08.01.1959
Neðri deild: 52. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um ½% hækkun á búnaðarmálasjóðsgjaldinu næstu 4 árin, var flutt af landbn. Nd. á síðasta Alþingi. Var frv. rætt við 1. umr., en frestað að afgreiða málið að svo búnu. Var það gert í samráði við þá menn, sem að því stóðu. Ástæðan til frestunarinnar var, að þingmenn, sem voru hlynntir frv., töldu á það skorta í undirbúningi þess, að frv. hefði ekki verið borið undir aðalfund Stéttarsambands bænda, en meðan það hefði ekki verið gert, væri ekki fullséð um vilja bændastéttarinnar eða mikils meiri hluta hennar. Nú hefur verið bætt úr þessu. Bæði búnaðarþing og aðalfundur Stéttarsambands bænda hafa lýst yfir eindregnu fylgi sínu við frv. með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða.

Nú, þegar þetta liggur fyrir, er þess krafizt af andmælendum frv., að enn sé farið af stað, og nú á að bera frv. undir alla bændur í búnaðarfélögum um land allt. Vitanlega er þetta fram borið í þeim tilgangi að tefja fyrir afgreiðslu málsins, því að þegar lögin um búnaðarmálasjóð voru lögfest 1944 og þar með ½% gjald af söluvörum landbúnaðarins, þá var talið fullnægjandi, að fyrir lá samþykki búnaðarþings á frv. Þá talaði enginn um nauðsyn almennrar atkvgr. bænda um það frv.

Hliðstætt búnaðarmálasjóðsgjaldinu fyrir landbændur er útflutningsgjaldið af sjávarafurðum fyrir útvegsmenn og sjómenn. Árið 1947 var útflutningsgjaldið hækkað um ¾% og um ½% lagt á saltfisk. Engar kröfur komu fram um, að leita þyrfti samþykkis útgerðarmanna um land allt, áður en þessi hækkun væri lögfest. Sama er að segja 1957, er útflutningsgjald af saltfiski var hækkað um 2%. Er nú svo komið, að tekið er 2½% gjald af verði allra útfluttra sjávarafurða, er gengur til að efla stofnanir sjávarútvegsins og starfsemi þeirra, þ. á m. til húsbyggingar Fiskifélagsins.

Ég hef hér bent á hliðstæðu við búnaðarmálasjóðsgjaldið og meðferð þeirra mála á Alþingi. Með svipuðum rökum mætti krefjast þess, að Alþingi afgreiddi ekki meiri háttar tolla- eða skattahækkanir án þess, að þær hefðu fyrst verið bornar undir þjóðaratkvæði. Enn þá hefur engin krafa heyrzt um það, og hefði þó ef til vill ekki síður verið ástæða til þess. Mergurinn málsins er, að bráðabirgðahækkun á búnaðarmálasjóðsgjaldinu um ½% næstu fjögur árin er ekki það stórmál, miðað við mörg önnur mál, að ástæða sé til að láta það sæta annarri meðferð, en hliðstæð mál fyrr og síðar. Meiri hl. n. sér því ekki ástæðu til að sinna slíkum till.

Ég skal þá þessu næst snúa mér að byggingunni við Hagatorg, sem Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda hafa þar í smíðum, en aðalmótbáran gegn frv. og að bændur leggi fram þann skerf til þessarar byggingar, sem þar er lagt til. er, að byggingin sé óhæfilega stór og þar af leiðandi óþarflega dýr. Það er því rétt að athuga þetta nánar. Þegar stærð hússins var endanlega ákveðin, voru eftirfarandi atriði einkanlega höfð í huga:

1) Þegar bæjaryfirvöld Reykjavíkur sýndu bændastéttinni þann mikla velvilja að úthluta aðalfélagssamtökum bænda lóð undir byggingu þeirra við Hagatorg, á einum glæsilegasta staðnum í Reykjavík, þá fylgdi það með sem afleiðing af skipulaginu, að þarna má aðeins reisa stórar og myndarlegar byggingar.

2) Búnaðarfélag Íslands hefur haft aðalbækistöð sína í meira en hálfa öld í gömlu timburhúsi, sem félagið kom þó upp af þeim stórhug, að lengi framan af leigði það helming húsrýmisins. Nú er þetta hús fyrir löngu orðið langtum of lítið, svo þó að þrengt sé að starfsfólkinu, svo sem framast má verða, verður Búnaðarfélag Íslands að leigja húsnæði í þrem stöðum úti í bæ fyrir starfsemi sína. Það er líka viðurkennt af öllum, er til þekkja, að þessi vöntun á góðu húsnæði á einum stað stórháir allri starfsemi félagsins og hefur gert það í mörg ár. Búnaðarfélag Íslands þarf því miklu rýmra húsnæði, en það hefur nú, þótt leiguhúsnæðið sé með talið, og varð að sjálfsögðu að taka tillit til þess.

3) Tillit varð að taka til þess, að Alþingi og ríkisstjórn hafa frá öndverðu falið Búnaðarfélagi Íslands ný og ný viðfangsefni, nú síðast yfirumsjón með útrýmingu minka og refa. Engin skynsamleg ástæða er til að ætla, að breyt. verði á þessu. Þvert á móti, hinar miklu og öru breyt. á íslenzkum landbúnaði hafa í för með sér ný viðfangsefni, sem krefjast úrlausnar. En allt slíkt krefst aukinna starfskrafta og venjulega mjög aukins húsrýmis. Fyrir þessu varð því að sjá í hinni nýju byggingu.

4) Eins og kunnugt er, þá er búnaðarþing nú háð árlega. Verður ekki hjá því komizt að ætla því sómasamlegt húsnæði og vinnuskilyrði, meðan það situr að störfum. Í mörg ár hefur búnaðarþing orðið að hrökklast úr einum stað í annan. Hentugir fundarstaðir liggja ekki á lausu. Venjulega eru þeir bundnir til afnota fyrir þau félög, sem yfir þeim ráða. Búnaðarþing hefur því iðulega orðið að fresta fundum sinum, jafnvel að fella alveg niður fundi, af því að aðrir þurftu að nota húsið, sem áttu rétt á því. Þetta er með öllu óþolandi og hefur stórtafið störf búnaðarþings. Það er því öllum ljóst, er til þekkja, að ætla verður búnaðarþingi sómasamlegt húsrúm í hinni nýju byggingu til þinghaldsins og annarra starfa, er því tilheyra. Þetta varð byggingarnefndin einnig að hafa í huga, þegar hússtærðin var ákveðin.

5) Þá er það alkunnugt, að bændur og annað sveitafólk, sem kemur til Reykjavíkur til að reka erindi sín, á oft örðugt með að fá húsaskjól nema helzt á rándýrum gististöðum, og gisting fæst þar oft ekki heldur. Ef þetta fólk á ekki ættingja eða vini, sem skjóta skjólshúsi yfir það og troða því inn hjá sér, oft meira af vilja en mætti, verður það að sofa í bifreiðum eða liggja úti að sumrinu. Þörfin fyrir að ráða bót á þessu ófremdarástandi fer vaxandi. Bættar samgöngur innanlands leiða til fjölgunar bæði beinna ferða og viðskipta sveitafólks víðs vegar af landinu við fólk og stofnanir í höfuðstaðnum. Allt þetta kallar eftir, að úr þessu verði bætt. Það orkar því ekki tvímælis, að engum er skyldara að leysa úr þessum vandræðum sveitafólksins, en Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda með aðstoð bændanna sjálfra. Á Norðurlöndum átti sveitafólkið við sömu örðugleika að etja, er það kom til bæjanna. Norskir bændur leystu úr þessu þannig, að félög þeirra reistu í öllum stærri bæjum Noregs hin svokölluðu bændahús eða bændaheimili, þar sem sveitafólk getur fengið gistingu og greiða fyrir hóflegt gjald. Í byggingunni við Hagatorg er nokkurt rúm ætlað til þessara nota. Með því á að gera tilraun til að bæta úr vandræðum sveitafólksins og því ófremdarástandi, sem hér hefur verið lýst og byggja í því efni á langri reynslu frænda okkar, Norðmanna.

6) Stéttarsamband bænda og framleiðsluráð landbúnaðarins eru ungar stofnanir. Samanborið við Búnaðarfélag Íslands eru þær eins og börn í reifum. Nú þegar eftir fá ár eru þessar stofnanir að sprengja utan af sér það húsnæði, er þær hafa haft. Ýmis verkefni bíða og vaxandi og fjölþættari starfsemi, en verið hefur og þá fyrst og fremst hagfræðilegar rannsóknir varðandi landbúnaðinn og hag bændastéttarinnar. Það kemur því ekki annað til mála, en að ætla þessum stofnunum húsnæði, sem væri við vöxt.

Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir þeim ástæðum, er voru þess valdandi, að byggingarnefnd og stjórnir beggja félaganna, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, féllust á þá uppdrætti og till., sem húsið er byggt eftir. Hús félaganna við Hagatorg er byggt við vöxt, á sama hátt og þegar núverandi búnaðarfélagshús var byggt um og eftir síðustu aldamót. Nú eins og þá verður fyrst um sinn leigður út sá hluti, sem félögin þurfa ekki nú þegar að nota vegna starfsemi sinnar.

Um stærð húsa má lengi deila. Einn vill skera allt við nögl, annar miðar stærðina við líðandi stund og klastrar svo við húsið, ef til vill á næstu árum og þriðji vill byggja við vöxt. Reynslan er á þá leið, að þeir, sem fjárráð hafa, velja síðasta kostinn. Þannig hefur Fiskifélagið, sem er eins konar systurfélag Búnaðarfélags Íslands, verið að byggja stórhýsi upp á 6 hæðir fyrir starfsemi sína við hliðina á húsi félagsins, er þar var fyrir og byggt var fyrir um 20 árum. Þetta stórhýsi er byggt fyrir fé, sem tekið hefur verið af útgerðarmönnum og sjómönnum með útflutningsgjaldi af útfluttum sjávarafurðum og er hliðstætt búnaðarmálasjóðsgjaldinu. Þessi bygging, sem er upp á 6 hæðir, eins og áður er sagt, er byggð svo við vöxt, að Fiskifélagið hefur nú þegar leigt ríkisútvarpinu rúmlega hálfa þriðju hæð í þessu nýja húsi fyrir starfsemi þess og að því er sagt er til næstu 10 ára. Þetta er talin í alla staði hyggileg ráðstöfun, og engin rödd hefur heyrzt til mótmæla frá þeim, sem leggja fram féð. Af þessu er ljóst, að það eru a. m. k. fleiri félagsstofnanir, en Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, er telja hyggilegt, eins og nú hagar til, að byggja nokkuð við vöxt, þegar byggt er á annað borð og leigja heldur það verðmætasta af húsrúminu, meðan þess er ekki þörf fyrir starfsemi félagsins.

Þá hefur verið reynt að koma því inn hjá bændum, að verið sé að byggja stórhýsi fyrir fé búnaðarmálasjóðs, sem ekki eigi sinn líka í þessum bæ. Í því sambandi tel ég rétt að benda á, að nú er verið að byggja hér stórhýsi, sem verður nær því helmingi stærra að rúmmáli, en umrætt hús félagsins, sem nú er í smíðum við Hagatorg. Hið fyrirhugaða hús félaganna við Hagatorg er 25.000 m3, á móti 44.700 m3 í hinu umrædda húsi. Að húsinu við Hagatorg standa félagssamtök um 6.000 bænda, sem byggja yfir starfsemi þeirra. En stærra húsið er byggt af einstökum atvinnurekanda hér í bænum. Og svo virðast stöku menn ætla að rifna af vandlætingu yfir því óhófi að félög um 6 þús. bænda skuli leyfa sér að byggja byggingu, sem er nær helmingi minni, en sambærileg bygging einstaks manns.

Í framhaldi af þessu er reynt að gera byggingarkostnað hússins að ægilegri grýlu í augum bænda með því að hrópa upp um margra milljónatuga byggingarkostnað. Í þessu sambandi er hyggilegt fyrir alla og ekki sízt fyrir okkur, sem fæddir erum allnokkru fyrir síðustu aldamót, að hugleiða, hvað 1 millj. kr. er raunverulega nú á dögum, og minnast þá þess um leið, að í bernsku okkar var t. d. framgengin ær að vorinu almennt seld á 10–12 kr., en nú á 800 kr. og ekki dæmalaust, að þær fari upp í 900–1.000 kr.

En hvernig sem litið er á þetta mál, þá er það staðreynd, að byrjað var á byggingunni sumarið 1956 og byggingin er komin það langt áleiðis, að nú verður ekki snúið aftur. Byggingin kemst upp, hvað svo sem hver segir. Það eina, sem menn geta áorkað með því að fella frv., er að tefja fyrir byggingunni og því, að þær fjárhæðir, sem bændur hafa þegar lagt til byggingarinnar, komi stofnunum bændanna að notum þegar á næstu árum. Með slíkri töf væri þá það unnið að skaða bændastéttina í heild um allmiklar fjárhæðir.

Ég læt svo þessa grg. nægja fyrir afstöðu meiri hl. landbn. til frv. Frá mér persónulega vil ég bæta þessu við:

Það er til nokkuð, sem heitir metnaður. Ég hef hingað til ekki verið talinn útausandi á almannafé. En sem bónda er mér það mikið metnaðarmál, að úr því að bændastéttin byggir yfir sig í höfuðstaðnum á annað borð á þessum glæsilega stað, þá sé það gert með þeim myndarbrag, sem elztu stétt landsins er samboðið, og um leið af þeim stórhug, að ekki þurfi að klastra við bygginguna á næstu áratugum, þó að það kosti okkur bændur nokkra upphæð árlega um næstu fjögur ár.