13.03.1959
Efri deild: 85. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

51. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Má ég benda hv. nefnd á og biðja hana að koma því til biskupsins, að það er óleyfilegt að kalla hús, sem byggt er á jörð, sem hefur að lögum nafnið Staðarhóll og ákveðin landamerki, Hvanneyri. Staðarhóll er að lögum ákveðin jörð í Borgarfjarðarsýslu, og þar er prestssetrið. Þetta er gömul hjáleiga frá Hvanneyri, sem alltaf hefur verið sérmetin og sérstök, og að byggja hús þar og ætla sér að láta prestinn búa þar og kalla húsið Hvanneyri, það er óleyfilegt. Það er staðfesting á ókunnugleika biskups, sem m.a. lýsir sér í því, þegar hann þekkir ekki annað en að hreppaskil og sóknamörk séu þau sömu um allt land, eins og liggur fyrir í frv. hér á Alþingi. Úr því að búið er að byggja hús á Staðarhóli, þó að það sé gömul hjáleiga frá Hvanneyri, en sérstök jörð, og búið að byggja þar hús fyrir prestinn og ríkisvaldið búið að afhenda honum þá jörð til ábúðar og hann býr á henni, þá á vitanlega að segja, að hann sé á Staðarhóli, en ekki á Hvanneyri. Það er sjálfgefinn hlutur. Það er svo sjálfgefinn hlutur eins og að kalla Ásmund Ásmund, en ekki Munda eða Ása eða eitthvað annað þess háttar, það er svona álíka. Það er lögbýli, sem byggt er yfir prestinn á, og þar situr hann. Og það nafn á vitanlega prestssetrið að hafa.

Nákvæmlega sama er að segja um Ögurþing. Þegar prestakallalögin eru sett, liggur fyrir, að presturinn ætlar ekki að vera í Hvítanesi og það á seinna að ákveða stað eftir lögunum. Svo situr hann í Súðavík og hefur setið þar síðan, þó að nú sem stendur sé þar prestslaust. Og vitanlega á hann að sitja þar áfram, en ekki að fara að byggja upp yfir hann á hálfgerðri eyðijörð.

Hitt er rétt hjá frsm. og biskupi, að það er náttúrlega óheppilegt að hafa tvö prestssetur í sömu sókn. Þetta hefur nú biskupinn sjálfur lagt til. Hann lagði sjálfur til, að prestssetrið væri í Hraungerði eða Selfossi, á öðrum hvorum staðnum. Nú er hann kominn að Selfossi og Hraungerði því ekki prestssetur.

Allir þessir staðir, sem ég nefni hérna, eru staðir, sem — ja, ekki ég, því að ég er kominn á áttræðisaldurinn, en þeir, sem lifa svona 10 ár enn, sjá allir prestana flytjast á þá staðina, sem ég vil hafa þá á, af stöðunum, sem þeir eru á núna, það megið þið vera viss um, og sumir af þeim eru þar þegar. Hvort þeir eru með einhver leyfi frá einhverjum til að vera þar, það veit ég ekki. Ég veit ekki, hvort t.d. presturinn í Vatnsenda hefur haft biskupsleyfi til þess að sitja aldrei á prestssetursjörðinni, en alltaf annars staðar, og ekki á sama stað, heldur sitt á hvað. Ég veit það ekki. Mér er sagt, að hann hafi það ekki, — hann hafi fengið biskupsleyfi til þess, en ég held, að það hafi aldrei komið til stjórnarráðsins. Þó þori ég ekki að fullyrða þetta, en mér er sagt það.

Nei, það segir sig alveg sjálft, að þegar maður sér, hvert stefnir í þessum málum, þegar maður sér prest eftir prest hringla af prestssetrinu, halda því ekki við, gera það svo lítt, stundum alveg óbyggilegt og á öðrum stöðum sama sem óbyggilegt, þá á ekki að vera að pína þá til að vera þar að nafninu til. Þegar þeir eru annars staðar, á allt öðrum stöðum, þá á að lofa þeim að fara þangað, sem þeir vilja vera, og byggja yfir þá þar og sleppa hinu, það er alveg gefinn hlutur, eins og t.d. núna Setberg. Hérna í þingdeildinni get ég gjarnan sagt það, að presturinn, sem var á Setbergi, var mér eiginlega afar reiður um tíma, þegar hann var á Setbergi, þegar ég var að tala um, hvað prestssetrið væri illa setið o. s. frv. og að það væri hyggilegra að hafa það í kauptúninu o.s.frv. En í fyrrasumar kom hann til mín: „Í guðs bænum haltu nú áfram með þetta. Nú er verið að eyðileggja Setberg alveg hreint.“ Já, þá vildi hann láta míg halda áfram með það, þegar hann var sjálfur kominn af Setbergi og hættur að sitja þar og það sæmilega og kominn þangað annar prestur, sem var nýr þar.

Annars er það þetta, þetta flökt prestanna frá prestssetrunum og á allt aðra staði, en þeir eiga að sitja á, og sá kostnaður, sem ríkið hefur af því að fara svo að dubba upp handa þeim annaðhvort alveg nýja bústaði ellegar að gera við þá eldri, sem eru komnir í hrun, það er alveg óþolandi, — og nú er kirkjumrh. ekki við, en hann var við áðan, — það er alveg óþolandi, og það á kirkjumálastjórnin ekki að líða: þó að biskupinn leyfi þeim að hringla þannig til, þá á kirkjumálastjórnin ekki að líða það. Ég sé heldur ekki, — við skulum taka sem dæmi prestinn, sem á að sitja í Skálholti að lögum, en situr á Torfastöðum. Í hvers leyfi situr hann þar? Og hví má ekki ákveða með lögum, að hann skyldi sitja á öðrum hvorum staðnum, ef menn geta ekki komið sér saman um að láta hann sitja þar, sem hann á að vera að lögum? Ég sé ekkert á móti því, ekki nokkurn hlut. Hitt skal ég viðurkenna, að það er óheppilegt að hafa standandi alltaf tvö prestssetur í sama prestakallinu, það skal ég viðurkenna, enda var það ekki hugsað þannig af mér, þó að það megi skilja það kannske þannig. En það gildir a.m.k. ekki um Staðarhól og ekki um Súðavík, því að það er ekkert „eða“ hjá mér við það, það eru staðir, sem presturinn raunverulega situr á, en ekki þar, sem hann er staðsettur að lögum.