03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli, mönnum er það svo kunnugt. Ég skal minna á það, að málið er um það eitt, hvort bændasamtökin í landinu eigi að fá stuðning ríkisvaldsins í því og leyfi til þess að leggja ½% viðbótargjald á þeirra söluafurðir og renni það í búnaðarmálasjóð, sem aftur greiði það til Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélagsins til húsbyggingar hér í Reykjavík yfir sína starfsemi. Þetta er efni frv.

Ég skal minna á það, að 1946 var samþ. að leggja sams konar gjald á sjávarútveginn og láta 1/8% af því renna til húsbyggingar fyrir félagsstarfsemi hans. Það var síðan hækkað árið eftir upp í 3/4% og seinna upp í 2%, og fyrir það hefur verið byggt hús yfir Fiskifélag Íslands og starfsemi þess.

Ég skal minna á það, að bannað er að breyta íbúðarhúsnæði í Reykjavík til annarrar notkunar. En þörfin fyrir húsnæði fyrir félagsstarfsemi einstakra félaga hefur verið það mikil, að Alþingi hefur tvívegis leyft að breyta íbúðarhúsnæði og taka það undir félagsstarfsemi félaga og núna á þinginu munu liggja fyrir eitt eða tvö frv. um það sama.

Allt þetta sýnir, að félagsstarfsemin í ýmsum myndum og hjá ýmsum stofnunum og félögum hefur brýna þörf fyrir það að hafa hús fyrir sína starfsemi. Þegar Búnaðarfélag Íslands var stofnað 1899, hafði það vitanlega ekkert húsnæði. Þá gaf frú Þóra Melsteð þá lóð, sem félagið síðan byggði á hús, sem þá þótti ákaflega mikið ofviða fyrir starfsemi félagsins, enda var það þá, allt nema 2 stofur, leigt út til annarrar starfsemi. Meðal annars voru þar efnarannsóknarstofur ríkisins á annarri hæðinni um margra ára skeið. En starfsemin hjá Búnaðarfélaginu hefur smám saman færzt í aukana eins og hjá öðrum félagsstofnunum í landinu yfirleitt, og þetta hús, sem ekki var notað nema hér um bil að einum fjórða, þegar það var byggt, af Búnaðarfélaginu sjálfu, og þó ekki einu sinni 1/4, það er nú orðið svo lítið, að Búnaðarfélagið er með leiguhúsnæði á þrem stöðum úti í bæ, og býr þó alls staðar við svo þröngar aðstæður, að það stendur því fyrir þrifum.

Bændasamtökin, sem eru „representeruð“ hér af búnaðarþinginu, þar sem sitja 25 menn kosnir af búnaðarsamböndunum, hefur óskað eftir því með mikið til samhljóða atkv, það voru 2 á móti, — að lög um þetta efni yrðu samþykkt og bændunum gert kleift að innheimta þetta gjald hlutfallslega jafnt af bændum eftir því, hvað framleiðsla þeirra væri mikil. Það er það, sem í frv. felst. Það er borgað af framleiðslunni, 12% af henni, og kemur þess vegna jafnt niður á þá, miðað við, hvað framleiðslan er mikil. Stéttarsambandsfundur bænda á s. l. sumri tók svo málið líka fyrir og samþykkti með shlj. atkv. móti 8 að mæla með því, að frv. væri samþykkt.

Þetta eru æðstu samtakastofnanir bændanna, annars vegar á faglega sviðinu og hins vegar á stéttarsambandssviðinu og sýnir þetta þess vegna greinilega hug þeirra. Það, sem frv. fer svo fram á, er ekki annað en þetta, að Alþingi leyfi þeim með lögum að jafna gjaldinu niður eftir sölumagni hvers eins og rukka það þannig inn.

Við erum sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt, en einn nm. er með fyrirvara og gerir grein fyrir honum, þar sem hann flytur brtt. við frv.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri, ég álít þess ekki þurfa. En þó kann að vera, að eitthvað gefi mér tilefni til að tala aftur.