02.02.1959
Neðri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við þetta frv. í tveim liðum. Brtt. er á þskj. 177. Fyrri liður er um það, að við ákvæði til bráðabirgða bætist ný málsliður, svo hljóðandi: „Gjöld þessi teljast með framleiðslukostnaði landbúnaðarvara, og skal tekið tillit til þess við verðlagningu þeirra.“

Vegna þess að við umr. um þetta mál hefur oft verið vitnað í Fiskifélagið og gjald, sem lagt hefur verið á útflutning sjávarafurða, þykir mér tilhlýðilegt að flytja brtt. í þessu formi, vegna þess að það er alls ekki sambærilegt, þetta búnaðarmálasjóðsgjald, nema till. í þessu formi verði samþykkt við frv.

Það er kunnugt, að verkamenn og sjómenn, sem vinna við sjávaraflann, borga ekkert af sínu kaupi vegna útflutningsgjaldsins. Það er einnig vitað, að þegar útgerðarmenn gera sínar kröfur og eru í samningum við ríkisstj. um verðið á afurðunum og styrkinn úr útflutningssjóði, þá er útflutningsgjald sjávarafurða reiknað þar með. Það eru þess vegna hvorki útgerðarmennirnir, sjómennirnir né verkamennirnir, sem borga útflutningsgjaldið úr sínum vasa.

Eins og frv. um búnaðarmálasjóð er, þá er það alveg ósambærilegt við það, sem gildir um gjald á útfluttar sjávarafurðir. Það verður sambærilegt, ef þessi fyrri tillöguliður minn verður samþykktur. Og ég vil minna hv. alþm. á það, að eins og frv. er nú, þá er beinlínis verið að taka vissan hundraðshluta af launum bænda. Það er tekið af söluverði afurðanna, eftir að búið er að verðleggja þær, og það eru bændurnir sjálfir, sem greiða þetta gjald, alveg í mótsetningu við það, sem gildir um útflutning á sjávarafurðum. Ég er dálítið undrandi yfir því, ef hv. Alþingi ætlar sér með lögum að lækka þannig kaupgjald bændastéttarinnar, án þess að hún hafi haft tækifæri til þess sjálf að lýsa skoðun sinni á því, hvort hún vill taka á sig þessa kröfu.

Ég hef til vara flutt till. á sama þskj., lið 2, þar sem segir svo: „Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu, skal Búnaðarfélag Íslands hlutast til um, að fram fari um þau almenn atkvgr. í öllum hreppabúnaðarfélögum landsins. Þau taka gildi, ef meiri hluti þeirra bænda, sem þátt taka í atkvgr., er þeim samþykkur“.

Að sjálfsögðu er till. nr. 2 óþörf, ef fyrri liðurinn verður samþykktur, því að þá tel ég, að það sé ekki verið að leggja kvöð á bændur, þeir fái það bætt í verðlaginu, sem af þeim er tekið í útflutningssjóð. En verði fyrri liður till. felldur, tel ég ósæmandi annað, en bændum verði með almennri atkvgr. í hreppabúnaðarfélögunum gefinn kostur á því að segja hug sinn allan í þessu máli.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en það verður eftir því tekið, hvort hér á Alþingi verður lögbundinn skattur á bændastéttina, án þess að hún fái hann að nokkru bættan, eða þá það, að þeim verði einnig meinað að segja til við almenna atkvgr. í hreppabúnaðarfélögunum um það, hvort þeir eru þessari skattlagningu samþykkir.