12.08.1959
Efri deild: 8. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

3. mál, kosningar til Alþingis

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar nú hefur verið endanlega samþykkt breyting sú, sem nú um nokkurt skeið hefur verið á döfinni, á stjórnskipunarlögum landsins, þá er ein afleiðing af þeirri samþykkt sú, að breyta verður kosningalögunum a.m.k. til samræmis við þá breytingu, sem á stjórnskipunarlögunum hefur verið gerð.

Hæstv. dómsmrh., sem því miður er fjarverandi, hefur beðið mig að fylgja frv. hér úr hlaði með nokkrum orðum vegna fjarveru sinnar.

Þegar hæstv. dómsmrh. tók þetta mál upp á milli þinga, eftir að hið fyrra þing hafði samþ. stjórnarskrárbreytinguna, þá ætla ég, að hann hafi ekki í þá breytingu á kosningal. hugsað sér að taka annað en það, sem beinlínis leiddi af stjórnarskrárbreytingunni og láta þá annað á vald hv. alþm. sjálfra, hvort þeir vildu þá í leiðinni gera frekari breytingar á kosningalögunum. Hann fékk þess vegna til nú í sumar 3 hæstaréttardómara, þá Árna Tryggvason, Jónatan Hallvarðsson og Þórð Eyjólfsson, til þess að finna út, ef ég svo má segja, hvaða breytingar þyrfti nauðsynlega á kosningalögunum að gera vegna stjórnarskrárbreytingarinnar og að fella þær breytingar inn í hin gömlu kosningalög. Aðrar breytingar, en þessar ætla ég að ekki hafi verið gerðar, a.m.k. ekki að neinu ráði, og engar af þessum breytingum, sem beinlínis leiddi af stjórnarskránni, geta orkað tvímælis, vegna þess að þær liggja alveg ljósar fyrir, nema þá aðallega ein og það er skipun yfirkjörstjórna í hinum nýju kjördæmum.

Hæstaréttardómararnir og dómsmrh. lögðu til, að sýslumenn og bæjarfógetar í þessum nýju kjördæmum gengju saman og mynduðu yfirkjörstjórn á þann hátt, að þeir elztu embættismannanna sætu í yfirkjörstjórninni. Þessu hefur nú verið breytt í hv. Nd. á þann veg, að gert er ráð fyrir, að Alþingi kjósi þessar kjörstjórnir úr hópi heimamanna í héraðinu. Um þetta má að sjálfsögðu deila og ég skal ekki nú á þessari stundu ræða það frekar. En ég bendi aðeins á, að eins og frv. var lagt fram í upphafi, var raunverulega þetta atriði það eina, sem ég tel að orkað hafi verulega tvímælis eða skoðanir hafi getað verið skiptar um og kom raunar strax fram nokkur skoðanamunur um þetta efni, sem svo endaði á þann hátt, sem ég nú hef lýst, með breytingu hv. Nd. á þessu ákvæði.

Síðar í meðferð Nd. á málinu eða stjskrn. Nd. voru gerðar allmargar breytingar á frv., sem samkomulag varð um í stjskrn. þeirrar d., þar sem aðalbreytingarnar voru í því fólgnar að fella úr gildi landslistana svokölluðu og öll þau fyrirmæli, sem af því leiddi. Aðalbreytingar stjskrn. Nd. til 2 umr. voru um þetta atriði og voru yfirleitt samþykktar samhljóða, nema hvað hv. framsóknarmenn töldu sig ekki geta verið með frv. af þeim „prinsip“-ástæðum, að þeir voru á móti stjórnarskrárfrv. og þess vegna töldu þeir sig ekki geta heldur verið með þeim breytingum, sem af samþykkt stjórnarskrárfrv. leiddi, þó að mér hafi skilizt, að þeir yfirleitt hafi ekki verið andvígir þeim breytingum, sem stjskrn. bar fram í Nd. við 2. umr. málsins.

Ég hirði ekki um að rekja þessar breytingar. Hv. þdm. hafa kynnzt þeim og alveg sérstaklega stjskrn, þessarar hv. d., sem ég ætla að hafi starfað með stjskrn. Nd. við afgreiðslu málsins og sett sig þá rækilega inn í það og þær brtt., sem þar voru á döfinni.

Við 3. umr. málsins í Nd. nú síðast komu fram nokkrar brtt. frá einstaklingum, sem sumar náðu samþykki og sumar náðu ekki samþykki. En ég tel rétt að nefna nokkrar þeirra.

Ég hef áður lýst, hvernig fór með yfirkjörstjórnirnar, það gerðist við 3. umr. í Nd., að því ákvæði var breytt, eins og ég lýsti áðan.

Þá var gerð einnig sú breyting á frv., sem ég tel allveigamikla og kannske getur orkað nokkurs tvímælis um, hvernig reikna skuli út, hverjir kosnir séu af lista, þegar um útstrikanir eða tilfærslur er að ræða. Um þetta hefur verið nokkur ágreiningur og mönnum yfirleitt ekki sýnzt alveg hið sama í þeim efnum, en þó hygg ég, að flestir hafi orðið sammála um, að það ætti að torvelda nokkuð a.m.k. möguleikana á því, að lítill hluti kjósenda eins ákveðins lista, sem vildi breytingu á listanum í eina ákveðna átt, gæti gert hana í andstöðu við mikinn meiri hluta kjósenda þessa sama lista. Þetta hefur mjög verið rætt og niðurstaðan varð sú í Nd., að samþ. var að taka upp nýjan hátt við útreikning á atkvæðatölu þeirra, sem á listanum eru, þannig að fyrst verði reiknað með tvöfaldri atkvæðatölu listans óbreyttri og síðan þeim atkvæðum bætt við, þar sem ekki eru breytingar gerðar á kjörseðli og loks bætt við þeim tölum, sem koma út úr þeim kjörseðlum, þar sem breyting hefur verið gerð. Með þessu er mjög frá því, sem áður var, torveldað að breyta röð á lista og rökin fyrir því eru auðsæ, því að venjulegast er það svo, að þeir, sem vilja breyta röð á lista, gera það án þess að hinir, sem vilja ekki breyta, viti um það, þannig að segja má, að eins og þetta hefur verið gert, hafi verið til möguleikar fyrir lítinn hluta af kjósendunum til þess að koma aftan að miklum hluta kjósendanna og ná fram gegn vilja þeirra eða gegn vilja meiri hluta kjósenda ákveðins lista breytingum, sem hefðu ekki þurft að verða og ekki átt að verða, ef meiri hlutinn hefði vitað um fyrirætlanir þessa litla minni hluta. Í þeim tilgangi að draga úr þessu hefur þetta ákvæði verið samþykkt, að nú skuli hafður þessi háttur á, að lagðar skuli saman atkvæðatölur hvers manns á listanum óbreyttar og án þess að tekið sé tillit til þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið, tvisvar og síðan, eins og ég sagði, séu lagðar við tölur þeirra atkvæðaseðla, sem óbreyttir eru, og loks þeirra tölur, sem breytt er. Þetta er kannske veigamesta breytingin, sem á lögunum hefur verið gerð.

Þá hefur nokkuð verið rætt í Nd. um áhrif flokkanna á kosninguna á kjördegi og áróður í því sambandi. Þar hefur verið samþykkt að taka upp aftur heimild fyrir flokkana til þess að skrifa upp í kjördeildum, hverjir hafi kosið og hafa samband við sína kosningaskrifstofu um það. Hins vegar var ekki samþykkt till. um, að heimilt væri að merkja bíla, en hins vegar féll líka till. um, að áróðursmerki hingað og þangað um bæinn mætti ekki uppi hafa.

Það voru fjöldamargar aðrar till., sem fram hafa komið og ég skal ekki þreyta hv. þdm. með því að rekja það. Ég skal t.d. geta þess, að við 2. umr. komu fram frá stjskrn. sjálfri 46 brtt. og síðan við 3. umr. voru brtt, í tugatali, svo að það verður ekki rakið við þessa umr. af mér, enda ætla ég, að hv. þdm. séu kunnar þessar brtt. og niðurstaða frv., eins og það var afgreitt frá hv. Nd.

Það var eitt þýðingarmikið atriði þó, sem var talsvert rætt, en það var um tilfærslu á kjördeginum. Kjördagur er nú ákveðinn, eins og kunnugt er, síðasti sunnudagur í júní. En ýmsum þykir það of seint, vegna þess að hér á Suðurlandi a.m.k. er síðasta sunnudaginn í júní fjöldi manns farinn norður til síldveiða og ýmissa starfa í sambandi við síldveiðar. Þeim, sem þessa skoðun hafa, þykir ekki ósanngjarnt, að þessir menn njóti einhvers svipaðs réttar og t.d. bændur njóta nú, þar sem yfirleitt er ekki talið gerlegt að láta kosningar fara fram á tímabilinu frá 15. sept. til 15. okt., vegna þess að þá séu bændur uppteknir fjarri heimilum sínum, annaðhvort í göngum, við sláturhúsavinnu eða annað þess háttar. Og sem hliðstætt þessu töldu þeir, sem vildu færa kjördaginn fram, að það væri ekki óeðlilegt að gera það af þessum ástæðum, sem ég nú nefndi, með því að gera samanburð við sjónarmið, sem talsmenn bændanna hafa haft uppi. Till. var frá sumum um að færa kjördaginn aftur í maímánuð, síðasta sunnudag í maí, og það varð úr, að till. var sett fram sem miðlunartill., annar sunnudagur í júní, en hún var felld og kemur þess vegna ekki fram í því frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil aðeins geta þess, að þetta kom fram og voru færð fyrir þessu talsvert sterk rök.

Ég veit, eins og ég sagði áðan, að hv. stjskrn. þessarar deildar hefur fjallað um málið í sambandi við stjskrn. Nd., og ég ætla þess vegna, að stjskrn. þessarar d., sem málinu verður sjálfsagt vísað til, geti unnið sér hægar og léttar eftir það að hafa yfirfarið málið með neðri deildar n. Ég vildi aðeins leyfa mér að láta í ljós þá ósk, að málinu verði heldur flýtt en hitt, því að ég heyri það á mönnum, að þeir vilja úr þessu, að þinghaldið geti orðið sem stytzt að mögulegt er og raunar hef ég heyrt mjög ákveðnar óskir um, að reynt yrði að ljúka því í þessari viku. Ég vildi aðeins þess vegna skjóta því til hv. n., hvort hún gæti ekki hugsað sér að vinna hér fljótt að.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. stjórnarskrárnefndar.