13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

3. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er aðeins þetta: Ég vil ekki, að þm. Barð. (GíslJ) sé að gera sig heimskari en hann er. Hann veit það vel, að í hverri einustu n., sem Alþingi hefur kosið pólitískt, er varamaður fyrir ákveðinn mann, fiskimálanefnd, síldarútvegsnefnd o.s.frv., o.s.frv., ég gæti talið þær upp, það er heilt legið og það er ævinlega varamaður fyrir ákveðinn mann. Ef hv. Barð. er í einhverri n. og forfallast, þá er ekki kallaður kommi í staðinn eða einhver annar, heldur varamaður hans í n., dettur engum í hug að kalla annan. Þess vegna á hann ekki að vera að reyna af einhverjum ástæðum að tala um það, ef það falli frá varamaður, sem Sjálfstfl. kýs í einhverja kjörstjórn, hann falli frá og hinn falli líka frá eða annar deyi og annar flytji sig búferlum í annað kjördæmi, þá er hann ekki lengur kjörgengur þar, — þá á hann ekki að vera að segja: Það á bara að kalla á einhvern annan, fá bara varamann fyrir kommann, ef varamaður deyr. Nei, það er varamaður úr sama flokki, sem þá á að taka sæti og sé hann ekki til staðar, af því að hann hafi flutt sig í annað kjördæmi, flutzt búferlum t.d. og þar af leiðandi misst kosningarréttinn, þá er enginn til, þá verður hann að gera svo vel að bíða, þangað til næsta Alþingi kemur saman, eða setja inn í lögin ákvæði um það, hvernig þá á að fara að. En þetta getur alltaf komið fyrir, það er alveg greinilegt.

Hann segir, að ráðh. eigi að ákveða launin. Allt í lagi með það. En það bara koma misjafnir reikningar, reikningar fyrir sömu vinnu eru helmingi hærri frá einni kjörstjórninni en annarri, — og hvað getur ráðh. gert? Getur hann farið að skera þá niður, þegar það er enginn stafur fyrir, hvað á að borga þeim, neins staðar í lögunum? Getur ráðh. sagt: Ja, þú, Gísli Jónsson, það var allt of hár reikningur frá þér, við skerum hann niður um 30%, og einhvern annan o.s.frv., o.s.frv.? Nei, reikningarnir eru yfirleitt borgaðir og þess vegna á hið háa Alþingi, sem setur mennina í þessa vinnu, ef þeir þá eru skyldugir að taka við því, sem ég veit ekki enn, — það hefur ekki fengizt úr því skorið, hvort það væri borgaraleg skylda að taka við þessu embætti, sem þeir eru þarna kosnir í, — þá á Alþingi líka að ákveða, hvað á að borga þeim, og það á að borga þeim eins öllum.

Og ég bið n. enn á ný að athuga þetta: Eru mennirnir skyldugir að taka við kosningu í þetta? Ef við kjósum mennina núna hér í sameinuðu þingi og þeir eru ekki skyldugir til þess, eigum við á hættu, að svo og svo margir neiti að taka við því og séu engar formlega löglegar kjörstjórnir til, þegar á að kjósa í haust. Þetta er það fyrsta. Annað er það, hvort við eigum að líða það, að kjörstjórnirnar úti um landið sendi reikningana til ríkisstj. eftir því, hvað þeim finnst vera eðlilegt kaupgjald á þessum og þessum stað. Við skulum segja, að enginn spenni það neitt upp, en það er bara mjög misjafnt um landið, hví þá að vera að neyða stjórnarráðið til að borga hvern reikning eða fara að rífast við þá, sem eru hæstir? Það verður að setja fyrir sig fram ákvæði um, hvað eigi að hafa fyrir það á dag að sitja í þessum nefndum. Það er alveg sjálfsagt að athuga það. Ef menn vilja setja kjörstjórnunum það í sjálfsvald, hvað þær taka fyrir sitt starf, þá það. En stjórnin verður að spara og þingmeirihlutinn læzt styðja hana til að spara nú. Hann ætti því að reyna að skapa eitthvert aðhald hér, svo að það lægi beint fyrir. Þess vegna bið ég n. enn á ný að athuga þetta. Það er full þörf á því.