til þess að bæta þar við.