15.01.1959
Neðri deild: 56. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson [frh.]:

Herra forseti. Fyrri hluta ræðu minnar sýndi ég fram á, að það væri ósambærilegt það gjald, sem lagt er til að lagt verði á búvörur bænda, og útflutningsgjald sjávarafurða, vegna þess að ósennilegt er, að útgerðarmenn sjálfir greiði útflutningsgjaldið, eins og nú er háttað öllu fyrirkomulagi með útgerð. Sennilegra er, þegar krafa er gerð um auknar bætur útflutningnum til handa, að þá sé sú prósenta, sem útflutningsgjaldinu nemur, höfð til hliðsjónar og ríkissjóður og útflutningssjóður greiði því hærri styrk til útgerðarinnar, sem útflutningsgjaldinu nemur. Ef útflutningsgjaldið væri tekið af launum sjómanna eða verkamanna, sem að aflanum vinna, þá væri það hliðstætt því, sem lagt er til að gert verði við bændastéttina. Enginn hefur viljað koma með slíkt frv. inn í Alþingi, sem gengur í þá átt að taka hluta af launum verkamanna og sjómanna og ráðstafa með löggjöf. Miklu frekar hafa verkamenn, þegar þeir hafa hugsað sér að koma upp húsnæði yfir sjálfa sig, viljað koma því inn í samningana, að atvinnurekendur greiddu vissan hluta í því skyni. Og veit ég, að hv. alþm. muna allir um það, og skal enginn dómur á það lagður hér annar en sá, að verkamenn hafa álitið, að þeir væru ekki það vel launaðir, að þeir hefðu efni á því að láta hluta af sínum launum í því skyni. En þá er spurningin þessi, hvort bændur eru það vel launaðir almennt, að þeir geti misst hluta af sínum launum, ekki aðeins til þess að byggja nauðsynlegt húsnæði yfir Búnaðarfélagið og bændasamtökin, heldur til þess að byggja hér sýningarsali og verzlunarhús, til þess að leigja út, því að það hefur ekki verið vefengt, að tekjur búnaðarmálasjóðs, eins og þær eru nú samkv. lögum, eru nægilegar til þess að byggja stórhýsi hér í bænum, stórhýsi, sem nægir fyrir Búnaðarfélag Íslands og bændasamtökin í heild. Það hefur ekki verið vefengt, að þetta frv. er flutt eingöngu vegna þess, að bændasamtökin ætla að byggja stærra húsnæði, en bændasamtökin og Búnaðarfélagið þurfa, það er vegna þess, að bændasamtökin ætla að byggja húsnæði til þess að leigja út, verzlanir, sýningarsali, hótel og skrifstofur. Þetta hefur beinlínis verið upplýst í þeim ræðum, sem flm. þessa frv. hafa flutt hér í hv. deild.

Ef bændur væru almennt það vel launaðir, að þeir hefðu fé aflögu til þess að leggja fram í þessu skyni, þá væri ekkert við því að segja. En því miður er þessu ekki þannig farið. Sem betur fer, eru nokkuð margir bændur, sem hafa það rífleg fjárráð, að þeir geta leyft sér þetta, en meiri hluti bændastéttarinnar berst í bökkum, eins og kallað er og hefur ekki fjármagn aflögu, en verður hins vegar, eins og kunnugt er, — og ég veit, að margir hv. þm. þekkja það, — að fjöldinn verður að neita sér um ýmisleg þægindi, sem talin eru sjálfsögð öllum almenningi til handa hér í Reykjavík. Ég hef ferðazt víða um landið og það er ekki frekar í mínu kjördæmi, en í öðrum landshlutum, sem þetta blasir við, að þrátt fyrir allar framfarir síðustu ára, þrátt fyrir miklar byggingar í sveitum landsins síðustu árin, þrátt fyrir aukna véltækni og framfarir á ýmsum sviðum, þá blasir það við víða, þar sem maður kemur, að á heimilin vantar það, sem hér í Reykjavík a. m. k. er talið til brýnustu þæginda. Það vantar ýmislegt í heimilin, sem mætti prýða þau og gera þau þægilegri, það vantar vélar, það vantar tæki, það vantar betri byggingar, og það vantar ýmsar framkvæmdir enn í sveitum landsins, sem kalla að og nauðsynlegt er að koma í framkvæmd, til þess að fólkið uni þar betur hag sínum, en verið hefur undanfarið og það er þess vegna, sem þessir bændur, sem ég tala nú um, hafa ekki efni á því að missa hluta af sínum launum, til þess að það fari í óþarfa fjárfestingu hér í bænum. Bændur þurfa að nota allar sínar tekjur í eigin heimili og fyrir fjölskyldu sína.

Það hefur oft verið talað um flutning á fjármagni úr sveitunum til Reykjavíkur. Er ekki með þessu frv. verið að stuðla að því að flytja fjármagn úr sveitunum, sem þær ekki mega missa, hingað til höfuðstaðarins? Það getur vel verið, að ýmsir kaupstaðarbúar haldi, að það sé svo vel búið að bændastétt landsins, að hana muni ekkert um það, sem hér er um að ræða, það séu slíkir smámunir, að hana muni ekkert um það, það sé svo vel búið að bændastéttinni í verðlagningu afurðanna, að hún geti vel misst þetta. Og þegar það kemur til, að ýmsir ágætir forustumenn bænda flytja frv. eins og þetta, þá væri eðlilegt, að þeir, sem ekki eru kunnugir staðháttum í sveitum, tryðu því, að bændur hefðu fjármagn aflögu til slíkra framkvæmda eins og hér er talað um. Í öðru lagi geta ýmsir kaupstaðarbúar trúað því, að vel sé að bændastéttinni búið, vegna þess að þeir sjá, að útsöluverð á landbúnaðarvörum er, a. m. k. að þeirra dómi, mjög hátt. En það er fróðlegt fyrir kaupstaðarbúann að gera sér grein fyrir því, hvað bóndinn fær í sinn hlut af söluverði landbúnaðarvaranna. Það er kunnugt, að raunverulegt söluverð á mjólk í dag er kr. 5.82 lítrinn, að hann er seldur í búðum núna á kr. 3.40, en niðurgreiðslan er kr. 2.42. Hins vegar veit ég, að mörgum kaupstaðarbúanum finnst það ótrúlegt, að bóndinn fái ekki í sinn vasa nema sem svarar kr. 3.30 í mesta lagi. Og þannig er það með fleiri landbúnaðarvörur, t. d. kjötið. Þótt betur sé ástatt með það, en með mjólkina, þá er vitanlega ákaflega mikill munur á því, sem neytandinn borgar fyrir kjötið, og því, sem bóndinn fær.

Það er merkilegt, hvað mikil tilhneiging er til þess að plokka utan af því, sem bændur fá fyrir erfiði sitt við að framleiða landbúnaðarvöruna. Við höfum t. d. haft grænmetisverzlun í 30 ár, Grænmetisverzlun ríkisins, en hagur hennar er svo bágborinn, að hún á engar geymslur fyrir kartöflur eða annað grænmeti, og hinn nýi forstjóri Grænmetisverzlunar ríkisins hefur fundið það ráð að taka 10 kr. af hverjum poka, sem hann tekur á móti, í gjald, sölugjald, sem lagt verður í byggingarsjóð hjá Grænmetisverzlun ríkisins til þess að koma upp kartöflugeymslu. Ég segi þetta ekki forstjóranum til lasts, það má kannske miklu frekar segja honum það til hróss, ef hann sér engin önnur ráð til þess að koma upp kartöflugeymslum, því að þetta fyrirtæki getur vitanlega ekki starfað án þess að hafa ráð á slíkum geymslum. En það er eigi að síður staðreynd, að það er hvað eftir annað höggvið í sama knérunn. Það segja e. t. v. sumir: Hvað munar bóndann um 10 kr. á poka? En hvað kostar að framleiða 100 poka af söluhæfum kartöflum? Hvað þarf bóndinn oft og hans skyldulið að beygja bakið til þess, og hvað þarf hann til þess að kosta beinlínis í peningum, í áburðarkaup og annað slíkt? En þetta er eigi að síður 1.000 kr. gjald af 100 pokum, sem af bóndanum er tekið í þessu skyni. Þetta er aðeins eitt dæmi um það, hvað af bændunum er plokkað. Og ég spyr: Eru ekki fleiri en ég fróðir um það, að meiri hluti bændanna má ekki við þessu, að meiri hluti bændastéttarinnar í dag býr við þau kjör, að stéttin á fullt í fangi með að standa í skilum með lífsnauðsynjar sínar? Ef til vill ættu a. m. k. þeir, sem mesta sök eiga á því, hvernig hag bændastéttarinnar er komið, að hafa gert sér grein fyrir þessu, því að það eru vitanlega þeir, sem lögðu hina þungu skatta á allar rekstrarvörur og brýnustu nauðsynjar núna síðustu tvö árin.

Það er vitað mál, að með bjargráðalögunum frá s. l. vori voru aðfluttar vörur hækkaðar um hvorki meira né minna, en sem svarar 40%, og þær vörur mest, sem tilheyra rekstri atvinnuveganna og þá ekki sízt landbúnaðarins, þær vörur, sem fram að þessu hafa verið taldar til brýnustu lífsnauðsynja. Og þetta kemur vitanlega þyngst niður á bóndanum, vegna þess að hann þarf á rekstrarvörunum að halda. Fóðurbætirinn hækkar um 50–80%, áburðurinn, ef till. okkar verður ekki samþykkt, sem hér var til umræðu í gær, um 40%, vélar, áhöld og aðrar brýnustu nauðsynjar eftir þessu. Þegar þessi lög voru til umræðu á s. 1. vori, var talað um, að það væri réttmætt að hækka fóðurbæti, hækka áburð og rekstrarvörur til þess að draga úr framleiðslunni, vegna þess að framleiðslan væri orðin of mikil hjá landbúnaðinum. Ég býst við því, að þetta ráð dugi nokkuð, vegna þess að, að óbreyttu munu margir verða að gefast upp og hrökklast frá jörðum sínum. Eða hvernig er ætlazt til þess, að bændur mæti þessum hækkunum? Hefur hlutur þeirra verið bættur að sama skapi? Hvað hafa landbúnaðarvörurnar eða kaup bændanna m. ö. o. hækkað á móts við þá hækkun, sem þeir hafa orðið að mæta með hinum gífurlegu sköttum? Það er vitað mál, að það, sem von er til að landbúnaðarvörurnar hækki í vasa bændanna, verður um 8–10%, en það, sem þeir kosta til búrekstrarins á sama tíma, hækkar um allt að 40%.

Þegar þetta dæmi er athugað, held ég, að mönnum ætti að vera ljóst, að á undanförnum tveimur árum og þá sérstaklega á s. l. ári hefur verið þannig kreppt að bændastéttinni, að hún getur ekki litið björtum augum til framtíðarinnar. Hún sér fram undan margs konar erfiðleika, og eina vonin er það, að hennar hlutur verði réttur af skilningsbetri mönnum en þeim, sem stjórnuðu þessum aðgerðum á síðasta ári og síðustu tveimur árum. Að öðrum kosti er ekki um annað að ræða fyrir marga bændur en hætta því, sem kallað er búrekstur í sveit.

Ég held, að það sé eðlilegt, að menn geri sér grein fyrir því, á hvaða vegi bændastéttin er stödd í dag, áður en það er samþykkt að lækka kaup hennar og taka hluta af kaupi hennar til þess að leggja í höll hér í Reykjavík, sem bændastéttin sjálf ætlar sér ekki að nota. Ég gerði till. um það við 1. umr. þessa máls, að bændur yrðu spurðir að því, hvort þeir væru samþykkir því, að þannig væri tekinn hluti af þeirra kaupi. Og það var auðvelt, eins og ég áður hef sagt, að gera það með því að senda þetta frv. til umsagnar hreppabúnaðarfélaganna. Það gat tekið stuttan tíma, og ef bændastéttin í heild hefði samþykkt að leggja á sig þessar álögur, þá hefði ég vitanlega og fleiri, sem erum á móti þessu frv., ekki talið ástæðu til þess að vera að tala gegn því. En vegna þess, að ekki hefur verið fallizt á það að spyrja bændur og vegna þess, að ég veit fyrir fram, að meiri hluti bændanna er á móti skattlagningu, tel ég skyldu mína að vera á móti þessu máli. Ég tel það skyldu mína vegna þess, að hlutur bændanna hvað það snertir að koma yfir sína eigin starfsemi húsnæði hér í bænum tefst ekki, því að þeir hafa fé í búnaðarmálasjóði nægilegt til þess að byggja stórt hús, sem gerir meira en að fullnægja þeirra eigin þörfum. Og ég vil biðja menn að athuga það, að bændastéttin, Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, mun ekki, þegar þetta hús er byggt, ef það verður byggt eins og ætlað er, nota þriðja partinn sjálf af húsinu. Það munu a. m. k. 2/3 hússins verða leigðir út fyrir verzlanir, skrifstofur, samkomusali og annað fleira. Og er nokkur hér í hv. d., sem telur, að það sé eðlilegt, að bændur, sem hafa ekki fé til þess að veita sér og sínum brýnustu þægindi, séu að leggja hluta af sínum launum í slíka framkvæmd? Er nokkur hv. þdm. þannig hugsandi, að hann telji þetta eðlilegt?

Þeir, sem standa að flutningi þessa frv., hljóta að telja þetta eðlilegt. En ég bið þessa hv. flm. frv. að endurskoða afstöðu sína. Ég vil biðja þá að endurskoða afstöðu sína og athuga það gaumgæfilega, hvort þeir sækja ekki þetta mál meira af kappi en forsjá og hvort þeir hafa hugsað út í það, hvað þeir raunverulega eru að gera. Það má segja, að það sé dálítið djarft að spyrja svo reynda og þjálfaða þingmenn og virðulega, sem að þessu frv. standa um þetta, — menn, sem eru bændastéttinni velviljaðir, ekki efast ég um það, en menn, sem bændur ekki skilja að þessu leyti. Og það hafa margir bændur spurt mig um það, hvernig standi á því, að þessir menn, sem þeir hafa treyst til margs góðs, leggja það til, að þeir fari að láta hluta af sínum lágu tekjum í hús til þess að leigja kaupmönnum eða öðrum atvinnurekendum hér í Reykjavík. Meðan þeir geta ekki byggt sæmilega yfir sig, meðan þeir geta ekki látið það eftir sér að kaupa nauðsynleg húsgögn og heimilistæki, þá er ætlazt til þess, að það sé tekinn hluti af þeirra launum til þess að byggja hús í Reykjavík til þess að leigja út. Og það er einmitt vegna þess, að flm. þessa frv. eru virðulegir, reyndir og hafa verið góðgjarnir menn í garð bændastéttarinnar, sem bændurnir furða sig á því, að þetta frv. skuli vera flutt af þeim. Ég segi það, að ég er einn í þeirra tölu, sem ekki skilja það, að frv. eins og þetta skuli vera komið frá þessum mönnum. Ég skil það, að þeir vilja fá hús yfir Búnaðarfélagið, þeir vilja fá húsnæði fyrir Stéttarsamband bænda, og það hefði átt að vera komið fyrir löngu. Það er ekki deilt um það, að Búnaðarfélagið þurfi að fá hús. Það er ekki heldur deilt um það, að möguleikar til þess að byggja yfir Búnaðarfélagið og Stéttarsambandið án þess að leggja á nýja skatta hafa verið þangað til í dag, — ég veit ekki, hvað verður sagt hér á eftir. Menn hafa verið sammála um það þangað til í dag, að tekjur búnaðarmálasjóðs, eins og þær eru í dag, væru nógar til þess að byggja 5 hæða hús, sæmilega stórt og vel stórt fyrir Búnaðarfélagið og stéttarsamtökin. Og menn hafa verið sammála þangað til í dag um það, að þetta frv. er til orðið vegna þess, að það á að fara að byggja verzlunarhús, sýningarsali og skrifstofuhúsnæði til þess að leigja út. Og þegar menn gera sér grein fyrir því, og ef menn gefa sér tíma til að hugsa um það, þá hygg ég, að grundvöllurinn fyrir því að samþykkja þetta frv. sé með öllu horfinn. Ég bið menn að hugsa um þetta mál af sanngirni, en ekki af því kappi, sem flm. virðast hafa haft sérstaklega í baksýn, hugsa um það hlutlaust, og þá er ég sannfærður um, að frv. verður fellt eða því vísað frá, eins og minni hl. hv. landbn. hefur lagt til.