02.02.1959
Neðri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég það glögga grein fyrir minni afstöðu til þess, að ég þarf ekki mikið að endurtaka af því, sem ég sagði þá, því að afstaða mín í því efni er algerlega óbreytt við það, sem þá var. En það kom í ljós við þá atkvgr., að það var verulegur meiri hl. hv. þdm. með því að samþykkja þennan milljónaskatt, sem með þessu frv. á að leggja á bændastéttina, og þá verðum við náttúrlega, sem í minni hl, erum, að hlíta því. En ég mun greiða atkv. meið till. hv. 1. þm. Rang. um það, að þetta gjald sé tekið inn í verðlagið, til þess að í því sé samræmi við það, sem gerist hjá sjávarútveginum. Og verði sú till. felld, sem mér þykir furða, ef verður eftir það, sem á undan er gengið, þá mun ég greiða atkv. með hans síðari till., enda þótt betra hefði verið að komast hjá því að fara að vísa þessu máli heim í búnaðarfélögin.

En út af þessu kvaddi ég mér nú ekki sérstaklega hljóðs, heldur vegna þess, að hér hafa verið dregin inn í þetta mál önnur stærri atriði varðandi hag og aðstöðu íslenzku bændastéttarinnar, og það skýtur heldur skökku við frá því, sem áður hefur verið, þegar hér rísa upp tveir framsóknarmenn, sem hafa staðið að því, hvernig hefur verið búið að bændastéttinni á undanförnum árum í verðlagi, og koma nú úr allt annarri átt og með mikilli kröfuhörku að því er virðist, þegar þeirra flokkur er kominn úr ríkisstj.

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi og einkum síðustu árin, að verðlag landbúnaðarvara, þó að mörgum þyki það hátt, þá sé það langt frá því að svara þeim tilkostnaði, sem við framleiðsluna er, og oft hafi verið misbrestur í því efni hvað verðlag snertir, þannig að það væri hægt að reka landbúnaðinn hallalaust. Þó tók alveg steininn úr í því efni haustið 1957, þegar eftir 2 ára verðhækkanir, ný launalög með gífurlegri hækkun, stórhækkun á öllu kaupgjaldi og annað, þá var verðgrundvöllur landbúnaðarafurða aðeins hækkaður um 1.8%. Meira hnefahögg hefur aldrei verið rétt til íslenzkra bænda, en þá var gert. Þetta var að vísu nokkuð leiðrétt á síðasta hausti og þó engan veginn nóg til þess að fullnægja því, sem fullnægja þarf, að rekstur landbúnaðarins geti verið hallalaus. Og svo er það náttúrlega að athuga, sem eðlilegt var að margir héldu fram þá eftir alla hækkunina, að það er okkur bændum ekki nóg og engan veginn trygging fyrir öruggri afkomu, þó að verðið sé alltaf hækkað, því að salan er ekki örugg fyrir því. Ef salan væri örugg á framleiðslunni með eðlilegu verðlagi, væri náttúrlega ekki um neitt að sakast.

En af því að þetta mál var dregið inn í þessar umr. sérstaklega varðandi þá till., sem var hér til meðferðar á dögunum snertandi frv. um niðurfærslu verðlags og kaupgjalds, þá verð ég að taka það fram, að ég taldi, að þessar misfellur, stórkostlegu misfellur, sem hafa verið á verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða, að það væri ekkert tækifæri til þess að leiðrétta þær í sambandi við það frv., — frv., sem er eiginlega fyrsta alvarlega og heiðarlega tilraunin, sem gerð er til þess að stöðva dýrtíðarskrúfuvitleysuna, sem vísitalan hefur orsakað og er hér allt að keyra í kaf. Og það var alveg réttilega skýrt hjá hæstv. forsrh., að ef væri farið inn á það að ætla sér að fara að leiðrétta verðgrundvöll landbúnaðarvara með þessu frv., þá væri þessu máli ýtt út á hála braut og þá færi allt spilið úr böndunum. Hitt var þó talsvert verulegur vinningur frá því, sem áður hafði verið, að í því frv. er ákveðið, að það megi þó breyta verðlagi landbúnaðarvara 4 sinnum á ári, sem aldrei hefur áður verið. Og sú aðferð var ákveðin varðandi afurðir sjávarútvegsins. Það má náttúrlega segja, að hvort tveggja sé ekki sem allra skynsamlegast, ef litið væri á það frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar, að útfæra vísitöluvitleysuna alveg yfir framleiðsluna líka. En ég var ekkert hikandi við að greiða þessu atkv., því að ég álít það eitt bezta ráðið til þess, að þessi höfuðvitleysa íslenzkra fjármála springi algerlega sjálf. Og ef það hefði verið búið að koma þessu á fyrir 10 árum, þá væri þessi sápukúla vitleysunnar áreiðanlega sprungin fyrir löngu, því að þá væri ekki hægt, eins og gert hefur verið ár eftir ár með öllum skattahækkunum og launahækkunum, að níðast jafnmikið á framleiðslunni til sjávar og sveita og gert hefur verið og koma því til leiðar, að það er ómögulegt að reka hana nema með svo miklum halla, að það verði að bjarga því með mörg hundruð millj. framlögum frá því opinbera.

Þetta vildi ég taka hér fram að gefnu tilefni, að ég greiddi atkv. gegn þeirri till. á þeim grundvelli, að það væri með öllu óverjandi að ætla sér að eyðileggja tilraun hæstv. ríkisstj. með því að fara að setja inn í það sprengitillögur, enda þótt á því væri full þörf að leiðrétta hinn fyrri verðlagsgrundvöll og þótt það verði að gerast.