29.07.1959
Neðri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Stjórnarskrárnefnd d. hefur haft þetta mál til meðferðar og athugunar og ekki orðið á eitt sátt. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og fram kemur á þskj. 7, nál. meiri hl. n.

Þetta sýnist nokkuð gefið mál eftir það, sem á undan er gengið. Fulltrúar þriggja flokka hér á þinginu stóðu að því sameiginlega á s.l. Alþ. að bera fram þessa breyt. á stjórnarskránni varðandi kjördæmaskipunina og kosningar þær, sem nú eru nýafstaðnar, snerust að verulegu leyti um stjórnarskrárbreytinguna og að eins miklu leyti um stjórnarskrárbreytinguna og hægt er að ætlazt til að kosningar snúist um eitt mál hér á landi. Og úrslit þessara kosninga voru mjög ótviræð, því að rúmir 2/3 hlutar eða yfir 70% af kjósendunum má ætla að hafi verið fylgjandi stjórnarskrárbreytingunni, en þeir, sem voru á móti henni, innan við þriðjungur kjósenda.

Við 1. umr. þessa máls kom nokkuð fram, sérstaklega hjá fulltrúum Framsfl. og þá einkum og sér í lagi 1. þm. S-M., að eiginlega væri ekkert að marka kosningaúrslitin í sumar og allra sízt mætti af þeim ráða viðhorf kjósendanna til þessa máls. Þetta er að sjálfsögðu á mjög miklum misskilningi byggt. Stjórnarskrá okkar mælir svo fyrir, að þegar gerð er stjórnarskrárbreyting, þá skal efnt til kosninga, og hún fær svo ekki lagagildi, fyrr en hún hefur verið samþykkt óbreytt eða staðfest óbreytt á nýju Alþingi að afstöðnum slíkum kosningum. En hins vegar verða menn að gera sér grein fyrir því, að meðan slíkt ákvæði er í stjórnarskránni, þá getur aldrei farið hjá því, að önnur mál blandist jafnframt inn í kosningar, sem þó eru að verulegu leyti um stjórnarskrárbreytinguna og verður svo ætið, meðan sá háttur er þá ekki beinlínis á hafður, að stjórnarskrárbreyting öðlist t.d. staðfestingu, eftir að hún hefur verið samþykkt á Alþingi og eftir að þjóðaratkvgr. hefur farið fram um hana og staðfest hana. En þar sem þessi háttur er ekki hjá okkur, heldur er gert ráð fyrir kosningum og nýrri alþingissamþykkt, þá verður að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, að önnur mál blandist jafnframt inn í slíkar kosningar. Og það liggur í hlutarins eðli, vegna þess að kjósendur urðu að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því í vor, að ef þeir, sem voru á móti stjórnarskrárbreytingunni, hefðu orðið í meiri hluta, þá hefðu ekki orðið neinar nýjar kosningar í haust og ekkert nýtt aukaþing. Þá hefði komið til þess, að leitað hefði verið hófanna um nýja stjórnarmyndun, miðað við þá skipan Alþingis, sem þá var fyrir hendi.

Það var nokkuð látið í veðri vaka af áróðursmönnum Framsfl. og reyndar miklu fleiri þm. flokksins líka, að í vor ættu menn eingöngu að kjósa um stjórnarskrárbreytinguna. Það kom fram t.d. hjá hv. þm. Str. og formanni flokksins í útvarpsumr. fyrir kosningarnar, að menn ættu eingöngu að kjósa um stjórnarskrárbreytinguna, svo gætu menn í haust markað afstöðu sína í kosningunum, sem þá ættu fram að fara, til stjórnmálanna að öðru leyti, t.d. til vinstri stjórnarinnar o.s.frv. Auðvitað var þessum mönnum ljóst, að ef stjórnarskrárbreytingin eða þeir, sem voru á móti henni, hefðu orðið í meiri hluta, þá yrðu engar kosningar í haust og þess vegna væri ekki þá hægt að taka afstöðu í slíkum kosningum til annarra mála. Hér er þess vegna sá háttur hjá okkur, að þó að stjórnarskrárbreyting sé á ferðinni, þá hlýtur hún að einhverju leyti að blandast inn í eða viðhorf manna hljóta að einhverju leyti líka að miðast við önnur mál. En ég er hiklaust þeirrar skoðunar, að ekkert eitt mál hafi á nokkurn hátt haft svipuð áhrif á afstöðu manna í þessum kosningum eins og einmitt stjórnarskrárbreytingin, sem um var kosið. Og það er mikill misskilningur og fær ekki staðizt, sem fram kom hjá hv. 1. þm. S-M. við 1. umr. þessa máls, að t.d. Sjálfstfl., — og ég skal þá aðeins sérstaklega svara fyrir hann, — hafi gert tilraun til þess að draga úr áhrifum stjórnarskrárbreytingarinnar í kosningunum, þ.e.a.s. reynt að dylja mikilvægi þess máls og leggja allan þunga á annað, eins og t.d., að hér ætti ekki aftur að verða vinstri stjórn o.s.frv. Sjálfstfl. dró á engan hátt úr því, að kjósendurnir tækju afstöðu til stjórnarskrárbreytingarinna, og gerði í hvívetna í öllum sínum málflutningi, bæði í blöðum, á málfundum og í útvarpsumræðum fyrir kosningarnar, alveg sérstaklega grein fyrir því máli og við ekkert eitt mál hafði Sjálfstfl. jafnmikið að þessu leyti og einmitt kjördæmamálið, þar sem Sjálfstfl. gaf út sérstakt rit um kjördæmamálið og sendi það um gervallt landið, þar sem reynt var að reifa efnishlið málsins og gera grein fyrir afstöðu Sjálfstfl. til þess og beinlínis lögð á það áherzla, að kjósendur um gervallt land gerðu sér sem fyllsta grein fyrir þessu máli í þeim kosningum, sem fram undan væru.

Ég hygg þess vegna, að einmitt í þetta skipti hafi kannske fengizt ótvíræðari úrskurður um afstöðu kjósendanna til stjórnarskrármálsins eða stjórnarskrárbreytingarinnar heldur en e.t.v. hefur áður verið í hliðstæðum kosningum og a.m.k. verða á engan hátt véfengdar alveg ótvíræðar niðurstöður í því máli, sem lýsa því, að mikill meiri hluti fólksins í landinu eða kjósendanna óskar eftir því, að þessi breyt. nái fram að ganga.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara nú á þessu stigi málsins að hefja nýjar umr. um efnishlið þessa máls. Ekkert eða mjög fá mál voru rædd eins mikið og þetta mál á þinginu fyrir kosningarnar, í blöðum fyrir kosningarnar og á mannamótum, svo að það er í sjálfu sér óeðlilegt að hefja á ný umr. um efnishlið málsins.

Ég vil þess vegna að svo mæltu láta þetta nægja um málið, en meiri hl., eins og ég sagði, leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt.