19.01.1959
Neðri deild: 58. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Sú deila, sem hér hefur orðið um milljónaskattinn og afurðir sveitanna í búnaðarfélagshöllina, er ekki flokksleg eða persónuleg. Hún er skoðanaleg deila um þýðingarmikla aðferð í skattamálum og um það, hvað það sé, sem mestu varðar af þeim framkvæmdum, sem menn óska að koma í verk. Ég ætlaði mér ekki að gera þessa deilu lengri, en orðið var á undan atkvgr. við 2. umr. hér í hv. d. En sú æsingaræða, sem vinur minn og flokksbróðir, hv. þm. Borgf., hélt hér á dögunum, gerir það að verkum, að ég hlýt að taka málið allt nánar fyrir og segja betur til um það en áður, hvað því veldur, að ég hef frá upphafi verið því andvígur. Ég var það á síðasta Alþingi og eins enn. Í því efni skipta mig engu brigzlyrði, hótanir eða ögranir annarra manna og það án tillits til þess, hverjir það eru, — hvort það eru flokksbræður mínir og vinir eða einhverjir aðrir, skiptir mig ekki sem neitt aðalatriði. Málið er í mínum augum fráleitt öfgamál og það er mér næg ástæða til þess að vera því andstæður.

Í fyrsta lagi er þá þess að geta, sem ekki hefur farið dult, að ég tel öll „prósentugjöld“ á seldar afurðir hina fráleitustu heimsku sem skattagrundvöll og hef verið þeim gersamlega andvígur frá upphafi. Í því efni er í eðli sínu sama, hvort slík gjöld eru lögð á sjávarafurðir eða landbúnaðarframleiðslu. Þau eiga í mínum augum engan rétt á sér. Og það var eins og fleira hreint rugl hjá hv. þm. Borgf., að ég hafi ekki verið andstæður útflutningsgjöldum á sjávarafurðir. Ég hef verið á móti þeim öllum, frá því að ég kom fyrst hér á Alþingi. Eins og nú er komið, er það líka hlálegri heimska, en flest annað, að leggja prósentugjöld á útsöluverð þeirra afurða frá landi eða sjó, sem ómögulegt er að framleiða nema gefa með þeim hundruð millj. kr., sem ýmist er tekið að láni eða lagt á allan landslýð með óhóflegum sköttum og tollum. Og þrátt fyrir allar þær meðgjafir og niðurgreiðslur er það a. m. k. svo um aðalframleiðslu landbúnaðarins, að hún er stunduð með verulegum rekstrarhalla, sem kemur á bændur og þeirra fólk. Tók þó steininn alveg úr í því efni, eftir að ósköpin dundu yfir í s. l. maímánuði frá fyrrverandi ríkisstj., sem að eðlilegum hætti urðu hennar banabiti, þó að nokkur dráttur yrði á því, að hún yrði borin til grafar. En nú á með þessu frv. að bæta 2 milljóna árlegum skatti ofan á rekstrarhalla bændanna, og það er reynt að fleka menn til fylgis við þetta mál með því, að þetta elgi ekki að standa nema fjögur ár. En við, sem höfum um langan tíma verið hér á Alþingi, þekkjum það sem næstum undantekningarlausa reglu um alla tolla og skatta, að þetta er framlengt æ ofan í æ og ár eftir ár. Á sama hátt mun fara með þetta, ef svo ógæfulega vildi til, að það fengist lögfest. Og þótt þetta séu ekki nema 2 millj. kr. á ári, miðað við núgildandi verðlag, hlýtur það að verða miklu meira, þegar það mikla gengisfall okkar krónu kemur til framkvæmda, sem allar líkur benda til að óhjákvæmileg afleiðing verði af þeirri glæframennsku, sem fyrrv. ríkisstj. leiddi yfir þjóðina.

Þá er að minnast á höllina, sem þessi milljónaskattur bændanna á að fara i. Þetta er fyrirhugað 25 þús. m3 hús. Það er tvisvar sinnum stærra að grunnfleti, en hús Búnaðarbankans og á að vera miklu stærra en háskólinn. Nokkur hluti af því á að vera skrifstofuhús fyrir Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda. En meginhlutinn á að verða verzlunarbygging og veitingahús. Ég verð nú að segja það eins og er, að hér í Reykjavík er á öðru meiri þörf, en fleiri og stærri verzlunarhúsum og fleiri og stærri veitingahúsum og gleðisölum umfram það, sem er. Vissulega eru líka takmörk fyrir því, hve lengi er hægt að græða á verzlun og veitingasölu hér í Reykjavík og annars staðar. En þótt áfram væri hægt að hafa hagnað af þvílíkri starfsemi og bændur teldu sér hagfellt að gerast miklir aðilar að samkeppninni við aðra á þessu sviði, þá lít ég svo á og það munu fleiri gera, að þeir hafi annað þarfara við sína fjármuni að gera en að gerast spekúlantar á þessu sviði, hve mikil löngun sem ríkir í því efni hjá búnaðarþingi og meiri hluti þeirra manna, sem mæta á fundi Stéttarsambands bænda.

Í þessu sambandi hlýt ég líka að minnast á það, sem ekki er hægt að komast hjá að nefna, að mér hefur á síðustu árum, einkum seinustu árunum, sárnað það mjög, hve lítið fé hefur fengizt til vega- og brúargerða úti á landsbyggðinni, miðað við allt það gífurlega sukk, sem hefur átt sér stað í ríkisstarfseminni að öðru leyti. Þar er þó um að ræða bein lífsbjargaratriði fyrir mörg byggðarlög. Samtímis hlýt ég líka að minna á það, að á árinu 1958 felldi fyrrv. ríkisstj. niður að standa við ákvarðanir raforkuráðs og gefin loforð raforkumálastjórnarinnar um raforkuframkvæmdir víða um land. Á því sviði er þörfin gífurleg og hvarvetna um landið óskir og vonir ríkjandi um það að fá á nálægum tíma að njóta þeirra lífsþæginda, sem meiri hluti þjóðarinnar hefur þegar fengið.

Þörfin á nýjum vegum, nýjum brúm á árnar og rafleiðslum út um landið er svo brýn, að það eru áreiðanlega fleiri en ég og hv. 1. þm. Rang., sem á því telja meiri þörf, en því að leggja 40–50 millj. kr. í þessa hallarbyggingu hér á Reykjavíkurmelum.

Hv. þm. Borgf. var hér á dögunum með miklar glósur og brigzl um það, að ég og hv. 1. þm. Rang. hefðum ekkert umboð til að tala fyrir bændur, þeir hefðu aldrei treyst okkur til að mæta á stéttarsambandsfundi eða búnaðarþingi og við hefðum jafnvel aldrei starfað í félagssamtökum bænda. Mér datt í hug, þegar þetta kom, hvort ævintýrahöllin væri fyrir fram búin að leiða þennan virðulega þingmann út af línu vitsmunanna eða hvað væri ella að. Sjálfs mín vegna sárnaði mér þetta ekki neitt, því að svona rök gera mér ekkert til. En ræðumannsins vegna sárnaði mér að sjá hann svona langt leiddan.

Ég hef starfað í félögum bænda frá bernsku, var um skeið formaður í elzta búnaðarfélagi landsins, upphafsmaður að stofnun Búnaðarsambands Húnavatnssýslu, sem þá náði yfir báðar Húnavatnssýslur, og formaður þess fyrstu 14 árin, og fleira mætti nefna. En ég hef aldrei lagt neinn hug á það að mæta á fundum Stéttarsambands bænda eða búnaðarþingi, því að bændurnir í mínu héraði hafa falið mér annað þýðingarmeira umboð, sem er fulltrúastarf hér á Alþingi, og sama er að segja um hv. 1. þm. Rang., sem auk þess er kaupfélagsstjóri í voldugu og vel reknu kaupfélagi og auðvitað fyrir félagssamtök bændanna. Allt grobb þm. Borgf. á þessu sviði er því ómerkilegt og svo langt er ekki komið enn, sem betur fer, að Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands geti lagt milljónaskatta á bændur landsins. Það getur Alþ. gert og enginn annar, hvað sem líður kröfum, hótunum og grobbi.

En hvað er svo um vilja bændanna almennt? Um það hefur verið deilt, hvort meiri hluti þeirra væri með eða móti þessu máli. Undir búnaðarfélögin hefur það ekki verið borið og ekki heldur búnaðarsamböndin, þar sem ég þekki til. Flm. hafa heldur ekki getað lagt fram neinar samþykktir frá búnaðarsamböndum eða búnaðarfélögum. En ég skora nú á þá að koma með þær og leggja þær fram á Alþingi, ef þær eru nokkrar til.

Ég hef ekki gengið lengra, en það að lýsa því yfir, að allar líkur benda til þess, að meiri hluti bænda í Norðlendingafjórðungi sé andstæður þessu máli. Ég byggi það á þessum atriðum auk almennra viðræðna við bændur:

1) Á stéttarsambandsfundi í haust voru báðir fulltrúarnir úr Vestur-Húnavatnssýslu á móti þessu máli, annar fulltrúinn úr Austur-Húnavatnssýslu og annar fulltrúinn úr Skagafjarðarsýslu. Af 6 fulltrúum úr þessum þremur sýslum voru 4 á móti, en 2 með.

2) Á síðastliðnum vetri sendu bændafélögin úr Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu harðorð mótmæli gegn þessu máli, og auk þess hef ég þær fregnir bæði bréflega og munnlega úr báðum Þingeyjarsýslum, að þar sé mikil andstaða gegn málinu.

Hv. þm. Borgf. færir það sem sönnun um vilja margra bænda í þessu máli, að gamlir búnaðarþingsmenn, sem því voru meðmæltir, hefðu sigrað í kosningum á s. l. sumri. Ég held, að þetta séu haldlaus rök. Á þetta mál mun lítið eða ekki hafa verið minnzt í þeim kosningum af þeirri einföldu ástæðu, að menn héldu það dautt, vegna þess að það var stöðvað á síðasta þingi fyrir atbeina minn og fleiri manna. Draugurinn var svo vakinn upp á stéttarsambandsfundi í september, þegar kosningar voru víðast afstaðnar. Það kom flestum úti um land á óvart.

Flm. þessa máls hafa brugðið okkur, sem erum því andvígir, um skort á víðsýni og frjálslyndi og þá einkum skort á stórhug og metnaðargirni fyrir hönd bændastéttarinnar. Meira að segja gekk hv. þm. Borgf. svo langt, að hann hótaði mér og 1. þm. Rang. með mikilli hegningu hér í lífi og annars heims, rétt eins og hann hefði ráð á æðri máttarvöldum. Hefur þetta að vonum orðið mikið hlátursefni og gott, ef það á ekki eftir að verða efni í leikritsþátt.

Ég verð nú að segja það, að ég ann þessum mönnum alls góðs hlutar og heiðurs fyrir sinn mikla stórhug og metnað og víðsýni. En skyldurnar verða þá að fylgja heiðrinum, og það ætti að vera auðvelt verk. Þeir þykjast hafa búnaðarþing í vasanum og Stéttarsamband bænda í hinum vasanum, jafnvel búnaðarsamböndin í hinum þriðja. Hví eru þeir þá að leita til Alþingis? Hví eru þeir að koma til okkar, sem þeir segja að bændur hafi ekki gefið umboð? Ég skal ekkert spilla því, að þeir geri það, sem þeir eiga að gera. Þeir eiga að njóta heiðursins og metnaðarins, og þeir eiga að innheimta sjálfir peningana hjá bændunum, þessum víðsýnu og frjálslyndu, þessum stórhuga og metnaðargjörnu mönnum, sem telja milljónahöllina meira virði, en allt annað. Þeir geta notað búnaðarþingið og Stéttarsambandið. Þeir hafa þar frjálsar hendur og þurfa ekkert að miða við toll á afurðir. En þeir eiga að láta okkur, þessa þröngsýnu og metnaðarlitlu, í friði. Engu af þessu skal ég mótmæla. Hinu mótmæli ég, og ég mótmæli því harðlega, að skattaálöguvald Alþingis sé notað til þess að kúga þann hluta bændastéttarinnar, sem er á móti þessu máli, til þess að leggja fram gegn vilja sínum háar fjárhæðir til greiðslu á þeim öfgum, sem hinir hafa stofnað til án heimildar.

Við skulum ekki fara lengra á hvoruga hlið en svo að gera ráð fyrir, að bændastéttin skiptist í jafna helminga um þetta milljónafyrirtæki. Þeir, sem eru hlaðnir grobbi, eins og hv. þm. Borgf., um sína víðsýni, frjálslyndi, stórhug og metnað, þeir eiga að njóta þess. En ofan á öll önnur sligandi útgjöld hafa þeir engan rétt til þess að fá því framgengt að kúga hinn helming bændastéttarinnar til þess að bæta enn milljónasköttum ofan á þann hallarekstur, sem ríkisvaldið er búið að setja landbúnaðinn í.

Mennirnir hafa til þess allan rétt að gera upp innanstéttar ágreiningsmál, þar sem það á við, bæði um þetta mál og önnur. En vald Alþingis á ekki að nota til þess að gera upp slík deilumál á þann hátt, að annar helmingurinn geti kúgað hinn, — ef ekki þá hitt, sem er allt eins líklegt, að minni hlutanum sé hjálpað til þess að kúga meiri hlutann. Á þessum grundvelli hef ég flutt mína rökstuddu dagskrá á þskj. 152. Og á þessum grundvelli vil ég mega vænta þess, að meiri hluti hv. þdm. samþykki hana.