20.03.1959
Neðri deild: 97. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

132. mál, bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. seinasta ræðumanns vil ég til skýringa taka fram, að það, sem beðið hefur verið eftir og tafið hefur málið hvað mest, er það, að nauðsynlegt var að ganga frá bráðabirgðauppgjöri um útkomu á reikningum ríkissjóðs fyrir árið 1958. Það tók talsverðan tíma, en er þó lokið fyrir þó nokkru. Sömuleiðis þurfti að ganga frá og gera upp útflutningssjóðinn og gera sér grein fyrir því, hvaða tekjur hann þyrfti að hafa, en frá því var ekki hægt að ganga, fyrr en séð varð til fulls, hvaða útgjöld mundu á hann falla og þá ekki hvað sízt í sambandi við niðurgreiðslur. Þetta er einnig tilbúið fyrir nokkru. En strax og nokkuð var séð um, hvernig þessir hlutir mundu standa, bæði að því er afkomuna 1958 varðaði og útflutningssjóðinn, sneri ég mér til formanns fjvn., — það var fyrir tæpum tveim vikum, — og skýrði honum frá því, að ég óskaði eftir því, að fjvn, færi í gegnum þau erindi, sem hjá n. lægju, svo og útgjaldaliði fjárl. og tæki afstöðu til þeirra, og jafnskjótt sem séð væri, hvernig útgjaldahliðin liti út, eftir að fjvn. væri búin að láta uppi sína skoðun, mundi ég gera grein fyrir og koma með mínar till. að því er varðaði tekjuhliðina.

Því miður stóð svo á, þegar ég ræddi um þetta við formann fjvn., að þá voru að byrja hér í bænum tveir fundir, sem margir þm. voru bundnir við, og af mjög eðlilegum ástæðum gat n. ekki haldið áfram störfum á meðan. En strax og þessum fundum var lokið, mun fjvn. hafa tekið til starfa og er sjálfsagt langt komin með erindin og útgjaldaliði fjárl., og ég mun þá verða tilbúinn með það, sem að mér snýr, strax og ég heyri frá fjvn. um þessa hluti.

Sá dráttur, sem orðið hefur á afgreiðslu fjárlagafrv. til þessa, stafar því af eðlilegum og alveg óviðráðanlegum atvikum.

Ég vil benda hv. síðasta ræðumanni á það, að til þessa eru það ekki einungis fjárlögin, sem hafa tafið þingið og haldið mönnum hér. Hér hefur verið unnið að mörgum nauðsynlegum málum, sem mikið hafa verið rædd í þinginu. En auk fjárl. er enn eitt stórmál ekki fram komið í þinginu, frv. um stjórnarskrárbreytinguna, og það má segja, að það séu því bæði fjárlögin og þetta stjórnarskrármál, sem beðið hefur verið eftir, en væntanlega eru bæði þessi mál nú að komast á lokastig.