13.03.1959
Efri deild: 85. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

51. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Út af fyrir sig þarf ég ekkert við því að segja, þó að þetta frv. komi nú sem frv. frá Nd., en ekki það frv., sem hér er lagt fyrir fyrr í Ed. Það skiptir engu máli. En það eru einstök atriði í þessu máli, sem ég vildi benda á og jafnvel leyfa mér að vænta þess, að hv. n. í sambandi við hæstv. kirkjumrh. tæki þau atriði til athugunar á milli umr. Ef ekki verður tekið neitt tillit til þeirra, mun ég við 3. umr. koma með brtt.

Það fyrsta, sem mig langar þá til að spyrja um, er þetta: Það mun vera alveg ákveðið að gera við íbúðarhúsið á prestssetrinu á Æsustöðum, og það mun vera búið að lofa, að það sé gert í sumar. Ef það liggur fyrir, að hægt geti verið að flytja prestssetrið þaðan og að Auðkúlu, næst þegar prestaskipti verða, er þá nokkurt vit í því að standa við það, sem stjórnarráðið er búið að lofa, að fara að gera við húsið á Æsustöðum nú í sumar? Öll hús á Æsustöðum eru góð. Prestsseturshúsið er orðið dálítið gamalt. Jörðin var prýðilega setin af séra Gunnari og líka af þeim presti, sem er þar núna, og vitanlega á prestssetrið að vera þar áfram, og vitanlega á að gera þar við húsið í sumar. Það liggur undir skemmdum. Þess vegna er ekkert vit í því að samþykkja á Alþingi að bíða með að ákveða, hvar prestssetrið eigi að vera, þangað til næstu prestaskipti verða, og trassa að gera við húsið, — eða gera við húsið og eiga síðan á hættu, að presturinn fari þaðan og það þurfi að byggja yfir hann á Auðkúlu, en þar eru engin hús nú. Það, sem mig langar til þess að spyrja um fyrst í þessu sambandi, er þetta: Telur ekki hæstv. ráðh. sig skuldbundinn að gera við húsið á Æsustöðum í sumar? Og ef hann telur það, vill hann þá ekki, þrátt fyrir það, þó að eigi ekki að afgera þetta eftir frv. fyrr en næst, þegar verða prestaskipti, láta þegar í sumar ganga til atkv. um það? Þá getur hann staðið við það að gera við húsið á Æsustöðum og dubbað það upp, ef atkvgr. fellur þannig. Annars lætur hann það eiga sig. Hann fer þá að byggja upp fyrir nokkrar millj. kr. á Auðkúlu. Mér finnst ekki vera hægt að afgreiða þetta svona. Eins og málið liggur fyrir þarna, verður að ganga út frá því strax, á hvorum bænum prestssetrið eigi að vera, vegna þess að það þarf að gera við húsið á Æsustöðum. Það verður gert allt öðruvísi við það af ríkisstj. fyrir væntanlegan prest, heldur en bóndi mundi gera, sem keypti jörðina, ef presturinn væri strax settur á Auðkúlu. Það eru gerðar hærri kröfur til húsnæðis hvað prestinn snertir. Þess vegna held ég, ef þetta á að afgreiðast svona, að hæstv. stjórnarráð eigi, þrátt fyrir það þó að það eigi ekki að flytja fyrr, en um prestaskipti, að heimta núna strax atkvgr. um það í sóknunum, á hvorum staðnum þeir vilji hafa prestssetrið, svo að það sé hægt að standa við það loforð, sem búið er að gefa Æsustaðapresti, að gera við húsið nú í sumar. Þetta var það fyrsta, sem ég vildi benda á.

Annað var það, að n. hefur ekki séð sér fært að taka upp neina af þeim brtt., sem ég var með í mínu frv. Hún sér, sér ekki fært að ákveða, að presturinn, sem núna situr á Staðarhóll og er talinn sitja á Hvanneyri að lögum, en Staðarhóll er sérstök jörð, sérmetin, þar er byggt prestsseturshús, þar situr presturinn, og þar á hann að sitja, — nei, hún lætur Hvanneyri samt standa, þó að hann sitji á Staðarhóli, Staðarhóll hafi verið afhentur af ríkinu sem jörð handa prestinum, sé sérmetinn í fasteignamati að öllu leyti, þá lætur hún samt Hvanneyri standa. Þar á hann að vera, þó að hann hafi alltaf búið á Staðarhóli og sé búið að byggja yfir hann þar og það sé sérstök jörð, sérmetin í fasteignamati. Þetta er ekkert annað en leiðrétting, bókstaflega leiðrétting, sett inn í lögin upprunalega í hugsunarleysi, þar sem Staðarhóll var hjáleiga frá Hvanneyri, en nú hefur hún fengið sérstök landamerki og er sér í sínu mati og er sérjörð, og þar situr presturinn. Þetta er ekkert annað en leiðrétting, sem vitanlega var alveg sjálfsagt að taka upp og leiðrétta.

Í öðru lagi lét ég af, — ja, hvað eigum við að segja, — af tilhliðrunarsemi við hæstv. ríkisstj., þá setti ég, að presturinn skyldi búa: „eða á Torfastöðum“. Þegar lögin voru sett, þá var sett í lögin, að hann skyldi búa í Skálholti. Síðan er nýr prestur kominn í sóknirnar, hann er látinn búa á gamla prestssetrinu, Torfastöðum, og ekki fluttur í Skálholt, þó er þar hús, sem stendur tómt. N. hefur þótt betra að láta hann sitja á Torfastöðum í trássi við guð og menn og með einskis manns leyfi heldur en að sitja þar, sem hann átti að sitja eftir lögum. Ég fór svo vægt í þetta, að ég tiltók, að hann skyldi sitja í Skálholti eða á Torfastöðum, af því að hann hefur alltaf setið á Torfastöðum, síðan hann kom, þessi nýi prestur. Vitanlega á hann eftir l. að sitja í Skálholti, verði lögunum hlýtt. N. hefur þótt betra að láta hann sitja á Torfastöðum í trássi við lög og með einskis manns leyfi, heldur en laga það svoleiðis, að hann gæti þó setið löglega á Torfastöðum. Hún hefur ekki séð neina ástæðu til þess að taka tillit til þess, hvað í lögum stendur.

Ég gerði tillögu um prestinn, sem á að sitja á Hvítanesi í Ögur- og Eyrarsóknum. Það hefur verið hálfgert í eyði og gengið úr sér, siðan Vernharður fór þaðan. Siðan kom prestur, sem ekki hefur verið þar, hefur setið úti í Súðavík fast og rólega, þó að lögboðið sé, að hann sitji í Hvítanesi. Ég flutti prestssetrið í Súðavík, þar sem hann er. Ég gerði ekki ráð fyrir að hann settist á húsalitla, hálfgerða eyðijörð, eins og nú er komið í Hvítanesi. N. hefur enga ástæðu séð til þess að laga það. Hún vill láta hann vera í gamla túninu á Hvítanesi, þó að þar séu engin hús eða neitt fyrir hann að vera í þar, en ekki í Súðavík, þar sem hann hefur verið og á að vera vitanlega.

Ég vil biðja n. að athuga þetta allt saman. Það er sérstaklega þetta þrennt af þessum brtt. mínum, hinar skal ég láta ósagt um. Ég vildi láta setja: „á Setbergi eða í Grundarfjarðarkauptúni“ — prestinn þar, sem byggist á því, að vitanlega vill hann vera þar. Hann er svo að segja búlaus maður. Ég man ekki, hvort hann hefur eina kú og 30 kindur eða eitthvað svoleiðis. Jörðin er ekki setin, og allt er að ganga úr sér, og hann vill náttúrlega fara inn í þéttbýlið inn í Grundarfjörð. Ég gerði möguleika til, að hann væri á hvorum staðnum sem vera vildi, opnaði þann möguleika. N. hefur ekki séð neina ástæðu til þess að skipta sér af því.

Ég vil enn fremur benda á það, að eins og sakir standa núna, þá má telja alveg víst, að það komi ekki prestur í Kirkjubæ. Húsið á Kirkjubæ er gamalt, mjög stórt timburhús, byggt fyrir heimili, sem þá var mjög stórt, líklega 1911 eða 1910 eða um það leyti, og ákaflega gisið orðið, og það kemur ekki prestur í það, nema byggt sé þar upp. Auk þess að vera byggt yfir heimilisfólkið á Kirkjubæ, eins og það var þá, þegar þetta stóra timburhús var byggt, þá var líka byggður og hafður í norðurendanum á því samkomusalur, sem átti að vera þingstaður hreppsins, þvert yfir húsið, sem nú er hætt að nota fyrir löngu, af því að hann var svo kaldur, að það var ómögulegt að nota hann. Það er þess vegna alveg víst, að Kirkjubæjarprestur kemur ekki fyrr, en eitthvað er gert til þess, að hann geti einhvers staðar komizt inn. Ég lagði til í mínu frv., að það væri aðallega hugsað um Stóra-Bakka sem prestssetur, og ég gerði það af því í fyrsta lagi, að það er jörð, sem landnámssjóður á og hefur ráð á, er þess vegna nokkurs konar ríkiseign, í öðru lagi af því, að það er sá staður, þar sem fyrirhugaður barnaskóli fyrir Kirkjubæjarhrepp og Jökulsárhlíð hefur verið hugsaður, og síðan ég bjó mitt frv. til, hefur það skeð, að náðst hefur samkomulag milli hreppsnefndanna í þessum tveimur hreppum og fræðslumálastjórnarinnar um það að fá Stóra-Bakka leigðan fyrir barnaskóla. Það hefur verið dubbað þar upp á húsið, sem var sæmilegt á bændamælikvarða talið, og barnaskólinn er þar í vetur, heimavistarbarnaskóli. Ég er þess vegna ekkert viss um, hvort breytingin er til bóta hvað þetta snertir, því að ég er sannfærður um, að prestur kemur ekki í Kirkjubæ, fyrr en búið er að byggja, og ég er sannfærður um, að það verður ekki gert í Kirkjubæ. En þetta er nú mín skoðun; það má kannske deila um hana.

Enn fremur er það, að meðan sú skipan helzt, verður Eiðaprestur náttúrlega, eins og hann hefur gert, látinn þjóna Kirkjubæjarsóknum líka. Þá er mér spurn, hvort hann þarf að fá laun sem ákveðinn kennari með greiðslu fyrir alla kennslutíma eftir stundakennarakaupi hér í Reykjavík og hvort á ekki að gera hann að kennslupresti, eins og ég lagði til. Sem kennsluprestur verður hann að því leyti eins og hann hefur verið, að hann kemur til með að hafa sitt Eiðaprestakall, auk þess kemur hann til með að hafa hálft Kirkjubæjarprestakall og fær þar með hálf önnur prestslaun. En með því að vera kennsluprestur fær hann þó ekki nema hálf prestslaun þar við og er þá kominn upp í tvöföld prestslaun, en þeir ætla honum auk þess laun sem kennara eftir tímafjölda, sem hann kennir. Ég hefði viljað gera hann að kennslupresti, eins og ég legg til í mínu frv. ákveðið. Það er sparnaður fyrir ríkissjóð og ekkert illa farið með manninn, því að hann hefur hærri laun en prestar yfirleitt hafa og miklu hærri þrátt fyrir það.

Þetta vil ég nú biðja nefndina að athuga. Ég mun ekki koma með neina brtt. núna við frv. En komi ekki brtt. frá nefndinni, þá kem ég með brtt. um ýmislegt viðvíkjandi þessu, fyrst og fremst það að skylda ekki prestinn til að búa á Hvanneyri, heldur á jörðinni, sem honum er lögð út sem prestssetursjörð og er sérmetin jörð og allt í lagi með. Í öðru lagi um það að leyfa prestinum að vera kyrrum á Torfastöðum, án þess að það þurfi að vera beint lögbrot, ef menn vilja ekki hafa hann í Skálholti, eins og menn ákváðu á sínum tíma. Og fleira þess háttar mun ég koma með. Ég geri það ekki núna, en vil lofa n. að athuga málið nánar, og sérstaklega vil ég biðja nefndina að athuga þetta vel með Æsustaðina. Ef það á að bíða eftir næstu prestaskiptum með því að vita vilja sóknarnefndanna um það, hvar presturinn eigi að sitja, þá er heimska að leggja, hvort sem það eru 100 eða 200 þús. kr., í viðgerð á húsinu á Æsustöðum. Ef aftur eru búin þannig út lögin, að það sé hægt að ganga úr skugga um þetta strax með atkvgr., þá verður annaðhvort gert við húsið á Æsustöðum eða það látið eiga sig og ráðizt í að fara að byggja á Auðkúlu og flytja prestinn þangað og selja aftur Æsustaði. En það þarf að vera þannig um hnútana búið, að það sé þó hægt fyrir stjórnarráðið að gera það, en það er ekki hægt, eins og greinin hljóðar, þegar ekki á að athuga það fyrr, en við næstu prestaskipti.