29.07.1959
Neðri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér þykir nokkuð einkennileg framkoma flm. og stuðningsmanna þessa frv., sem hér liggur fyrir, við meðferð þess hér á hæstv. Alþ. Frv. er borið fram sem stjórnarfrv. Hæstv. forsrh. lét ekki sjá sig í þingsalnum, meðan frsm. minni hl. stjskrn. flutti mikinn hluta ræðu sinnar hér á þingfundinum í dag. Hæstv. ráðh. kom þó um síðir og var hér skamma stund. Annar hæstv. ráðh. hefur litið hér inn í d. í dag, en horfið mjög fljótlega aftur. Hinir tveir hæstv. ráðh. hafa ekki sézt í þingsalnum.

Svipað er að segja um þingmenn hinna flokkanna, sem að stjórnarskrárbreyt. standa. Fæstir þeirra hafa sézt í sætum sínum við umr. um frv. hér í hv. d. Það eru víst þrír af hv. þm. Sjálfstfl. í sætum sínum hér í hv. d. nú — eða eru þeir ekki nema tveir? Þeir eru víst tveir, og sá þriðji á gægjum í dyrunum. Sá þingflokkur á þó 13 stóla hér í d. Um Alþb. er það að segja, að síðari hluta dags í dag, meðan rætt var um málið, sást enginn þeirra manna hér í d. Einn skauzt þó inn seint á degi til að sækja skjalamöppu sína, en hafði enga viðdvöl.

Þannig er framkoma þessara manna í þingdeildinni við meðferð þessa máls, sem þeir nefna eitt þýðingarmesta mál, sem Alþ. hafi fjallað um og stórt réttlætismál og ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort hann telji það ekki dálítið hæpið að halda áfram meðferð málsins, þegar hv. þdm. haga sér á þennan hátt.

Í málinu liggja fyrir tvö álit frá hv. stjskrn. Meiri hl., en hann skipa fulltrúar þeirra þriggja flokka, sem að málinu standa, mælir með því, að frv. verði samþ. og meiri hl. segir í nál. sínu, að það hafi komið ótvírætt fram í alþingiskosningunum hinn 28. júlí s.l., að mikill meiri hluti kjósenda sé málinu fylgjandi. Ég tel, að það sé of mikið sagt í þessu nál. meiri hl. Ég tel, að það hafi ekki komið ótvírætt fram í þingkosningunum, að mikill meiri hluti kjósenda sé málinu fylgjandi, eins og þeir halda fram. Útkoman í kosningunum sýnir ekki þjóðarviljann í kjördæmamálinu. Frambjóðendur þeirra flokka, sem beita sér fyrir stjórnarskrárbreyt., vildu komast hjá umræðum um það mál á framboðsfundum fyrir kosningar. Þeir sniðgengu málið eftir mætti. Þeir töluðu aðallega um ýmislegt annað, reyndu að fá kjósendurna til að gleyma því stóra máli, en haga atkvgr. eftir afstöðu til annarra mála. Og ég vil spyrja: Hver hefði niðurstaðan orðið, ef þjóðinni hefði gefizt kostur á að greiða atkv. um málið sérstaklega? Þeirri spurningu er ekki hægt að svara á þessari stundu, en ég tel engan efa á því, að við slíka atkvgr. um málið hefðu komið fram aðrar atkvæðatölur, en í alþingiskosningunum.

En þó að atkvæðatölur stjórnmálaflokkanna í þingkosningunum í næstliðnum mánuði sýni alls ekki rétta mynd af vilja þjóðarinnar í þessu máli, þá getur verið fróðlegt að athuga niðurstöður kosninganna. Í Reykjavík mun Sjálfstfl. hafa fengið um 51% af gildum atkv., sem þar voru greidd. Hann fékk út á þetta 5 þm. af 8. Aðrir flokkar, sem fengu samtals 49% gildra atkv., fengu 3 þm. Þannig getur útkoman stundum orðið, þegar hlutfallskosningafyrirkomulagið er notað. Í kjördæmunum utan Reykjavíkur, sem nú á að leggja niður samkv. þessu frv., voru kosnir 33 þm. Þeir skiptust milli tveggja flokka þannig, að Framsfl. fékk 18 kjörna, en Sjálfstfl. 15. Af þessum 18 þm., sem Framsfl. fékk kosna í kjördæmum utan Reykjavíkur, voru 13, sem höfðu meira en helming gildra atkv. í kjördæmum sínum á bak við sig. Einn þeirra fékk 72% gildra atkv. í sínu kjördæmi, nokkrir milli 60 og 70% af atkv. og aðrir milli 50 og 60%. Hinir 5 þm. flokksins, sem náðu kosningu í kjördæmunum utan Reykjavíkur, fengu frá 46–49% gildra atkv. í sínum kjördæmum. Ég tel ákaflega sterkar líkur fyrir því, að í þeim kjördæmum sé meiri hluti kjósendanna á móti þeirri breyt. á stjórnarskránni, sem hér liggur fyrir, því að það er alkunnugt og hefur verið tekið fram hér í þessum umr. af öðrum á undan mér, að það voru margir menn, sem fylgja þeim flokkum, sem mæla með þessu máli, flytja það og mæla með því, margir kjósendur þeirra, sem enn fylgdu þeim í kosningunum, þó að þeir væru algerlega á móti þessu máli.

En hvað er þá að segja um þá 15 þm. Sjálfstfl., sem náðu kjöri í þessum kjördæmum utan Reykjavíkur? Hvað er að segja um þá og þeirra kjörfylgi? Aðeins einn af þessum 15 mönnum náði helmingi gildra atkv. í kjördæminu, þar sem hann bauð sig fram og var kosinn. Það er hv. þm. Vestm., sem á sæti í Ed. Svo glöggt stóð þó þetta, að atkvæðatala hans náði ekki 51% gildra atkv. í Vestmannaeyjum. Allir hinir, 14 að tölu, fengu minna en helming gildra atkv. í kjördæmunum, þar sem þeir buðu sig fram. Sá, sem hafði tiltölulega minnst fylgi, en náði þó kosningu, fékk ekki nema 30% gildra atkv. í kjördæminu, nokkrir milli 30 og 40% atkv. og hinir milli 40 og 50%, en aðeins þessi eini, sem ég nefndi, náði helmingi gildra atkvæða. Ekki er nú fylgi Sjálfstæðisflokksins í þeim kjördæmum, sem hann vill leggja niður, traustara en þetta.

Þessir minnihlutakjörnu þm. Sjálfstfl. hafa verið mjög hljóðir og hógværir hér á þingi nú, þegar um þetta stóra mál er fjallað, svo hljóðir, að enginn þeirra hefur enn gefið frá sér eitt orð í umr. um málið og mun þó senn lokið 2. umr. frv. hér í d. og þeir hafa verið mjög óstöðugir í sætum sínum, eins og ég gat um áðan. Þeir hafa enga tilraun gert til að sýna fram á þörf þjóðarinnar fyrir þessa breyt. Þeir hafa engin rök fært fyrir stuðningi sínum við frv. En vitanlega eru þessir hv. þm. löglega kjörnir fulltrúar, þó að aðeins minni hluti kjósenda í kjördæmum þeirra hafi viljað fela þeim umboð sitt. En þó að þeir séu með þessum hætti kjörnir til að taka hér ákvarðanir um mál, þá mættu þeir vel leita eftir vilja kjósendanna í þessu þýðingarmikla máli, áður en þeir greiða atkv. með því að svipta kjördæmi sín sjálfstæðri tilveru.

Hv. minni hl. stjskrn. hefur í nál. sínu á þskj. 10 borið fram till. til rökst. dagskrár í málinu. Þar er á það bent, að afstaða kjósenda til annarra mála, en þeirrar breyt. á kjördæmaskipunni, sem frv. fjallar um, hafi mjög miklu ráðið um viðhorf þeirra í síðustu alþingiskosningum og úrslit kosninganna veiti þar af leiðandi mjög ófullnægjandi upplýsingar um vilja manna í þessu stóra máli. Og þar er lagt til eða því beint til hæstv. ríkisstj., að hún láti fara fram í næsta mánuði í öllum kjördæmum hverju fyrir sig almenna, leynilega atkvgr. kjósenda, er svari með jái eða neii, hvort þeir vilja, að öll núverandi 27 kjördæmi utan Reykjavíkur skuli lögð niður, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, en í staðinn stofnuð 7 stór hlutfallskosningakjördæmi og það er till. minni hl., að aukaþinginu, sem nú situr, verði frestað og afgreiðslu frv., þar til úrslit þessarar atkvgr. eru kunn. Meiri hl. hv. stjskrn. er á móti þessu, að þessi aðferð verði viðhöfð. En hvers vegna? Hvers vegna má ekki leyfa landsmönnum að láta uppi vilja sinn í þessu stóra máli með almennri, leynilegri atkvgr.? Já, hvers vegna? Þó að það kosti frestun á málinu í um það bil mánuð að fá fram vilja landsmanna á ótvíræðan hátt með þessu móti, þá er engin ástæða til að hafna till. þess vegna. Ef stuðningsmenn stjórnarskrárbreyt. trúa á málstað sinn, þá ættu þeir að fallast á þessa till. um þjóðaratkvgr. Þetta ættu þeir að gera í stað þess að knýja frv. nú fram með ofurkappi og án þess að kunnugt sé um þjóðarviljann.