19.03.1959
Efri deild: 89. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

132. mál, bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það er nú í þriðja sinn, sem hæstv. ríkisstj. kemur til Alþ. með beiðni um framlengingu á þessari greiðsluheimild. Þegar síðast var verið með þetta mál hér, var hæstv. ríkisstj. boðið upp á að framlengja helmingi lengri tíma, en hún þó fór fram á. Hún þáði þetta boð með þökkum, og henni hefur þó ekki enzt þessi tími. Nú sagði hv. frsm. meiri hl. fjhn. hér áðan, að líklega mundi mega vænta þess, að þessi tími nægði. En hvað hefur hv. frsm, fyrir sér í því? Mér finnst, að reynslan og allt, sem við höfum við okkur að halda í þessu máli, bendi til hins gagnstæða, að við getum ekki vænzt þess, að þessi tími muni nægja. Vinnuafköst hæstv. ríkisstj. eru með þeim hætti, að mér finnst vera full ástæða til að íhuga, hvort þessi tími muni nógu langur.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta, en ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann frestaði umr. nú og kæmi þeim skilaboðum áleiðis til hæstv. fjmrh., hvort ekki væri vissara að veita heimildina til 1. júní.