25.11.1958
Neðri deild: 28. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

51. mál, skipun prestakalla

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, eru allir hreppar Úthéraðs í Norður-Múlasýslu að viðbættum Jökuldalshreppi tvö prestaköll. Það eru Hofteigsprestakall, sem samanstendur af Hofteigs-, Eiríksstaða-, Sleðbrjóts- og Möðrudalssóknum og Kirkjubæjarprestakall, en til þess teljast Kirkjubæjar-, Eiða- og Hjaltastaðasóknir.

Hofteigsprestakall hefur nú samfleytt verið prestslaust í meira en þrjátíu ár og því ætíð verið þjónað af Kirkjubæjarpresti. Sumarið 1956 hætti þáv. Kirkjubæjarprestur störfum fyrir aldurs sakir. Viðtakandi prestur vildi þó ekki setjast að á Kirkjubæ, og mun hvort tveggja hafa ráðið, ófullnægjandi prestsseturshús, en það er gamalt og úr sér gengið timburhús, og svo eins hitt, að prestinum ásamt ýmsum fleiri áhrifamönnum í prestakallinu þótti mjög æskilegt, að presturinn ætti sæti að Eiðum, en þar er, eins og kunnugt er, fjölmennur alþýðuskóli, og auk þess er nú verið að byggja þar barnaskóla fyrir Eiða- og Hjaltastaðahreppa. Eiðar eru því að sjálfsögðu miðstöð Kirkjubæjarprestakalls, og þar eru búsettir um 40 manns, auk þess sem á veturna eru þar 100–150 börn og unglingar. Það er eðlilegt, að ungur og áhugasamur prestur óski eftir að fá búsetu á þessum stað, og niðurstaðan varð sú, að hann fékk bráðabirgðaleyfi kirkjumálastjórnarinnar til þess að sitja að Eiðum.

Síðan hefur það verið vandamál íbúa Kirkjubæjarprestakalls og einnig íbúa Hofteigsprestakalls, sem um áratugi hafa notið prestsþjónustu Kirkjubæjarprests, hvernig þessum málum skyldi skipað til frambúðar. Skv. lögum ber núv. presti að sitja að Kirkjubæ, en fyrir liggur, að hann muni segja af sér og flytja burt, ef hann fær ekki heimild til þess að sitja að Eiðum. Mætti þá svo fara, að hið víðlenda og erfiða Kirkjubæjar- og raunar líka Hofteigsprestakall yrðu algerlega prestslaus um stund.

Mál þetta hefur nú verið til vandlegrar íhugunar hjá ráðamönnum og áhugamönnum heima í prestaköllunum um tveggja ára skeið, og er nú fengin einróma og yfirlýst ósk hlutaðeigenda um breytingu á umræddum prestaköllum á þá lund, sem frv. það fer fram á, sem hér er til umr. og er borið fram af mér og hv. 1. þm. S-M. með samþykki allra sóknarnefnda í hlutaðeigandi prestaköllum.

Frv. gerir ekki ráð fyrir fjölgun prestakalla og kallar því ekki á nein ný útgjöld. Gert er hins vegar ráð fyrir, að Kirkjubæjarprestakalli verði skipt og stofnað verði nýtt prestakall austan Lagarfljóts, sem nefna skal Eiðaprestakall, og tilheyra því tvær fjölmennustu sóknir núv. Kirkjubæjarprestakalls, þ. e. Eiða- og Hjaltastaðahreppar. Og prestssetrið skal vera að Eiðum.

Lagt er svo til, að Hofteigsprestakall verði lagt niður og sóknir þess lagðar til Kirkjubæjarprestakalls. Þar skal áfram sem áður vera prestssetur Kirkjubær, en bætt við heimild fyrir kirkjumálastjórnina að flytja prestssetrið til innan Kirkjubæjarsóknar, ef henta þætti síðar. Bak við það ákvæði er sú hugsun, að þegar að því kemur, sem er í athugun og vafalítið kemst fyrr eða síðar í framkvæmd, að sameiginlegur barnaskóli verði byggður fyrir norðursveitir Úthéraðs, þá þykir trúlegt, að skólanum verði valinn sá staður, sem einnig kann þá að þykja vel henta sem prestssetur fyrir hið fyrirhugaða Kirkjubæjarprestakall.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál að svo komnu. Ég vil aðeins geta þess til viðbótar, að þetta frv. er samið og flutt í samráði við biskup Íslands. Ég vænti þess, að hæstv. Alþ. taki málinu vel og afgr. það fljótlega. Að lokum vil ég geta þess, að núv. Kirkjubæjarprestur lítur svo á, að prestakallalögin frá 1952 heimili sér, ef af þessari breytingu verður, að kjósa sér það prestakall, sem hann óskar að þjóna, án undangenginna umsókna og kosninga. Ég geri ráð fyrir, að presturinn skilji umrædd lög rétt, en vil þó óska þess, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, skoði þetta atriði. Ef svo er, að þetta álit prestsins styðst ekki við lög, virðist eðlilegt, að ákvæði um þetta atriði verði bætt inn í frv.

Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.