20.03.1959
Efri deild: 90. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

132. mál, bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta og hv. fjhn. fyrir fljóta og góða afgreiðslu á þessu máli. Svo óheppilega vildi hins vegar til, að þegar málið var tekið fyrir hér til umræðu í gær í hv. deild, gat ég ekki mætt á fundi deildarinnar. Þegar gengið var frá dagskrá fyrir reglulegan fund þessarar deildar í gær, var þetta mál ekki komið til deildarinnar og var það þess vegna ekki á dagskránni, og átti ég þess vegna ekki von á, að málið yrði tekið fyrir í gær. Hins vegar var haldinn aukafundur um málið, en þegar til þess fundar var stofnað, hafði ég ráðstafað tíma mínum, þannig að ég gat ekki mætt á fundi deildarinnar.

Það, sem ég hef hins vegar að segja um þetta mál, er ákaflega lítið. Ég hafði gert mér vonir um það, þegar gengið var frá framlengingunni á heimild til bráðabirgðafjárgreiðslna úr ríkissjóði til marzloka þetta ár, að fyrir þann tíma mundi vera búið að afgreiða fjárlög, þannig að ekki þyrfti á frekari bráðabirgðaheimild að halda. Hins vegar hefur það komið í ljós við framkvæmd málsins, að allur undirbúningur í sambandi við fjárlögin var tímafrekari og erfiðari, en maður bjóst við í upphafi. Fyrir tæpum tveim vikum var málið þó það langt komið af minni hálfu, að ég tjáði hv. formanni fjvn., að ég væri tilbúinn til þess að taka þátt í afgreiðslu málsins í fjvn., og óskaði ég eftir því, að nefndin gengi í það fyrir sitt leyti að afgreiða þá þegar tekju- og útgjaldaliði fjárlaganna af sinni hálfu, þannig að hægt væri að sjá, hversu mikil útgjöld ríkissjóðs yrðu að áliti fjvn. Ég óskaði eftir því, að þá þegar yrði farið í að afgreiða öll þau erindi, sem n. höfðu borizt og gera upp þá aðra liði fjárlaga, sem sérstaklega þyrfti að athuga og útgjaldamegin voru. Fyrir mitt leyti var ég reiðubúinn til þess að taka afstöðu bæði til erindanna og einstakra líða. Ég tilkynnti þá jafnframt formanni fjvn., að þegar ég sæi útgjaldatölurnar og heildarútgjaldaupphæðina, mundi ég leggja fram mínar till. að því er varðar tekjuhliðina og mundu þær verða tilbúnar, um leið og útgjaldahlíðin lægi fyrir. Því miður stóð þannig á, að um þetta leyti voru að hefjast tvö stór flokksþing hér í bænum, og voru fjvn.-menn — eins og margir aðrir þm. — svo uppteknir við þessi þing, að störf n. féllu niður á meðan, en strax að þeim loknum byrjaði fjvn. að vinna að málinu, og veit ég ekki betur en hún sé enn að fjalla um útgjaldaliðina og það sé langt komið. Af minni hálfu er bráðabirgðauppgjörið fyrir 1958 tilbúið, og till. mínar um tekjuáætlun samkv. því, hvernig málin standa í dag, eru tilbúnar og munu fara til fjvn. í dag. Samhliða því er unnið að og mjög langt komið að ganga frá þeim áætlunum, sem þarf í sambandi við útflutningssjóðinn og ætti það mál ekki að þurfa að tefja afgreiðslu í fjvn., þannig að eins og málið horfir við nú, er ekkert því til fyrirstöðu, að n. haldi áfram af fullum krafti að afgreiða fjárlögin, og ætti ekki að þurfa að verða neinn verulegur dráttur á því hér eftir, að málin skýrist, svo að hægt verði að ganga frá þeim í n. og leggja fyrir sameinað Alþingi. En engu að síður er það staðreynd, að það er vonlaust, að hægt sé að ljúka þessu fyrir mánaðamótin, og þess vegna óhjákvæmilegt að fara fram á, að heimildin til bráðabirgðagreiðslna úr ríkissjóði verði framlengd út næsta mánuð.

Ég leyfi mér því að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr., og vildi vænta þess, að hægt væri að afgreiða það sem fyrst út úr d., vegna þess að það er varla um meira en einn dag að ræða eftir páska fyrir mánaðamót, ef það verður þá fundur á þeim degi.