29.07.1959
Neðri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Tómas Árnason:

Herra forseti. Mér þykir rétt og raunar skylt að gera grein fyrir skoðun minni á því þýðingarmikla örlagamáli íslenzkra byggða, sem er til umræðu hér í þessari hv. þingdeild, ekki sízt vegna þess, að ég er fulltrúi eins af þeim kjördæmum, sem nú á að leggja niður samkvæmt því frv., sem nú liggur fyrir til umræðu.

Árið 1942 markar eitt spor í sögu íslenzkra stjórnskipunarlaga. Þá beittu þrír stjórnmálaflokkar sér fyrir breytingum á kjördæmaskipun landsins. Það voru Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Sameiningarflokkur alþýðu, Sósialistaflokkurinn eða kommúnistarnir. Sú breyting náði fram að ganga í fullri andstöðu við Framsóknarflokkinn, eins og kunnugt er, og þessi kjördæmaskipan er í gildi enn í dag. Margir spáðu því þá, að kjördæmaskipan þessi væri ekki til frambúðar, enda í raun og veru, ef betur er að gáð, hinn mesti hrærigrautur, þar sem ægir saman einmenningskjördæmum, tvímenningskjördæmum með hlutfallskosningum og Reykjavíkurkjördæmi með 8 þingmönnum kosnum hlutfallskosningum og ofan á þetta bætast svo uppbótarþingsætin. Þingfulltrúar eru því kjörnir með næsta ólíkum hætti: Í fyrsta lagi með óhlutbundnum kosningum í einmenningskjördæmum, í öðru lagi með hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmum, í þriðja lagi með hlutfallskosningum í Rvík, í fjórða lagi sem uppbótarþingmenn á atkvæðamagni í kjördæmum, í fimmta lagi sem uppbótarþingmenn á hlutfalli milli atkvæðamagns frambjóðenda og heildaratkvæðamagns í kjördæmunum og í sjötta og seinasta lagi með röðun á landslista, sem hefur verið hagnýtt stundum.

Það er ekki ofsagt, þótt núverandi kjördæmaskipun sé óheilsteypt í meira lagi, enda er það svo, að í mörgum tilfellum er næsta erfitt að átta sig á, hvernig atkvæði manna verka, þegar þeir greiða atkvæði við kosningar. Dæmi eru og til þess, að frambjóðendur hafa verið í vafa um, hvort þeir hafa náð kosningu, löngu eftir að talningu er lokið.

Ekki var kjördæmaskipun þríflokkanna komin á giftingaraldur kvenna, þegar sköpurum hennar fannst tími til þess kominn að hugsa til giftingar kjördæmanna sjálfra. Tóku höfundar kjördæmaskipunarinnar sig til og trúlofuðu kjördæmin nauðug, viljug í stórum hópum í skammdeginu í vetur. Hefur tilhugalífið staðið fram á þennan dag og þykir allróstusamt.

Ekki verður feðrum núverandi kjördæmaskipunar eingöngu kennt um skammsýni, þegar þeir settu kjördæmaskipunina 1942. Miklir fólksflutningar hafa átt sér stað í landinu síðan, sem réttlæta einhverjar breytingar á kjördæmaskipuninni. En hitt stendur óhaggað, að þríflokkarnir eru feður núverandi kjördæmaskipunar, sem þeir lýsa nú sem hinu herfilegasta ranglæti og ganga á undan öðrum í að gagnrýna.

Næsti stórviðburður í sögu íslenzkra stjórnskipunarlaga var, þegar lýðveldið Ísland var endurreist árið 1944. Þá voru nánast þær einar breytingar gerðar á stjórnarskránni, sem voru óhjákvæmilegar til þess að breyta um stjórnarform, breyta konungsríkinu Ísland í lýðveldið Ísland. Þrátt fyrir þetta var flestum ljóst, að ýmsar frekari breytingar þyrfti að gera á stjórnarskránni. Hins vegar var talið þýðingarmeira þá að sneiða hjá óhjákvæmilegum innanlandsdeilum um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar til þess að tryggja sem mesta einingu um stofnun lýðveldisins.

En áhuginn fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild var fyrir hendi. Fyrsta ríkisstj., sem mynduð var eftir stofnun lýðveldisins, nýsköpunarstjórnin, hafði á stefnuskrá sinni að endurskoða stjórnarskrána. Nefndir, bæði utan þings og innan, áttu að athuga þetta mál, en munu aldrei hafa skilað neinu áliti.

Næsta ríkisstj., ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar, hét því, að hraðað skyldi endurskoðuninni, svo sem föng væru á. Í samræmi við þá yfirlýsingu samþykkti svo Alþingi á öndverðu ári 1947 þál. um málið. Mælti ályktunin svo fyrir, að skipa skyldi nýja stjórnarskrárnefnd, sem taka skyldi við af hinum eldri nefndum. Þó dróst að skipa í nefndina þar til í nóvembermánuði 1947. Þessi stjórnarskrárnefnd hefur starfað — eða öllu heldur ekki starfað — í 12 ár.

Þess ber að geta, að í þeim tveim ríkisstj., sem gáfu þjóðinni fyrirheit um endurskoðun stjórnarskrárinnar á árunum 1944–47, áttu allir núv. þingflokkar ráðherra. Sjálfstfl. og Alþfl. studdu báðar þessar ríkisstj. Þeir hafa því tvívegis heitið þjóðinni heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er því eðlilegt, að margir undrist, þegar þessir tveir flokkar ganga fram fyrir skjöldu í bandalagi við kommúnista um að taka eitt ákvæði út úr stjórnarskránni, kjördæmaskipunina og gera á henni byltingarkenndar breytingar án þess að hrófla við öðrum ákvæðum. Það er því sanngjarnt að minna á og spyrjast fyrir um efndir tvöfaldra fyrirheita um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Það fer ekki á milli mála, hvílíkt stórmál endurskoðun stjórnarskrárinnar er. Má búast við stórpólitískum átökum í sambandi við það mál að sjálfsögðu. Eitt þeirra atriða, sem hvað mestum deilum veldur, verður einmitt framtíðarskipun kjördæmanna. En það eru ýmis fleiri atriði stjórnarskrárinnar, sem þyrfti að endurskoða. Ég skal nefna lítið og raunar algerlega ópólitískt atriði. Það er lögfest í 33. gr. stjórnarskrárinnar, að eitt af skilyrðum kosningarréttar sé, að til þess að eiga hann hafi menn verið búsettir í landinu síðustu fimm árin, áður en kosning fer fram. Ég þekki íslenzk hjón, sem hafa verið búsett erlendis í nokkur ár, vegna þess að maðurinn hefur unnið þar hjá íslenzku fyrirtæki. Nú eru þau flutt heim aftur fyrir heilu ári, en fá samt ekki að kjósa. Þetta ákvæði er algerlega úrelt vegna gerbreyttra aðstæðna, frá því að það var lögfest. Dæmi mætti nefna um mörg fleiri atriði stjórnarskrárinnar, sem ástæða væri til að endurskoða.

Framsfl. er þeirrar skoðunar, að skylt sé að ljúka sem allra fyrst endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild og það þurfi fleiru að breyta, en kjördæmaskipuninni. Þegar af þessari ástæðu er ég andvígur frv. því, sem hér liggur fyrir hv. þingdeild um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Það er ábyrgðarhluti að steypa þjóðinni of oft út í pólitískar stórstyrjaldir um breytingar á stjórnarskipulaginu. Bezt væri og þarflegast fyrir fólkið í landinu að endurskoða stjórnarskrána rækilega og setja nýja, sem líklegri væri til að gilda um lengri tíma en reynslan hefur sýnt um einhliða breytingar á kjördæmaskipuninni.

Ef athugaðar eru fyrri yfirlýsingar og svardagar stjórnmálaforingja um, að t.d. Sjálfstfl. muni aldrei samþykkja stofnun stórra kjördæma, og fullyrðingar um að, að því yrði mikill ávinningur fyrir kjósendur að skipta t.d. Reykjavík í 16 eða 17 kjördæmi, er þá nema von, að menn reki í rogastanz, þegar Sjálfstfl. allt í einu kemur fram með þá stefnu í kjördæmamálinu, að tekin skuli upp stór kjördæmi með hlutfallskosningum, en öll hin fornu kjördæmi landsins nema Reykjavík lögð niður?

Það gefur auga leið, að þessi breyting kemur harðast niður á sveitunum og hinum smærri kauptúnum, sem þegar eiga í vök að verjast í ýmsum efnum. Fer ekki hjá því, að þessi breyting mun hafa mikil og djúptæk áhrif á atvinnulíf og alla aðstöðu kjördæmanna frá því, sem verið hefur. Alþm. eru nú meiri og minni forsjá margra byggðarlaga kringum land allt í sambandi við framfara- og hagsmunamál þeirra. Verður þar víða skarð fyrir skildi, þar sem hætt er við, að þm. stóru kjördæmanna líti á sig sem fulltrúa heilda, sem nú eru mörg kjördæmi. Í núverandi héraðakjördæmum eru þm. yfirleitt gerkunnugir öllum staðháttum, sumir jafnvel flestöllum kjósendum. Þeir þekkja því vandamál kjördæmisins af eigin reynd. Sambandið milli þm. og fólksins í kjördæminu er mjög náið og stöðugt. Það snýr sér til hans með vandamál einstakra sveitarfélaga jafnt sem kjördæmisins í heild. Þingmanninum er á hinn bóginn mikið aðhald að því að bera fulla ábyrgð á meðferð og árangri margra mestu nauðsynjamála kjördæmisins. Hann getur yfirleitt ekki varpað ábyrgðinni á aðra. Varðandi almenna lagasetningu tryggir kunnugleiki þm., að sjónarmið allra byggðarlaga og núverandi kjördæma komi fram sérstaklega og séu höfð til hliðsjónar við lagasetninguna. Störf þm. í þágu kjördæmisins ásamt hæfni hans sem löggjafa og stjórnmálamanns að öðru leyti verða síðan metin að verðleikum í kosningum. Þeim mun meiri umfangs sem ríkisreksturinn verður, þeim mun meira þurfa borgarar landsins, sveitarfélög og kjördæmi, að leita til opinberra aðila í Reykjavík með málefni sín. Reynslan hefur sýnt, að sífellt stefnir meira og meira í þessa áttina. Ríkið er alltaf að yfirtaka meiri þjónustustörf á ýmsum sviðum. Ekki sízt af þessu hefur þýðing þm. fyrir kjördæmin farið vaxandi, þar sem hann er mjög oft tengiliðurinn milli fólksins annars vegar og opinberra stofnana hins vegar. Það er því þungt áfall fyrir kjördæmin að missa sérstaka þingfulltrúa sína.

Því er að vísu haldið fram af þeim, sem standa fyrir kjördæmabreyt., að þm. hinna stóru kjördæma komi í stað þeirra, sem áður voru. Á þessu tvennu er þó sá reginmunur, að þm. stóru kjördæmanna geta skotið sér á bak við hver annan og ábyrgðin dreifist. Eins og nú er, ber þm. fulla ábyrgð á frammistöðu sinni og getur við engan sakazt.

Með hinni nýju kjördæmaskipan rofnar hið nána og þýðingarmikla samband milli fólksins í kjördæminu og þm. Mun það sannast, hvílíka þýðingu þetta hefur fyrir framfarir og uppbyggingu einstakra byggðarlaga. Hv. 1. þm. Reykv. orðaði þetta svo í ræðu, sem birt var í Mbl. 24. jan. 1953 og fjallar m.a. um skiptingu Reykjavíkur niður í eintóm einmenningskjördæmi, — hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta yrði aukin vinna og umstang fyrir þingmennina, en ég þori að fullyrða að, að því yrði mikill ávinningur fyrir kjósendur.“

Ef maður gagnályktar frá þessari fullyrðingu hv. þm., verður útkoman sú, að með því að leggja niður kjördæmin og steypa þeim saman verði að vísu minna umstang fyrir þm., en mikið tjón af fyrir kjósendur. Þetta kemur þó enn hastarlegar niður á landsbyggðinni, en nokkru sinni hér í Reykjavík.

Það væri fráleitt að telja breyt. á stjórnarskránni lausn á öllum vanda. Hins vegar skiptir það þjóðina mjög miklu, hvernig til tekst um framtíðarstjórnskipan ríkisins. Svo gæti farið, að hér ylti á fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Gæfa Íslands og framtíð er því að nokkru leyti í veði í þessu sambandi. Má hiklaust telja stjórnarlögin mikilvægasta málefni þjóðarinnar. Það er því mjög áríðandi, að allar breyt. á þeim séu vandlega undirbúnar og eigi rætur hjá fólkinu í landinu. Stjórnarskráin er eins konar undirstaða þjóðfélagsins. Sé henni breytt, þarf helzt að vera fullt samræmi milli hinna nýju, breyttu ákvæða og þeirra, sem fyrir eru. Nú hefur það gerzt, að þríflokkarnir hafa tekið eitt atriði úr stjórnarskránni fyrir og breytt því með þeim hætti, að raskað er samræminu í stjórnskipuninni sjálfri. Heildir, þ.e.a.s. núverandi kjördæmi, halda sér að sumu leyti, en ekki öðru. Þeim er steypt saman í stór kjördæmi, þótt ekkert annað tengi þau saman, allra sízt staðhættir, sbr. t.d. Öræfin og Skeggjastaðahrepp í Bakkafirði, svo að dæmi sé tekið. En á milli þessara tveggja sveitarfélaga er óravegur, eins og kunnugt er.

Á þessi kjördæmabreyting upptök hjá þjóðinni sjálfri? Hefur fólkið haft frumkvæði í málinu? Hafa komið fram kröfur eða bænaskrár til hv. Alþ. um breyt. á kjördæmaskipuninni? Nei, því er ekki til að dreifa og fer fjarri. Stjórnmálaforingjarnir gerðu með sér samninga um málið og fengu flokka sina til að fylgja málinu í kosningunum. Málið hefur frá öndverðu verið sett á klakk flokkanna, reyrt flokksböndum á alla vegu.

Það var mjög áberandi í kosningunum, hvernig þríflokkarnir höguðu áróðri sínum. Þeir héldu því fram fyrir kosningar, að í raun og veru væri afgreiðslu málsins lokið, formsatriðin aðeins eftir, framgangur þess tryggður, þar sem þrír stjórnmálaflokkar hefðu heitið því fylgi, þess vegna væri raunverulega ekki kosið um þetta mál sérstaklega, heldur önnur þjóðmál. Sjálfstfl. hélt því t.d. ákaft fram, að kosningarnar snerust um afstöðu manna til vinstri stjórnarinnar. Þegar kosningarnar voru um garð gengnar, var snúið við blaðinu. Þá var talið allt í einu, að kosið hefði verið um kjördæmamálið, allir þeir, sem greitt hefðu þríflokkunum atkv., hefðu verið hjartanlega sammála um kjördæmabreytinguna. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Margir játuðu það einslega, að þeir væru á móti þessu brölti, þótt þeir vildu ekki slita flokksböndin. Áróður flokkanna um, að kosið væri um önnur mál, hefur án efa haft mikil áhrif. Ég leyfi mér að vísa til ummæla t.d. hv. þm. N-Þ. hér áður við þessa umr., þar sem hann las úr blöðum kjördæmabyltingarmanna ýmis skrif á þessum nótum, sem ég var nú að lýsa. Til þess að tryggt væri, að þjóðarviljinn kæmi fram í þessu einu máli, þyrfti að efna til þjóðaratkvgr. um það sérstaklega, þar sem menn annaðhvort samþykktu eða synjuðu breytingunni. Slík þjóðaratkvgr. þyrfti að fara fram sem fyrst og fresta frekari aðgerðum í málinu hér á hæstv. Alþ. á meðan. Þegar úrslit slíkrar atkvgr. lægju fyrir, þyrfti ekki lengur að deila um þjóðarviljann í kjördæmamálinu.

Þótt að vísu séu ákveðin ákvæði í stjórnarskránni sjálfri um það, hvernig henni skuli breyta, þá er þó þess að gæta, að sú breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, er mjög róttæk og byltingarkennd. Það er vegið að hyrningarsteinum þjóðskipulagsins með frv. Það er verið að svipta byggðarlögin hinum þýðingarmestu réttindum, sérstökum fulltrúum til setu á Alþ. Enginn vafi er á því, að þessar ráðstafanir munu hafa hinar örlagaríkustu afleiðingar fyrir uppbyggingu og framfarir byggðarlaganna um land allt. Hér er brotið blað í stjórnskipuninni, ný ákvæði sett, sem raska undirstöðu þjóðfélagsins og hafa munu ófyrirséðar afleiðingar síðar meir.

Ekkert kjördæmi hefur verið lagt niður í landinu síðan nokkru fyrir aldamót. Það er því ekkert eðlilegra, en að svo þýðingarmiklu máli sé sérstaklega skotið til þjóðarinnar. Með þjóðaratkvgr., málskoti til þjóðarinnar, mundi fást skýr og ótvíræður þjóðarvilji í þessu eina máli. Þá komast kjördæmabyltingarmenn ekki hjá því að ræða málið. Þá yrði það eina málið, sem væri á dagskrá. Á samkomum og fundum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna mundi það verða rætt og þau rök á báðar hliðar, sem menn bæru fram, metin og vegin af þjóðinni. En það er engu líkara, en þeir vilji forðast rökræður um málið, sbr. sókn þeirra til þessara umr. hér á hæstv. Alþ., sbr. og það, að þeir vildu drepa málinu á dreif í kosningunum, í blöðunum, á kosningafundunum, framboðsfundunum o.s.frv. Séu fylgismenn kjördæmabyltingarinnar sannfærðir um þjóðarviljann, að þjóðarviljinn sé þeirra megin í þessu máli, þá er ekkert hægara, en að fá úr því skorið með því að skjóta málinu til þjóðarinnar með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vék að því áður, að með upptöku stórra kjördæma, eins og frv. gerir ráð fyrir, mundi aðhald þm. minnka að því leyti að vinna að hagsmunamálum einstakra byggðarlaga. Mundi þetta með tímanum verða til stórtjóns fyrir núverandi kjördæmi. Jafnframt því, sem þríflokkarnir ætla að leggja niður öll núverandi kjördæmi nema Reykjavík, hefur Framsfl. lagt ofurkapp á að vernda rétt hinna sjálfstæðu, sögulega þróuðu kjördæma til þess að hafa sérstaka fulltrúa á Alþ. Hefur flokkurinn kallað þessa stefnu sína byggðastefnuna í kjördæmamálinu, en hún er andstæð hinni stefnunni, stefnu þríflokkanna um upptöku stórra kjördæma. Frv. miðast fyrst og fremst við hagsmuni og rétt stjórnmálaflokkanna, miðar að því að tryggja það, að stjórnmálaflokkarnir hafi nákvæmlega jafnmarga kjósendur á bak við hvern þm. Það er viðurkennt, a.m.k. af sumum þeim, sem standa að kjördæmabreyt., að sanngjarnt sé og réttlátt, að Reykjavík hafi hlutfallslega færri þm. miðað við kjósendatölu, en aðrir landshlutar. Mér finnst þetta ekkert umtalsmál. Þegar litið er á rétt fólksins í landinu, sem því er fenginn með ákvæðum stjórnarskrárinnar, má ekki einblína á aðeins eitt ákvæði hennar. Þar kemur margt fleira til. Tökum t.d. 13. gr. stjórnarskrárinnar, sem ákveður, að ríkisstj, skuli hafa aðsetur í Reykjavík. Allir vita og viðurkenna, að þetta þýðir ómetanleg réttindi og aðstöðumun fyrir Reykvíkinga umfram flestalla aðra landsmenn. Þannig mætti nefna mörg fleiri dæmi í stjórnarskránni og öðrum landslögum. Þennan aðstöðumun er hægt að jafna a.m.k. að nokkru leyti með því að veita landsmönnum utan Reykjavíkur rétt til hlutfallslega fleiri þingmanna. Það verður þó jafnan matsatriði, hversu meta skal sérréttindi Reykjavíkur sem höfuðborgar. En þeir, sem viðurkenna þetta sjónarmið á annað borð, geta ekki, eftir að landsmenn utan Reykjavíkur hafa skipað sér meira í einn stjórnmálaflokk en annan, ráðizt að honum og kallað hann sérréttindaflokk. Það er ekki hægt að nefna sama hlutinn bæði réttlæti og sérréttindi. Ef þetta réttlætissjónarmið er viðurkennt, er beinlínis rangt að þurrka það út með öðrum hætti, t.d. með uppbótarþingsætum í eins stórum stíl og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er að vísu rétt, að hagsmunir fólksins úti um landsbyggðina rekast á hagsmuni flokkanna af þessum ástæðum, en það er stefna okkar framsóknarmanna að tryggja raunverulegt réttlæti handa öllum landsbúum, þótt það kunni að rekast á flokkssjónarmið þau, sem fram koma í þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., að ég ekki tali um þá stefnu að gera landið allt að einu kjördæmi, en þríflokkarnir eru mjög grunaðir um að stefna að því marki. Sumir þeirra hafa beinlínis lýst því yfir. Þessar tvær stefnur, byggðastefnan annars vegar og flokkssjónarmið frv. hins vegar, eru algerar andstæður. Hvort er meira virði að tryggja hagsmuni einstakra stjórnmálaflokka, þannig að það gangi á rétt fólksins úti um landsbyggðina, eða halda áfram uppbyggingu þjóðfélagsins á breiðum grundvelli, eins og gert hefur verið nú seinustu árin? Við framsóknarmenn teljum byggðastefnuna horfa til meiri heilla fyrir þjóðina í heild og þess vegna á að styðja hana. Byggðastefnan spornar gegn samdrætti ríkisvaldsins á einum stað, í höfuðborginni og grenndinni. Að sama skapi og samdráttur opinbers valds hefur átt sér stað í Reykjavík, hafa önnur byggðarlög landsins orðið út undan í fjárhagslegu, atvinnulegu og menningarlegu tilliti. Má öllum vera ljóst, hvílíkur háski er fólginn í þessari þróun. Þróunina frá þjóðríki til borgríkis verður að stöðva, en það verður ekki gert nema með virkum og samræmdum aðgerðum. Á allra seinustu árum hefur slegið á þessa þróun. Allir þeir, sem hafa trú á uppbyggingu íslenzks þjóðfélags á breiðum grundvelli, verða því að taka höndum saman um slíka uppbyggingu og koma í veg fyrir, að aftur falli í sama farveg öfugþróunarinnar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að auknum samdrætti valdsins í Reykjavík og nágrenni, bæði með mikilli fjölgun þingmanna og með auknum flokksáhrifum, sem kjördæmabreytingin mun hafa í för með sér. Menn hefðu getað haldið, að sumum flokkanna, sem að breyt. standa, væri ljós sá háski, sem hér er á ferðinni og þess vegna haft tilburði til þess að auka völd hinna nýju kjördæma og hamla þannig gegn hinum sívaxandi samdrætti ríkisvaldsins á einum stað. En það örlar ekki á slíku, engu virðist mega breyta nema hinum þrengstu ákvæðum kjördæmaskipunarinnar. Í þingræðisstjórnarskrá eru ákvæðin um kjördæmaskipunina hin þýðingarmestu. Segja má, að kjördæmaskipunin sé sá grundvöllur, sem pólitískt líf í landinu byggist að miklu leyti á, svo sem flokkafjöldi og margt fleira. Það er því mjög þýðingarmikið, að kjördæmaskipunin sé traust og líkleg til að stuðla að góðu og heilbrigðu stjórnarfari.

Það mætti segja, að þrjár meginleiðir væru til um kjördæmaskipunina. Fyrir það fyrsta að skipta landinu í nokkur stór kjördæmi með hlutfallskosningum, eins og hér er lagt til. Í annan stað að skipta landinu öllu í einmenningskjördæmi með óhlutbundnum kosningum. Og í þriðja lagi að gera landið að einu kjördæmi með hlutfallskosningum. Það liggur í augum uppi, að ef landið væri allt eitt kjördæmi, myndaðist gróðrarstía fyrir nýja flokka. Mundi það auka stórum á upplausn í þjóðmálum og skapa hættulegan glundroða. Auk þess mundi slíkt að óbreyttum öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar leiða til mikils misræmis og ranglætis til óhagræðis fyrir dreifbýlið, eins og ég gat um áður.

En hvaða áhrif er slík skipan stórra kjördæma með hlutfallskosningum, eins og frv. leggur til, líkleg til að hafa á stjórnarfarið í landinu almennt? Allar líkur benda til, að stór kjördæmi muni ýta undir fjölgun stjórnmálaflokka. Reynsla annarra þjóða af hlutfallskosningum kemur heim og saman við þessa skoðun. Ef slíkt skipulag hefði verið ríkjandi hér á landi s.l. 10 ár, er ekki ósennilegt, að stjórnmálaflokkarnir væru nú 6, bæði Lýðveldisflokkurinn og Þjóðvarnarflokkurinn hefðu fest rætur.

Það er sanngjarnt, að þeir, sem gagnrýna upptöku stórra kjördæma og niðurlagningu héraðakjördæmanna, geri grein fyrir því skipulagi, sem þeir sjálfir telja heppilegra. Miðlunartill. Framsfl. í þessu máli er öllum kunn. Hún gengur fyrst og fremst út á það að vernda héraðakjördæmin samtímis viðurkenningu á nauðsyn þess að bæta þingmönnum við í mesta þéttbýlinu vegna fólksflutninganna þangað á seinustu árum. Hins vegar telur Framsfl., að einmenningskjördæmi sem aðalregla, séu öruggastur grundvöllur að traustu stjórnarfari. Einn höfuðkostur einmenningskjördæmanna er, að þau tryggja tilveru héraðakjördæmanna. Einmenningskjördæmi efla sameiningu þeirra, sem hafa skyld sjónarmið í þjóðmálum. Þeir neyðast til að þoka sér saman í fylkingar. Annað verður augljóslega vatn á myllu andstæðinganna. Slík skipan verkar því gagnstætt hlutfallskosningum að því leyti, að hún stuðlar að tiltölulega fáum stjórnmálaflokkum. En slík þróun þjóðmálanna er einmitt heppileg, því að hún miðar að því að skapa tvær meginfylkingar í þjóðfélaginu, tveggja flokka kerfi, fylkingar, sem skiptast á um stjórn landsins. Við slíkar aðstæður getur stjórnarflokkurinn engum kennt um nema sjálfum sér, ef illa farnast og stjórnarandstaðan fær tækifæri til að sýna úrræði sin. Slík skipan kjördæma skapar meiri ábyrgð og traustara stjórnarfar. En á því er reginmunur, ef þróunin er í þá áttina eða til hins gagnstæða.

Forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson, sagði í þingræðu árið 1933, með leyfi forseta: „Einmenningskjördæmin eru ein höfuðtrygging þess, að jafnan séu valdir til þingstarfa menn, sem hafa aflað sér trausts og þekkingar á því, sem starfi þeirra viðkemur.“

Ég hef áður vitnað til ræðu hv. 1. þm. Reykv. um kosti einmenningskjördæma. Það mætti vitna til fleiri ummæla manna, sem nú berjast fyrir hlutfallskosningum í stórum kjördæmum.

Ég sagði áður, að ég væri andvígur frv. því til laga um breyt. á stjórnarskránni, sem hér liggur fyrir hv. þd., þegar af þeirri ástæðu, að í stað þessarar breyt. ætti fram að fara hið fyrsta heildarendurskoðun á stjórnarskránni, eins og allir þingflokkar hafa lofað þjóðinni fyrir meira, en heilum áratug. Í öðru lagi legg ég áherzlu á, að hin róttæka breyting á kjördæmaskipuninni, niðurlagning allra núverandi kjördæma landsins nema Reykjavíkur, verði svo fljótt sem kostur er á borin undir þjóðaratkvæði, en frekari aðgerðum frestað á meðan. Þá mundi þjóðarviljinn ótvírætt liggja fyrir í þessu máli. Hvenær sem að því kemur að endurskoða stjórnarskrána, er það áreiðanlega þjóðinni hollast, að sem víðtækast samkomulag geti orðið um öll grundvallaratriði stjórnskipunarlaganna.