14.08.1959
Efri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

4. mál, almannatryggingar

Finnbogi R. Valdimarsson:

Ég hef rétt til athugasemdar og hún skal vera stutt. Það er út af síðustu orðum hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. sagði, að afstaða mín og ummæli um þetta mál sýndu, að ég hagaði málflutningi mínum og afstöðu til mála eingöngu í áróðursskyni. Ég kannast ekki við, að ég hafi þann tíma, sem ég hef átt sæti hér á hv. Alþ., hagað afstöðu minni til mála og málflutningi eingöngu í áróðursskyni. Ég hygg, að hæstv. forsrh., ef hann vildi kynna sér mína þingsögu, gæti ekki sannað það, að ég hefði fremur öðrum þm. flutt mál eingöngu til þess að láta þau sjást. Ég hef lagt meira upp úr hinu, ef ég hef flutt till., að reyna að koma þeim fram og þá oft orðið að sætta mig við að ná ekki fram fullri lagfæringu mála, ef eitthvað hefur áunnizt við mínar till. En ég held, að ef væri farið út í það, þá mætti segja, að allir flokkar notuðu öll mál í áróðursskyni. Og ég held, að Alþfl. hafi fullkomlega notað sér tryggingamál í áróðursskyni og það meira en efni standa til.

En helzt eru það þau mál, sem allir flokkar og allir þm. standa að, sem ekki er hægt að nota í áróðursskyni fyrir einn flokk. Og nú stendur svo á um þetta mál, að sjálfur hæstv. félmrh. fullyrðir, að allir hv. þm. séu með þessu máli og allir hv. þdm., sem hér hafa talað, hafa lýst sig fylgjandi þessu máli, þ. á m. einnig þeir þm. Sjálfstfl., sem hér hafa tekið til máls. Ég held, að það væri því ráð fyrir hæstv. forsrh. og hans flokk, ef hann vildi koma í veg fyrir, að þetta mál væri notað í áróðursskyni, að beita sér fyrir því, að það nái fram að ganga, þannig að allir hv. þdm. standi að því. Ég veit, að þetta er alveg á valdi hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj.

Flokkur hæstv. ríkisstj. hefur hér forsetavaldið. Hér þarf ekki annað til, til þess að koma þessu máli fram, en að taka það fyrir, afgreiða það til n., taka það fljótt fyrir þar og láta það til þd. aftur, því að málið hefur þegar fengið meðferð í n. í Nd. Þar hefur verið óskað eftir upplýsingum um það, þær hafa ekki fengizt, en málið hefur verið afgreitt í gegnum 3 umr. í hv. Nd. ágreiningslaust. Það er þess vegna, sem ég tel, að þessi hv. þd. gefi líka afgreitt það, þegar það er nú komið hér fyrir, þó að nokkuð sé liðið á þingtímann. Ég get ekki séð, að með þeirri afstöðu minni hafi ég gefið tilefni til þess, að hæstv. forsrh. telji það sérstakan áróður. Það væri eðlilegt og sjálfsagt um mál, sem ágreiningur finnst ekki um hér í hv. d., að það verði afgreitt. Flokkur hæstv. forsrh. hefur völdin. Hans er mátturinn, og hans er ríkið. En við eigum eftir að sjá, hvort hans verður dýrðin í þessu máli.