07.04.1959
Efri deild: 96. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

105. mál, samband íslenskra berklasjúklinga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við tvær brtt., sem ég flyt á þskj. 315.

Það athyglisverðasta í þessu frv. er, að eftirleiðis skal ágóðanum af happdrætti berklasjúklinga ekki eingöngu varið til að byggja vinnuheimili á Reykjalundi, en svo hefur verið ákveðið í lögum til þessa. Nú skal ágóðanum einnig varið til að reisa og reka vinnustofur fyrir öryrkja almennt, einnig aðra en berklasjúklinga, og til annarrar félagsmálastarfsemi sambands berklasjúklinganna. Þetta er meginbreytingin frá því, sem verið hefur, og hún er vissulega íhugunarverð. Það er eðlilegt þess vegna, að þessi hv. d. hafi staldrað nokkuð við og talið ástæðu til að athuga málið nánar.

Með frv. er þessi starfsemi til hjálpar öryrkjum aukin mjög og færð langt út fyrir svið berklasjúklinganna. En þá vaknar sú spurning eðlilega: Ber að fela þessu sambandi berklasjúklinga einu þá starfsemi alla? Þessi spurning vaknar því frekar, sem til er annað félagasamband öryrkja, Sjálfsbjörg, auk Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, að því ógleymdu, að fjölmennir hópar öryrkja hafa engan fastan félagsskap að styðjast við. Þetta finnst mér sérstök ástæða til að hugleiða í sambandi við afgreiðslu frv., jafnvel þótt meira verði ekki að gert í þetta sinn, en hugleiðingin ein.

Það er auðvelt að koma því svo fyrir, að öryrkjafélagið Sjálfsbjörg og Styrktarfélag lamaðra verði ekki með öllu sett hjá, þegar ákveða skal hverju sinni um framkvæmdir á sviði öryrkjamálanna í samræmi við þetta frv. Það er vafalaust langheppilegast, að félmrn. hafi alla þræði þessara mála í hendi sér og leiti álits hinna ýmsu samtaka um úrlausn verkefna á hverjum tíma. Með því verður bezt tryggt, að alhliða verði á málið litið, að engra hlutur verði fyrir borð borinn og að allar framkvæmdir komi að fullum notum. Fyrir slíkri tilhögun er nokkurn veginn séð í fyrri brtt. minni á þskj. 315. Þar er verksviðið nokkuð víkkað og greinilega fram tekið, að ekki skuli ráðast í framkvæmdir, nema ráðh. telji þeirra þörf. Á ráðh. þá þess kost að ráðfæra sig við fleiri aðila en samband berklasjúklinga eitt.

Það er nauðsynlegt að hafa það í huga, þegar þessi málefni öryrkjanna eru rædd, að stofnun vinnuheimilis og vinnustofu handa öryrkjum er engan veginn eitt og allt í þeim málum. Vinnuheimili og vinnustofur öryrkja eru þrautalendingin, og þar eiga eins fáir öryrkjar að vera og mögulegt er. Öryrkja á að þjálfa og fá þeim síðan störf við hæfi mitt á meðal heilbrigðs starfandi fólks í landinu. Að þessu á víðtæk félagsmálastarfsemi fyrst og fremst að stefna. Í frv. er þeirri starfsemi markaður of þröngur bás, aðeins miðaður við samband berklasjúklinga. En úr þeim annmarka er dregið í fyrri brtt. minni á þskj. 315.

Um síðari brtt. get ég verið fáorður. Hún miðar að því, að lögfest verði sem fullkomnast eftirlit með fjárreiðum þessa happdrættis, og með því er reynt að girða fyrir, að nokkru sinni vakni grunsemdir um óreiðu, en slíkt gæti skaðað þessa ágætu starfsemi og sært saklausa menn, er að því standa. Tel ég rétt, að sams konar eftirlit verði upp tekið og haft um önnur meiri háttar happdrætti og skyld fyrirtæki héðan í frá.