13.03.1959
Efri deild: 85. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

51. mál, skipun prestakalla

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil flytja hv. menntmn. þakkir mínar fyrir það, að hún hefur orðið við þeim óskum mínum að taka upp í till. sínar till., sem ég flutti hér í hv. deild í fyrra um heimild handa kirkjustjórninni til þess að selja prestssetrið Vatnsenda í Ljósavatnshreppi og flytja prestssetrið á hentugri stað. Allt það, sem hv. frsm. n. sagði um þetta mál, var laukrétt, og ég hef síður en svo við það að athuga, þó að nefndin hafi bætt við tillöguna ákvæði um það, að samþykki meiri hluta safnaðarmanna þurfi til, að heimildin sé notuð. Ég hef alls engan áhuga og hef ekki haft neinn áhuga fyrir því, að Vatnsendi verði seldur og annað prestssetur valið, ef það væri á móti vilja meiri hluta safnaðarmanna, og ég hygg nú, að meiri hlutinn sé fyrir hendi, þó að það sé hins vegar alveg rétt, að þar liggur ekkert skjallega fyrir og þarf því að kannast betur, ef þetta ákvæði verður að lögum. Ég vænti þess, að hv. deildarmenn geti fallizt á þessa tillögu, eins og hún nú liggur fyrir, og tel málið vel afgreitt með henni.