13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Gísli Jónsson):

Mér þykir rétt eftir ræðu hv. 1. þm. Eyf. (BSt) að ræða nokkuð um það atriði, sem hann minntist hér á í sambandi við 110. gr.

Þetta atriði var rætt í n., og það er alveg rétt, sem hann minntist á, að þegar maður les í fyrstu þessa gr., þá virðist þessi aðferð vera allflókin. En þegar betur er að gáð, er þetta ekki eins torskilið og það lítur út fyrir í gr. Höfuðreglan er þessi, að í 5 manna kjördæmi þarf 273/11% kjósenda til þess að geta flutt mann úr sæti á lista í næsta sæti og í 6 manna kjördæmi 231/13%, en í Reykjavík 12%. Um þetta hefur verið rætt við báðar n., bæði í Ed. og Nd. og það hefur enginn ágreiningur verið um það á milli fulltrúa flokkanna, að þessar tölur þættu of háar. Það hefur einmitt verið álitið, að það ætti ekki að leyfa minni hluta en þetta, að ráða yfir meiri hlutanum. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram. (Gripið fram í: Þetta liggur ekki í augum uppi.) Þetta er alveg rétt, sem hv. þm. segir, að það liggur ekki í augum uppi, en þannig er útreikningurinn,og skrifstofustjóri Alþ. hefur tjáð mér, að það sé ákaflega auðvelt að reikna þetta út, þegar miðað er við þá reglu, sem nú gildir, það sé aðeins sáralítil breyting á þessu önnur en prósentutalan er hærri en nú, m.a. í Reykjavík er hún eftir gömlu reglunni um 4%, en er sett nú upp í 12% o.s.frv. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram. En ég skil vel, að það var ástæða fyrir hv. þm. að hreyfa þessu hér.

Ég skil hins vegar ekki eins vel, hvaða kapp er lagt á að fá samþykkta breytingu á 9. gr. Í fyrsta lagi er það algerlega rangt, sem haldið er fram hér, að aldrei hafi verið kosið pólitískt í yfirkjörstjórnir. Yfirkjörstjórnir hafa verið rótpólitískar, alveg eins og sýslunefndir eru pólitískar. Það þarf ekki að telja mér trú um það, að sýslumenn, sem eru skipaðir af ráðh. eða ráðuneytinu sem oddvitar sýslunefnda, hafi ekki verið pólitískir. Þeir hafa hins vegar e.t.v. ekki beitt sínum pólitísku áhrifum meira, en góðu hófi gegnir í kjörstj.— og þó sums staðar reynt að beita þeim alveg til ýtrustu takmarka. Ég veit m.a. um ágætan sýslumann, sem hefur leyft sér að láta uppi þá skoðun sína, þegar útkljáð hefur verið um kosningu, að það sé hart að þurfa að gefa ákveðnum þm. ár eftir ár kjörbréf, af því að hann sé ekki í hans pólitíska flokki. Mér er ákaflega vel kunnugt um, að það dregur hver taum síns flokks í kjörstjórn eins og hvarvetna annars staðar og ég skil ekki þau rök, að það sé einhver goðgá að kjósa af Alþ. yfirkjörstjórn, úr því að kosin er landskjörstjórn á Alþingi. Hér er kosin á Alþ. landskjörstjórn, sem á að vera fullkomlega ópólitísk. En einnig þar hafa komið fram pólitísk álít, eins og t.d. 1956, þar sem gætti mjög pólitískra skoðana og pólitísks álits í úrskurði landskjörstjórnar í sambandi við úthlutun uppbótarsæta. Þessir menn eru kjörnir til þess að gæta hagsmuna frambjóðendanna, sem eru af ákveðnum flokki og nú m.a., eftir að er búið að breyta stjórnarskránni, boðnir fram af flokkum á ákveðnum listum. Mér finnst því vera ákaflega eðlilegt, að það sé einmitt tekin upp þessi aðferð, að Alþ. kjósi yfirkjörstjórn, sem á að líta eftir þessu. Það eru embættismenn, sem eru kjörnir til þess að gera þetta vel og mér sýnist vera meiri ástæða til þess að halda, að þeir geri það vel og samvizkusamlega, heldur en ef þeir væru kosnir einhvern veginn öðruvísi, ekki af því, að ég hafi neitt út af fyrir sig á móti því, að ákvæðið hefði staðið óbreytt, eins og það var í frv. En um það varð ekki samkomulag í n. Hins vegar hefur fengizt samkomulag um að halda gr. óbreyttri, eins og hún er nú.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að þetta hefði vanalega verið kosið þannig, að mennirnir gætu verið sem næst hver öðrum. Nú, þegar búið er að sameina 5–6 sýslur í eitt kjördæmi, er ljóst, að ef brtt. er samþ., eins og hún er á þskj. 39, mundi hver sýsla kjósa mann úr héraðinu, en ekki fara að kjósa einhvern annars staðar frá. Og þá byggju þeir ekki hver hjá öðrum. Þá yrðu þeir að koma saman einhvers staðar.

Ég hygg einmitt, að það sé meginatriði hér í gr., eins og hún nú er í frv., að það er skilyrði að kjósa menn heima í héraði. Þar þekkja þeir til, þessir menn, alveg eins og þeir þekkja til nú. Og ég skil ekki þetta ofurkapp, að vilja endilega láta þetta vera í höndum sýslunefnda, því að áreiðanlega yrði það ekkert minna pólitískt, því að það er algerlega rangt hjá hv. 1. þm. N-M., að sýslunefndir séu ekki kosnar pólitískt. Þær eru kannske ekki kosnar pólitískt í Norður-Múlasýslu, af því, eins og hann var að tala um áðan, að það væru mestallt framsóknarmenn í sýslunni og það kæmi þar því ekki til greina að kjósa menn af öðrum flokki. Það getur vel verið. En pólitískt eru þeir sannarlega kosnir. Ég veit m.a. af mjög mætum mönnum og get nefnt fleiri en einn, sem hafa setið í sýslunefnd sem sjálfstæðismenn í 20–30 ár og hefur verið kastað burt fyrir pólitíska skoðun og aðrir teknir í staðinn, sem eru miklu óhæfari til starfans. (Gripið fram í: Ég hélt, að sýslunefndirnar kysu kjörstjórnirnar ekki pólitískt.) Ef sýslunefndir eru kosnar pólitískt yfirleitt, velja þær aftur þá menn, sem þær eru að kjósa, pólitískt. Við skulum ekki loka augunum fyrir því.

Hins vegar hef ég enga ástæðu til að halda af þeirri þekkingu, sem ég hef af kjörnefndum og kjörstjórnum yfirleitt, að þær vinni ekki verk sitt vel, af hvaða flokki sem þær eru, því að ef það eru kjörnir til þess sæmilega góðir menn, þá gera þeir þetta verk vel og samvizkusamlega, eftir því sem hægt er á hverjum tíma. Hinu er svo ekki að neita, að þeir komast í þá aðstöðu m.a. að verða að dæma um það, hvort atkvæði, sem eru gölluð, séu gild eða ekki gild, eins og m.a. kom fyrir í Barðastrandarsýslu við síðustu kosningar, þar sem var á einum seðlinum „Gísli Sveinsson“ í staðinn fyrir „Gísli Jónsson“. Þar kom til atkvæða, hvort taka ætti seðilinn gildan. Mér var það fullkomlega ljóst og ég er ekkert að deila á það, að framsóknarmennirnir í Barðastrandarsýslu lögðu til, að atkv. yrði gert ónýtt, en féllu svo frá því, eftir að fram kom annað atkv. hjá Sigurvin Einarssyni, sem var jafngallað. Ákvað þá kjörstjórnin að taka bæði atkvæðin gild. Þetta kemur alltaf fyrir, svo að það er sannarlega ekki ópólitískt.

Um það að fresta afgreiðslu bara til að ákveða, hvaða laun þessir menn eigi að hafa, sé ég ekki ástæðu til. Það er sjálfsagt ráðh., sem ákveður, hvaða laun þeir skuli hafa, ef það er ekki ákveðið annars staðar í l., og það er engin ástæða til að tefja málið og setja það til n. til þess og svo aftur til Nd., til þess að það þurfi að fara að ræða um það atriði að setja það inn í frv.

Ég hef ekki sömu skoðun á varamönnunum og hv. 1. þm. N-M. Ég tel, að ef fimm varamenn eru kjörnir og þó að hver flokkur kynni ekki að eiga nema einn varamann, þá sé sjálfsögð skylda að taka næsta varamann, þó að hann sé af öðrum flokki. Þeir eru kosnir sem embættismenn til þess að vinna ákveðið verk og ég teldi, að það væri alveg sjálfsagður hlutur og skv. ákvæðum l., að þá kæmi næsti varamaður inn, af hvaða flokki sem hann yrði, alveg eins og er tiltekið í kosningal., að þegar ekki eru nægilega margir menn á lista til alþingiskosninga á móts við þau atkv., sem listinn hefur fengið, þá er tekinn hæsti maður á næsta lista. Við þetta ákvæði í kosningalögunum hefur enginn neitt að athuga.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta atriði meir. En út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði hér, að það væri ýmislegt í þessu frv., sem þyrfti betri athugunar með, þá er ég honum alveg sammála um það. En ég vil þá í sambandi við það leyfa mér að upplýsa, að 13. apríl 1954 voru kjörnir af Alþingi sjö menn til þess að endurskoða þessi lög og formaður þeirrar n. var hinn ágæti hv. þm. A–Sk. (PÞ). Það eru nú liðin fimm ár síðan og ég veit ekki, hvort það er búið að halda fleiri fundi, en árin eru mörg. Það hefði nú ekki verið neitt lítill léttir fyrir nefndirnar hér á þessu þingi að hafa til hliðsjónar verk þessarar n. En það kom ekkert frá henni. Hún safnaði að vísu ýmsum gögnum frá öllum álfum veraldar, m.a. heilli þykkri bók frá Rússlandi um kosningalöggjöf þar og víðar í heiminum. En að það kæmi nokkuð að gagni frá henni, var nú annað atriði og þó eru, eins og ég segi, liðin fimm ár síðan n. var sett á laggirnar. Ég held, að það væri því meiri ástæða til þess að álasa okkur, sem vorum í n., því að ég var einn í henni, fyrir að hafa ekki hraðað meira því máli, heldur en þessum nefndum, sem nú sitja á allt of skömmum tíma, — ég skal viðurkenna það, — á allt of skömmum tíma til þess að afgreiða svo mikilvægt mál eins og hér er á ferðinni. En því ber þá ekki að gleyma, að nefndirnar báðar, allir þessir 14 menn, sem hafa verið í n., hafa verið sammála um að halda sér sem mest við þau ákvæði, sem eru gildandi nú í kosningalöggjöfinni og breyta aðeins því, sem nauðsynlegt er að breyta vegna breytingar á stjórnskipunarlögunum og svo einstöku atriðum, sem fullt samkomulag var um að væri til hins betra. Þetta hefur verið meginstefnan. Svo hafa komið upp brtt. bæði frá einstökum þm. og meiri hl. eða minni hl. n. Þar hefur ráðið afl atkvæða við afgreiðsluna, og við því er raunverulega ekkert að segja. Ég vil nú vænta þess, að hv. alþm. sætti sig við það á þessu stigi málsins að láta ganga atkvæði um þær till., sem fyrir liggja og fylgja síðan málinu, eins og það þannig verður afgreitt, úr þessari hv. d., svo að ekki þurfi að tefja það miklu lengur.