13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

4. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það sé nú svo, að enginn vilji láta í ljós, að hann sé á móti því, að skerðingarákvæðin, þessi hvimleiðu, ranglátu og særandi skerðingarákvæði, sem hafa allt of lengi verið í gildi í almannatryggingalögunum, verði felld niður. Hins vegar verð ég að játa það, að ég skil ekki almennilega samhengið í því, þegar menn segja, að þeir séu eiginlega ekki á móti því, að þau verði felld niður, en þeir vilja þó draga að afnema þau, af því að það sé svo margt annað, sem þurfi að breyta í almannatryggingal. Ef það að afgreiða þetta mál og binda þannig endi á það ranglæti, sem í skerðingarákvæðunum felst, tefði fyrir endurskoðun, tefði fyrir leiðréttingu á öðru, sem einnig þurfi að leiðrétta, þá skildi ég þetta sem röksemdafærslu, en annars ekki, því að það væri þó búið að leiðrétta eitt af hinu marga, sem þyrfti að leiðrétta, með því að sameinast um að fella skerðingarákvæðin nú niður.

Það lá fyrir þinginu till. um að hreyfa dálítið við skerðingarákvæðunum og losa nokkra menn í þjóðfélaginu, kannske helzt þá efnaðri, sem höfðu keypt sér sérstakar tryggingar, undan ranglæti skerðingarákvæðanna. Þess vegna tók ég fyrir eingöngu það, sem beint leiddi af þessu og sagði: Ég vil þá ekki láta þá sitja með skerðingarákvæði laganna, sem afla sér atvinnutekna, sem fara yfir það hámark, sem leyft er án þess að skerða greiðslu frá tryggingunum. Ég fór því ekki út í neitt annað. en það sem lá fyrir í frv., en vildi láta það ná til allra, sem verða fyrir barðinu á hinum margnefndu skerðingarákvæðum tryggingalaganna.

Mér er það engin huggun, þó að það standi nú í tryggingalögunum, að skerðingin skuli falla niður einhvern tíma á árinu 1960, því að það eru allar líkur til þess, að þau ákvæði verði framlengd enn á ný. Það stóð í tryggingalögunum upphaflega, að þetta ákvæði skyldi bara gilda til 5 ára, þá átti það að falla niður. Ónei, það féll nú ekki alveg niður, það var framlengt þá og hefur verið framlengt, að ég hygg, tvisvar sinnum síðan. Og þegar farið er að tala um, að skerðingarákvæðin hafi í för með sér 1520 millj. kr. sparnað, þá er komið út á þá braut, að menn eru farnir að hugsa um, að það að afnema ákvæðin valdi tryggingunum miklum útgjöldum. Það er rangur hugsunarháttur gagnvart tryggingum. Ég hef því enga vissu fyrir því, að skerðingarákvæðin verði felld niður á árinu 1960 og tel því, að þetta mál væri fengið úr mikilli óvissu, ef allir flokkar á hv. Alþ. nú vildu sameinast um að fella skerðingarákvæðin niður, fella þau úr lögum. Það væri áreiðanlega þessu sumarþingi til sóma að hafa afgreitt það ásamt stjórnarskrármálinu.

Hv. þm. Ísaf. (KJJ) gat um afstöðu fulltrúa Alþb. í tryggingaráði og þarf ég varla að láta segja mér um hans afstöðu. Ég veit, að þetta er gamalt og nýtt baráttumál Alþb., að skerðingarákvæðin gagnvart ellilífeyri og örorkubótum verði felld niður úr lögum, og veit, að allir trúnaðarmenn Alþb., hvar sem er, vilja, að svo verði gert. Hitt veit ég, að okkar fulltrúi þar sér og veit, að það þarf að breyta ýmsu öðru í tryggingalöggjöfinni henni til umbóta og sé ég ekki á nokkurn hátt, að þessi leiðrétting tefði fyrir þeim nauðsynlegu breytingum.

Ég vil því enn láta í ljós ósk og von mína um það, að þetta geti orðið samkomulagsmál hér á hv. Alþ. og fengið afgreiðslu í báðum d. þingsins, áður en þinginu lýkur. Það á ekki að þurfa að tefja störf þingsins eða draga þau á langinn á nokkurn hátt.