03.04.1959
Efri deild: 94. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

105. mál, samband íslenskra berklasjúklinga

Páll Zóphóníasson:

Ef umr. um þetta mál skyldi verða frestað, herra forseti, þá langar mig til að benda hérna á eitt atriði sérstaklega, sem ég held að þurfi að athugast. Það er ákveðið í 1. gr., að hlutatalan megi ekki fara fram úr 65 þús. Þegar þetta happdrætti var stofnað 1949, fyrir 10 árum, var hún ákveðin 50 þús. Svo var hún hækkuð og aftur hækkuð. Þessu er ætlað að gilda til 1969, ein tíu ár og á þeim árum fjölgar þjóðinni svo, að það mun láta nærri, að hún verði í kringum 200 þús. eftir tíu ár. Og þá er alveg gefið, að þessi tala, 65 þús., er of lág. Þess vegna hygg ég, að það sé ástæða til að athuga það, hvort eigi ekki að hækka þessa tölu.

Það var þetta, sem ég vildi benda á til athugunar sérstaklega, ef málinu verður frestað og n. tekur það til frekari athugunar.