29.07.1959
Neðri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frsm. minni hl. stjskrn. hefur nú gert svo skýra grein fyrir áliti minni hl. og þeirri till., sem þar er fram borin, að ég þarf ekki að gera það sérstaklega að umræðuefni. En þetta mál, stjórnarskrárfrv., sem hér liggur fyrir, er svo veigamikið mál, að eðlilegt er, að það sé rætt á nokkuð breiðum grundvelli og þau áhrif, sem það hlýtur að hafa í þjóðfélaginu og vil ég því leyfa mér við þessa umr. að fara um málið nokkrum orðum.

Þegar þetta frv. eða frv. samhljóða því, sem hér liggur fyrir, var lagt fram s.l. vor, þá var það kynnt þjóðinni af málgagni hæstv. ríkisstj., Alþýðublaðinu, með stórfyrirsögn yfir þvera forsiðu, sem hljóðaði þannig: „Þetta er mesta breyting, sem gerð hefur verið á þingræðisskipulagi Íslendinga, síðan Alþingi var endurreist.“ Með þessari breyt., þessari mestu breyt., sem gerð hefur verið á þingræðisskipulagi Íslendinga nokkuð á aðra öld, er stefnt að því, eftir því sem fylgismenn málsins segja, að búa til í landinu stórar og sterkar félagsheildir, stærri og sterkari félagsheildir, en sýslurnar eru.

Þróunin í þjóðfélaginu hefur yfirleitt verið á þann veg nú að undanförnu, að það hefur verið stefnt að því að smækka félagsheildirnar fremur, en að stækka þær. Þannig er því farið um bæjarfélögin og sýslurnar, að þess eru mörg dæmi, að sýslufélög hafa verið klofin og þeim skipt í tvö lögsagnarumdæmi. Hið sama er að segja um sveitarfélögin. Þar hefur verið stefnt að því að smækka félagsheildirnar og mörgum sveitarfélögum verið skipt, en yfirleitt hefur þróunin ekki verið sú að steypa þeim saman. Svipað á sér stað t.d. um búnaðarsamböndin, hinn frjálsa félagsskap bændastéttarinnar. Þegar breytingar hafa verið gerðar á félagsheildum í landinu, þá hefur það verið meginregla, að frumkvæði að þeim breyt. hefur komið fram frá því fólki, sem hlut á að máli og Alþ. því aðeins samþ. breyt. eða haft afskipti af þessum málum með löggjöf, að fyrir hafi legið ótvíræður vilji fólksins, sem í hlut á.

Það er að sönnu hægt að finna þess dæmi í sögunni, að stofnað hafi verið til félagsheilda á annan hátt. Ömtin, sem var ákveðið visst verksvið í þjóðfélaginu um nokkurra áratuga skeið, voru sett upp með valdboði ofan frá, með fyrirskipun frá stjórnarvöldunum, en ekki að frumkvæði fólksins heima í héruðunum. Og skipun amtanna eða stöðu þeirra í þjóðfélaginu var stundum breytt með konungsúrskurði, eins og t.d. þegar vestur- og suðuramtið voru sameinuð með konungsúrskurði 1872. Og með þessu skipulagi, sem var búið til ofan frá, var stefnt að því á vissan hátt að búa til sterkar félagsheildir. Það voru sett ákvæði um, að kosin skyldu amtsráð, sem sýslunefndirnar áttu að kjósa og hélzt sú skipan um hríð í þjóðfélaginu. En þegar stjórnarvöldunum þótti henta skömmu eftir aldamótin, þá voru ömtin og þetta skipulag allt, sem hafði verið sett upp á þennan hátt með valdboði ofan frá, afnumið, amtsráðin lögð niður á árunum 1904-1905 og amtsskipulagið numið úr gildi. Og hvaða spor eiga svo þessar stóru félagsheildir, sem þannig var komið upp, í okkar þjóðfélagi? Þau spor eru næsta óglögg. Amtsskipulagið varð aldrei rótfast hér á landi, einkum að ég ætla vegna þess, að það var ekki sett upp með áhuga og fyrir atbeina fólksins sjálfs, sem þar átti hlut að máli.

Þeir, sem að þessu frv. standa, segja í sambandi við þetta mál, að sýsluskipanin, eins og hún er nú, sé í raun og veru úrelt og við umr. um þetta mál á síðasta þingi voru sýsluskipaninni í raun og veru valin hin hæðilegustu orð, hún sé vaxin upp af því sæði, sem erlendir konungar sáðu hér á landi á mestu niðurlægingartímum þjóðarinnar, o.s.frv. Af því mætti draga þá ályktun, að þeir, sem að þessu frv. standa, vilji í raun og veru, að í kjölfar þess komi gerbreyting á sýsluskipaninni, afnám sýslnanna og að myndaðar verði stærri félagsheildir, eins og þeir tala svo mikið um. En það er eftirtektarvert, að þeir, sem þannig tala, haga framkvæmd málsins og gerð þess allri á þann veg, að þeir binda sýsluskipanina í sjálfri stjórnarskránni. Ef það væri alvara að stefna að því að gerbreyta sýsluskipaninni, þá hefði verið alls kostar eðlilegt að afmarka þessi nýju, stóru kjördæmi með landfræðilegum heitum, finna þeim landfræðileg takmörk, t.d. að Vesturlandskjördæmi næði frá Hvalfirði að Gilsfirði o.s.frv. En í stað þess að þetta sé gert, þá er það þvert á móti bundið í stjórnarskrárfrv., að Vesturlandskjördæmið skuli ná yfir Borgarfjarðarsýslu, Akraneskaupstað, Mýrasýslu, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Dalasýslu o.s.frv. um allt land. Ef það ætti að framkvæma það, sem talað er um, að styrkja félagsheildirnar heima fyrir, sýslufélögin, þá virðist þurfa að breyta stjórnarskránni samkv. þessu frv. aftur til þess að ná því marki.

En ef sýsluskipanin á að haldast, eins og frv. sjálft bendir til, þá verða sýslurnar áfram fjárhagsheildir, hvorki veikari né sterkari, þó að þetta kjördæmafrv. verði samþ. Þær verða fjárhagsheildir, sem verða áfram að leysa þau verkefni, sem þeim hefur verið ætlað og þær þurfa að leysa.

En þetta mál, þetta stjórnarskrármál, raskar sögulegri þróun, samfelldri þróun, sem átt hefur sér stað a.m.k. nokkuð á aðra öld. En þrátt fyrir það að svo sé og þetta mál allt svo veigamikið í rauninni, þá vildu fylgismenn málsins ekki láta síðustu kosningar til Alþ. snúast um þetta mál, heldur fyrst og fremst um önnur mál, eins og frsm. minni hl. stjskrn., hv. þm. N–Þ. (GíslG), hefur fært hér skýr rök fyrir.

Íslenzka lýðveldið er eitt hið minnsta af hinum sjálfstæðu ríkjum heims. En sá réttur, að það megi setjast á bekk með stórveldum, þar sem málefni þjóðanna eru rædd, er ekki grundvallaður á fólksfjölda íslenzku þjóðarinnar eða fjármagni hennar og svo verður ekki a.m.k. í náinni framtíð, heldur er það fyrst og fremst sögulegur réttur. En eins og þjóðfélagið í heild á sinn sögulega rétt, þá eiga héruðin í landinu líka vissan sögulegan rétt, sem þeim er næsta dýrmætur. Nú segja fylgismenn þessa máls: Hinn sögulegi réttur héraðanna er lítils virði. Hann á að víkja. En í stað þess eiga að koma nýjar reglur og meginefni þeirra er það, að fólksfjöldinn á hverjum stað, höfðatalan og fylgi flokkanna á að ráða. — Og svo segja fylgismenn þessa máls, að þessar nýju reglur, sem þeir beiti sér fyrir að koma á, eigi að verða til hagsbóta héruðunum sjálfum. í því sambandi er ástæða til að spyrja: Hver hefur átt frumkvæðið að þessum breytingum? Hefur það frumkvæði verið úti í héruðunum eða annars staðar? Og hvar er að finna þær samþykktir utan úr héruðunum, þar sem skorað hefur verið á stjórnarvöldin að beita sér fyrir þessari breytingu? Þær samþykktir liggja ekki fyrir, en þvert á móti höfðu Alþ. borizt á sínum tíma mjög mörg mótmæli víðs vegar að gegn þeirri breyt., sem hér á að lögleiða.

Og nú er sagt, að þetta mál þurfi að knýja fram til þess að auka lýðræðið í landinu og auka mannréttindin, þetta sé mannréttindabarátta. Það er að sönnu fögur hugsjón, að jafnrétti þegnanna sé sem mest. En jafnrétti þegnanna er ekki eingöngu í því fólgið, að kosningarrétturinn fari eftir fólksfjölda á hverjum stað. Ég hygg, að það þurfi allvíða að svipast um í þjóðfélaginu til þess, að jafnréttið sé þá framkvæmt á öðrum sviðum jafnframt. Og það er viðurkennt í lýðræðisríkjum víða um heim, að eðlilegt sé, að kjósendur í höfuðborgunum, þar sem stjórnarvöldin hafa aðsetur, séu fleiri á bak við hvern þingmann heldur en kjósendur í landshlutum, sem eru mjög fjarri aðsetri stjórnarvaldanna.

Það er að sönnu meginatriði lýðræðis, að sem flestir félagshópar og flestar stefnur fái aðstöðu til þess að túlka skoðanir sínar fyrir almenningi. En það er ekki nema annar þáttur lýðræðisskipulagsins. Þingræðisskipulagið grundvallast á því í framkvæmd, að það myndist meiri hl., að það myndist úrskurðarvald, sem leysir málefni þjóðfélagsins, þar sem þeim er ráðið til lykta. Af því sprettur það, að þó að þess megi finna dæmi erlendis, að ríkisstjórnir séu kosnar hlutfallskosningu af fulltrúum löggjafarþinganna, þá er það alger undantekning. Meginreglan hjá þjóðum, sem fylgja lýðræði og þingræðisskipulagi, er sú, að um framkvæmdarvaldið myndist meiri hl. og minni hl., að það fáist úrskurðarvald, en ekki að framkvæmdarvaldinu sé dreift í jöfnum hlutföllum nákvæmlega á hendur allra.

Það er líka eftirtektarvert, hvaða rök eru færð fyrir þessu máli öðrum þræði. Til dæmis sá flokkurinn, fjölmennasti flokkurinn, Sjálfstfl., sem beitir sér nú mjög fyrir þessu máli, hefur það sem eina af aðalröksemdum sínum fyrir málinu, að það þurfi að koma kjördæmaskipuninni í það horf, að festa í þjóðmálum geti náðst. Menn geta nú svona nokkurn veginn rennt grun í, hvað í þessu felst. Það kann að vera, að það þyki ekki óaðgengilegt, að kjördæmaskipunin skipti valdinu í landinu þannig, að það geti myndazt meiri hl. eins flokks og þannig geti festa í þjóðmálum náðst. En þá er ekki stefnt að því að dreifa valdinu nákvæmlega í réttum hlutföllum við fulltrúafjölda flokkanna á Alþingi. Og þegar litið er til mannréttindanna, sem þetta frv. á að veita, þá verður manni að spyrja: Hvernig er því háttað með mannréttindin í hinum frjálsu félagssamtökum, t.d. verkalýðsins, sem hafa sett sér sínar eigin kosningareglur án nokkurrar þvingunar, án nokkurrar lagaþvingunar af hálfu Alþingis? Er því ekki þannig varið nú í dag um t.d. stærstu verkalýðsfélögin, sem kjósa mjög marga fulltrúa í trúnaðarstöður, t.d. á Alþýðusambandsþing, að sá flokkurinn, sem aðeins fær meiri hl. í kosningunni, fái alla fulltrúana kosna? Eru ekki mannréttindi til staðar í þessum frjálsa félagsskap verkalýðsins? Og hvað veldur því, að þeir hafa ekki lagt á það áherzlu að koma þar á sams konar, svipuðu eða sambærilegu skipulagi og stefnt er að að koma á um alþingiskosningar með þessu frv.

Þá er talað um það í sambandi við þetta mál, að það þurfi að koma á staðarlegu jafnrétti í sambandi við kosningar til Alþingis. Í því sambandi verður að gæta þess, að þegar ákveðið er, hvað hver flokkur fær marga uppbótarþingmenn kjörna, þá eru talin saman og lögð til grundvallar öll atkvæði, sem sá flokkur fær á landinu. Það er í raun og veru atkvæðamagn þéttbýlisins, sem skilar ákveðnum fjölda uppbótarmanna inn á þing í viðbót við hina kjördæmakjörnu. Og það hefur verið sagt sem meðmæli með þessu frv., að líkur bentu til, að fullur jöfnuður mundi nást milli flokka, ef kosið yrði eftir því skipulagi, sem stefnt er að að koma á samkv. frv. En þegar tillit er tekið til uppbótarþingsætanna og ef það tekst að koma á fullum jöfnuði milli flokka, þá er í raun og veru ekki lengur heldur hægt að tala um staðarlegt misrétti, þá er ekkert eftir annað en það, að uppbótarmennirnir eiga e.t.v. ekki allir lögheimili eða aðsetur í þéttbýlinu. En jafnvel það hefur meiri hl., sem stendur að þessu máli, á valdi sínu að fá lagfært í sambandi við kosningalögin, ef hann sjálfur leggur áherzlu á, hann hefur vald til þess hér á hv. Alþ., svo að það er hans mál.

Þá er það fært fram sem rök fyrir þessu máli, að breyt. muni auka stéttarlegt jafnrétti í kosningunum. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl), sem var einn af flm. þessa máls á síðasta þingi, sagði orðrétt hér í þessari hv. d. við 1. umr. þessa máls nú fyrir fáum dögum: „Þetta er sjálfsagt mál fyrir verkafólk. Fátækir verkamenn í kaupstöðum landsins eiga að hafa sama rétt eins og hver annar Íslendingur við alþingiskosningar.“

Þeirri furðulegu fullyrðingu hefur verið slegið fram í sambandi við þetta mál, að með núv. kjördæmaskipun gæti farið svo, að þó að allir launþegar í landinu stæðu saman við kosningar, þá fengju þeir samt ekki meiri hl. á Alþ., þetta væri því réttindabarátta launþega í landinu öðrum þræði. Þegar þetta er athugað, þá er auðsætt, að þessi fullyrðing fær á engan hátt staðizt. Það fólk, sem fær tekjur sínar greiddar með peningum og kalla má launþega, er í heild mikill meiri hl. þjóðarinnar. En í þeim flokki, í launþegahópi, eru alls ekki einungis fátækir verkamenn í kaupstöðum, heldur m.a. menn, sem bezta aðstöðu hafa í þjóðfélaginu. Það er svo þáttur út af fyrir sig, að liðsmenn hv. 3. þm. Reykv., sem keppa úti í héruðunum, og raunar fleiri fylgismenn þessa máls halda því mjög fram þar, að bændur, sem margir séu einyrkjar, eigi fyrst og fremst samstöðu með verkamönnunum og eigi að kjósa t.d. Alþb., en ekki því, að allur launþegahópurinn út af fyrir sig eigi samstöðu í þjóðfélaginu. En ef þetta er rétt, þegar talað er úti í héruðunum, þá er eðlilegt að taka einnig tillit til þess í sambandi við þetta mál, þegar réttur borgaranna í þjóðfélaginu er metinn.

En ef við lítum nú á þetta í þrengri merkingu og skoðum aðstöðu verkamanna út af fyrir sig í sambandi við kjördæmaskipunina, þá er það svo, að t.d. í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, þá voru í heild mun færri kjósendur á bak við þm. en hér í Rvík. Svo hefur ávallt verið, síðan Alþ. var endurreist og grundvöllur núv. kjördæmaskipunar lagður. En sá munur hefur að sönnu aukizt nú á síðari árum með vexti höfuðborgarinnar. En atkvæði verkamannsins á Hornafirði vegur nákvæmlega jafnmikið og atkvæði bóndans inni í sveitinni og atkvæði embættismannsins í héraðinu. Og atkvæði forstjórans og yfirmannsins hér í Reykjavík hefur líka alveg nákvæmlega jafnmikið gildi og atkvæði verkamannsins út af fyrir sig. Það er því ekki rökrétt hugsun, þegar því er slegið fram í sambandi við þetta mál, að með því sé verið að koma á stéttarlegu jafnrétti við alþingiskosningar. Þeir, sem þannig tala, miða orð sín sennilega helzt við það, að það séu ákveðnir flokkar, þar sem verkamenn séu aðilar að.

Þegar það er athugað, liggur næst að líta á atvinnuskiptingu þjóðarinnar, eins og hagstofan hefur fundið eftir manntali að hún sé. Samkvæmt skýrslum hagstofunnar er atvinnuskipting þjóðarinnar þannig, að af öllum starfandi mönnum í landinu eru 58.5% verkamenn og til viðbótar því tæp 8%, sem eru einyrkjar og eftir röksemdafærslum t.d. frambjóðenda Alþb. og fleiri, sem þetta mál styðja, eiga einyrkjarnir í sveitinni fulla samstöðu með verkamönnum. Þetta er því milli 60 og 70% þjóðarinnar. En niðurstaðan af síðustu alþingiskosningum var sú, að þeir flokkar, sem sjálfir kalla sig verkalýðsflokka, fengu samtals um 27% kjósenda í landinu. Þegar á þetta er litið, er auðsætt, að jafnvel tæpur helmingur verkamanna, eins og hagstofan skiptir þjóðinni í atvinnugreinar, fylgir þeim flokkum, sem sjálfir kalla sig verkalýðsflokka.

Það má einnig líta til þess, að atvinnuvegirnir eru mjög misjafnir að því leyti, hve mikill hluti af því fólki, sem við þá starfar, er verkamenn. Það er kunnugt, að verzlunin t.d. á langmest ítök hér í Reykjavík og í þéttbýlinu. En eins og hagstofan skiptir fólkinu í atvinnustéttir, þá eru aðeins rúm 18% þess fólks, sem í heild vinnur að verzluninni, — þeim atvinnuvegi, — verkafólk, en t.d. við fiskveiðar eru nærri 86% af því fólki, sem við þann atvinnuveg vinnur, verkafólk. Nú er það kunnugt, að fiskveiðar eru undirstöðuatvinnuvegur víða úti um landsbyggðina, en verzlun, iðnaður og ýmislegt fleira eru mjög veigamiklar atvinnugreinar hér í höfuðstaðnum og í þéttbýlinu. Af þessu er auðsætt, að hlutfallslega meiri hluti kjósendanna úti um land telst til verkalýðsstéttarinnar beinlínis, heldur en hér í þéttbýlinu. Þessi röksemd, að með þessu frv. sé stefnt að því að koma á stéttarlegu jafnrétti, fær því ekki heldur staðizt.

Með þessu frv. er, eins og við framsóknarmenn höfum oft bent á, lyft undir það, að stjórnmálaflokkum fjölgi í landinu. Það verður bætt aðstaða til nýrrar flokksmyndunar. En það hlýtur að leiða af sér aukna skiptingu á atvinnustéttunum milli stjórnmálaflokka og stefnir því sízt að því að færa atvinnustéttirnar saman að því er stjórnmálabaráttuna snertir.

Nei, þegar þetta mál er brotið til mergjar, þá er það augljóst, að grundvöllur þess og það, sem að baki því liggur, er að jafna metin milli stjórnmálaflokkanna í landinu. Það er að reyna að koma á auknu jafnrétti milli flokkanna og í samræmi við það áttu flokksstjórnirnar og flokksforingjarnir, sem beita sér fyrir þessu máli, frumkvæði að þeirri stjórnarskrárbreytingu, sem hér er til umræðu.

En þá er á það að líta, hvaða horfur eru á, að þetta jafnrétti milli flokkanna náist, ef frv. verður samþykkt nú og kosningar fara fram samkvæmt hinni nýju skipan.

Eftir síðustu kosningar birtu nokkur blöð útreikninga um það, hvernig þingsæti hefðu fallið að óbreyttum atkvæðatölum milli flokkanna, ef kosið hefði verið eftir því fyrirkomulagi, sem stefnt er að að koma á samkvæmt þessu frv. Það er fróðlegt í sambandi við þetta mál að gera sér grein fyrir því, hvernig þetta hefði fallið. Ég geri ráð fyrir, að þeir útreikningar, sem birtust í nokkrum blöðum og voru samhljóða, séu réttir og það megi leggja þá til grundvallar, þegar á þetta er litið. Og þá er það fróðlegt, hvernig jafnrétti milli flokka, hvernig valdaaðstaðan í landinu á að breytast frá því, sem var t.d. á síðasta kjörtímabili, þegar þetta mál var tekið upp, samkvæmt þessum útreikningum.

Á síðasta kjörtímabili var það svo, að Sjálfstfl. hafði 19 þm., þ.e.a.s. 36.7% þingsætanna. Eftir nýju skipaninni á hann að fá, með þeim atkvæðatölum, sem komu í ljós við síðustu kosningar, 27 þm., eða 45% þingsætanna. Framsfl. hafði 17 þm., þ.e.a.s. 32.7% þingsæta, á að fá 17 þm., þ.e.a.s. 28.3% þingsæta, þegar miðað er við þingmannafjöldann, fjölgunina upp í 60 þm. Alþb. hafði 8 þm., þegar þetta mál var tekið upp, þ.e.a.s. 15.3% þingsætanna, á að fá 9 þingmenn samkvæmt síðustu atkvæðatölum, þ.e.a.s. 15% þingsætanna. Alþfl. hafði 8 þm., 15.3% þingsæta, á að fá 7 þm, þ.e.a.s. 11.7% þingsætanna.

Þegar á þetta er litið, er það auðsætt, hvernig fer um jafnréttið milli flokkanna samkvæmt þessari nýju skipan, að það er aðeins einn flokkurinn, Sjálfstfl., sem fær aukið valdssvið hér á hv. Alþingi samkvæmt hinni nýju skipan. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort forustumenn verkalýðsflokkanna hafa gert sér grein fyrir þessu í öndverðu, áður en þjóðinni var hrundið út í þær deilur, sem skapast um þetta mál, eða hvort auðmýkt þeirra og undirgefni gagnvart Sjálfstfl. er á svo háu stigi, að þeir segi: Hann á að vaxa, en við að minnka.

En það er ýmislegt, sem bendir þó til þess, að forustumenn verkalýðsflokkanna, sem tóku þá ákvörðun að hefja deilur um þetta mál og knýja það fram, sjái nú ýmsa hluti betur eftir kosningarnar heldur, en þeir gerðu í öndverðu. Það er næsta eftirtektarvert, að þessa daga, nú þegar verið er að vinna að lokaafgreiðslu þessa máls, — þessa máls, sem þríflokkarnir kalla mannréttindamálið, málið, sem á að auka lýðræðið í landinu, o.s.frv., — þá sendir. hv. 3. þm. Reykv., sem var einn af flm. frv. á siðasta þingi, frá sér neyðarkall opinberlega, einmitt þessa daga. Og tónarnir í neyðarkallinu eru m.a. þannig: Úrslit síðustu alþingiskosninga eru viðvörun til verkalýðshreyfingarinnar um, að nú séu síðustu forvöð að stöðva þá óheillaþróun, sem við blasir, ef svo er fram haldið sem verið hefur s.l. 13 ár. Á 13 árum hafa verkalýðsflokkarnir þannig tapað upp undir tíunda hluta þjóðarinnar yfir til borgaraflokkanna. En ein er höfuðorsök þessarar hættulegu þróunar, sem ekki verður um deil, og hún er sú, að öll þessi ár hafa verkalýðsflokkarnir barizt hvor við annan í stað þess að standa saman og vinna hvor með öðrum að öllum þeim málum, sem þeir eru sammála um. — Og svo eru síðustu tónarnir í neyðarkallinu þannig: Á þetta að ganga svona áfram? Og það er skírskotað til samvizku manna, samvizku almennings og þeirra forustumanna Alþfl., sem kallinu er sérstaklega beint til.

Það er augljóst, að kjördæmaskipunin, sem enn er í gildi, hefði út af fyrir sig getað skilað verkalýðsflokkunum eins mörgum fulltrúum og tryggt þeim jafnmikil áhrif á löggjafarþingi og þeir höfðu t.d. 1946, eins og forustumaður Alþb. bendir á. Hér kemur allt annað til.

Það er svo út af fyrir sig eftirtektarvert, að þessu neyðarkalli skuli fyrst og fremst vera beint til forustumanna Alþfl., sem hafa stundum áður fengið miður virðuleg heiti hjá forustumönnum Sósfl., — mannanna, sem forustumenn Sósfl. hafa t.d. sagt um á prenti, að „Alþfl. með foringjavaldi sínu sé höfuðstoð og stytta burgeisastéttarinnar á Íslandi,“ eins og segir orðrétt í kommúnistískum fræðum. En allur almenningur hlýtur að skilja, að í þessu neyðarkalli felast játningar manna, sem nú sjá kannske ýmislegt betur en þeir sáu fyrir í öndverðu. Í þessu kalli felast raunar djúpir kveinstafir, þungur áfellisdómur um eigin athafnir á stjórnmálasviðinu undanfarin ár. Og þeir alþýðumenn, sem skilja þetta og gera sér rétta grein fyrir þróun mála, verða æ fleiri og fleiri. Þeir finna það, að þessi áfellisdómur er réttmætur.

Þá er það einn þáttur í þessu máli, að fylgismenn þess hafa látið það koma fram opinberlega, á mjög skýran hátt, að með því að knýja það fram muni mega takast að hnekkja valdi samvinnuhreyfingarinnar í landinu. Það vill nú svo til, að þróun hins frjálsa félagsskapar í þessu landi hefur orðið mjög samhliða þróun Alþingis sjálfs. Fáum árum áður en Alþingi var endurreist var fyrsta búnaðarfélagið stofnað í þessu landi og jafnframt því að Alþingi hefur vaxið að veg og valdi á undanförnum tíma, þá hefur þessi frjálsi félagsskapur, búnaðarfélagshreyfingin, líka vaxið bæði að útbreiðslu og þau verkefni, sem hann hefur tekið sér fyrir hendur að leysa, hafa orðið æ stærri með hverjum áratug, sem liðið hefur. Rétt fyrir síðustu aldamót var komið fastri skipan á þessa félagsmálahreyfingu með stofnun Búnaðarfélags Íslands. Og nú á allra síðustu áratugum hafa verið leyst af hendi stórvirki í sveitum landsins á vegum þessa félagsskapar. Ríkisvaldið með Alþingi í broddi fylkingar hefur að sönnu veitt mjög mikilsverða aðstoð og hvatningu til þessara framfara, en framkvæmdirnar sjálfar hafa ekki hvílt á herðum ríkisvaldsins og þær eru of stórfelldar til þess, að það sé hægt að leysa þær með einkaframtakinu út af fyrir sig. Lausnin hefur verið fundin þannig, að hinn frjálsi félagsskapur bændastéttarinnar hefur tekið að sér framkvæmdirnar og leyst þau verkefni af hendi með þeim ágætum, sem þjóðkunnugt er.

En einmitt þegar hinn frjálsi félagsskapur bændanna leysir þessi verkefni, þá myndar hann sínar eigin félagsheildir, ekki eftir þeirri stefnu, sem allt þetta frv. byggist á, að steypa saman í stærri og stærri heildir, heldur þvert á móti á þann veg að skipta búnaðarfélögunum sjálfum í smærri félagsheildir, oft eftir landfræðilegum staðháttum að einhverju leyti, í ræktunarsamböndin.

Svipað má segja um samvinnuhreyfinguna. Það er jafnan talið svo, að upptök samvinnuhreyfingarinnar megi rekja til svo að segja nákvæmlega sama tíma og þegar Alþingi var endurreist. — Það er talið svo, að fyrsta kaupfélagið hafi verið stofnað í Bretlandi í desember 1844. En það er eftirtektarverð staðreynd, sem Íslendingar hafa ef til vill ekki gert sér eins ljósa og vera skyldi, að það voru íslenzkir bændur, sem í raun og veru voru brautryðjendur samvinnuhreyfingarinnar.

Íslenzkir bændur höfðu myndað félagasamtök, nokkru áður en fyrsta kaupfélagið í Bretlandi var stofnað, t.d. félagasamtök í Þingeyjarsýslu undir forustu kennimannsins á Hálsi í Fnjóskadal. Síðan hefur þessi frjálsi félagsskapur þróazt samhliða þróun Alþingis. Og þau verkefni, sem hann hefur leyst af hendi, hafa vaxið og stækkað og sú þjónusta aukizt, sem hann hefur veitt í þjóðfélaginu.

Nú er seilzt svo langt í leit að rökum fyrir þessu máli, sem hér liggur fyrir, að það er talið leggja grundvöll að því, að auðið sé að hnekkja gengi og áhrifum samvinnuhreyfingarinnar frá því, sem nú er. Og kappgjarnir flokksforingjar, sem beita sér fyrir þessu máli, kynda glæður í flokkssmiðjum sínum og slá í sífellu rógmálm, sem á að vera nothæft vopn til að vega að samvinnuhreyfingunni. Foringjar samvinnumanna, innan þings og utan, svara fyrir sig og það er margsýnt, að rógmálmurinn stenzt ekki í skylmingum við þá. En fólkið úti um landsbyggðina, sem á skömmum tíma hefur lyft grettistaki í búnaði með frjálsri samvinnu og félagsstarfi, fólkið, sem sjálft sannreynir gildi samvinnufélaganna og þá mikilvægu þjónustu, sem þau veita í sambandi við atvinnulíf og viðskipti, getur vel myndað sér sjálfstæða skoðun á samvinnuhreyfingunni og metið réttilega gildi hennar án leiðbeininga kappgjarnra flokksforingja. Þetta fólk temur sér ekki kröfugöngur, en það er yfirleitt gætt því eðli alþýðumannsins, sem öndvegisskáld tveggja þjóða hafa lýst af djúpum skilningi, Stephan G. Stephansson m.a. þannig:

Smiðju lífsins er ég í

minn eigin gæfusmiður.

Á lífsins steðja stæla má

í starfað dagsverk hverja þrá.

Þetta fólk gerir greinarmun á réttu og röngu. Það vegur og metur að staðaldri málfærslu flokksblaðanna og finnur vel, af hvaða toga hún er spunnin. Og það mun svara fyrir sig, hvenær sem tækifæri gefst og hvernig sem kjördæmaskipunin verður. Og því fastara sem rógmálmurinn er sleginn, sem á að verða vopn til að vega að samvinnuhreyfingunni, þeim mun ákveðnara mun svar þess verða.

Þetta mál er allt svo mikilvægt, að það eru full rök fyrir þeirri till., sem við í minni hl. berum fram, að þjóðin fái enn aðstöðu til þess að segja álit sitt á málinu, áður en það verður tekið til lokaafgreiðslu og þau orð, sem ég hef nú látið falla um málið, eru m.a. rökstuðningur fyrir því.