13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

12. mál, áburðarverksmiðja

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Vegna þess að mér er persónulega vel við hv. 3. þm. Reykv. (EOl) og vegna þess að ég átti nokkurn þátt í því, að 13. gr. var sett inn í lög áburðarverksmiðjunnar, þykir mér ákaflega leiðinlegt, hversu langan tíma 13. gr. hefur truflað sálarlíf hv. þm. Ég get vel skilið, að hann standi hér upp með nokkrum þrautum eftir að hafa haldið sömu ræðuna eða svipaða ræðu á mörgum þingum. En ef hv. þm. vildi nú stytta ræðuna um örlítið brot á hverju þingi, þá skyldi ég ekki telja eftir mér að hlusta á rökin, sem hann hefur fram að bera fyrir máli sínu, sem ég því miður get ekki verið fylgjandi að neinu leyti.

Hann gat þess í upphafi ræðu sinnar, að 13. gr. eða heimildin til þess að reka verksmiðjuna sem hlutafélag og þar með gefa einstaklingum tækifæri til þess að eiga hlut í verksmiðjunni, muni hafa verið til komin vegna kröfu frá amerískum auðmönnum um það, að einstaklingar mættu eiga í verksmiðjunni eða leggja fé til hennar. Ég get skýrt hv. þm. hreinskilnislega frá því og vona, að hann taki það trúanlegt, að þegar ég bar fram þessa till. í samráði við þáv. landbrh., þá var hún ekki borin fram að neinu leyti að kröfu eða fyrir þrýsting frá amerískum auðmönnum, heldur af þeirri sannfæringu, sem kom í ljós við umr. um málið, að fyrirtækið mundi betur rekið, ef einstaklingar ættu hlut að máli, en ef verksmiðjan væri eingöngu ríkisfyrirtæki.

Um það getur varla verið nokkur deila að ríkisverksmiðjan formlega muni vera eign hlutafélagsins. Mér skilst, að hv. flm. reisi sinn skilning á því, að í 13. gr. segir, að hún skuli þá rekin sem hlutafélag. Það má náttúrlega deila um þetta orðalag, hvort það á eingöngu að eiga við um reksturinn eða það, að verksmiðjan sé rekin sem hlutafélag og sé hlutafélag og þá að sjálfsögðu eign þeirra, sem hluti eiga, hvort sem það er ríkið eða einstaklingar.

Hann ræddi mikið um það, að komið hefði til mála á árunum 1950–53 að gefa heimild til þess að selja verksmiðjuna. Ég var þá í ríkisstj., og ég minnist ekki þess, að það hafi nokkurn tíma komið til mála, nokkurn tíma verið minnzt á að gera þær breytingar, að hægt væri að selja verksmiðjuna, t.d. af hvaða stjórn sem vildi slíkt vera láta, án þess að leita til þingsins með lagabreytingu. Ég álít, að ríkið eigi ekki að selja sinn hlut í verksmiðjunni, — ekki undir neinum kringumstæðum, — og ég álít, að ríkið eigi ekki að kaupa af einstaklingunum, sem eiga í verksmiðjunni. Það er mín skoðun.

Um þessa merkilegu frétt, er ræðumaður gat um, sem hann hafði þó ekki fengið staðfesta, um matið á bréfunum til stóreignaskatts, að bréfin hefðu verið metin sjöfalt, m.ö.o., að þarna væri búið að gefa hluthöfunum þegar 24 millj., þá vil ég segja, að þetta sjöfalda mat á hlutabréfunum er alveg út í hött og er hvorki fugl né fiskur, eins og hv. ræðumaður tók fram. Að sjálfsögðu á að meta bréfin eftir því, hvað þau gefa af sér. Bréf, sem aldrei gefur neinn arð, er ekki meira virði, en nafnverð bréfsins, ef bréfið er þá seljanlegt á nafnverði. Þetta sjöfalda mat er því ekki annað en óréttmæt tilraun til þess að skattleggja þessa hluthafa. Þessir hluthafar hafa víst aldrei, eins og hv. ræðumaður tók fram, fengið eyrisvirði í arð af bréfunum og ég skil ekki, að menn þurfi að öfunda þá af því að hafa lagt þarna inn 4 millj., en aldrei fengið eyrisvirði í vexti af fénu.

Ég held, að það sé almennt álitið, að einkafyrirtæki séu betur rekin, en ríkisfyrirtæki. En þó ber nú svo jafnan við, að ríkisfyrirtæki lifa ágætu lífi, þótt þau séu illa rekin. En af hverju er það? Það er vegna þess, að þau lifa á einkaaðstöðu eða einokunaraðstöðu sinni í þjóðfélaginu og geta skammtað sjálfum sér þá álagningu, sem þau taka af þegnunum fyrir þá þjónustu, er þau veita.

Ef áburðarverksmiðju er illa stjórnað, þá hlýtur það að koma fram í hækkuðu verði til bændanna, sem áburðinn nota. En af því leiðir svo, að almenningur verður að súpa seyðið af þeirri hækkun í hækkuðu afurðaverði. Á þann hátt lendir óstjórn fyrirtækisins á almenningi með hækkuðu verði á þeim nauðsynjum, sem landbúnaðurinn framleiðir. Ég held, að það sé ekki annað vitað, en þessum fyrirtækjum hafi verið vel stjórnað og sé vel stjórnað. Ég hef ekki heyrt minnzt á annað, en ágætt samkomulag væri milli ríkisins og hinna hluthafanna. Tel ég það vel farið, og ég hygg, að einmitt sá hluti þjóðarinnar, sem kaupir framleiðslu verksmiðjunnar, beiti miklu minni tortryggni gagnvart því verði, sem hún setur á framleiðslu sína, einmitt vegna þess, hvernig stjórnin er skipuð og hvernig félagið eða verksmiðjan er skipuð. Það vill brenna við, að almenningur líti með talsverðri tortryggni á það verð, sem opinber fyrirtæki setja á sina þjónustu.

Hv. þm. leggur til, að 13. gr. sé felld niður. Það er út af fyrir sig. En ég get ekki séð, þó að 13. gr. væri felld niður á þann hátt, sem hann vill vera láta, að þar með sé hægt að taka hluti þeirra manna, sem eiga í félaginu. Það er að sjálfsögðu ekki hægt, því að þeir eiga þessa hluti með fullum rétti og mikið vafamál, hvort þingið gæti sett lög um að skylda þá til að selja. Ég er ekki trúaður á, að þingið fengist til þess að gera slíka ráðstöfun. Þetta frv. getur því ekki breytt neinu, ef hluthafarnir vilja ekki selja.

Frv. heimilar ríkisstj, að kaupa fyrir nafnverð plús 6%. Eru það 6% á ári, frá því að félagið var stofnað, eða eru það 6% í eitt skipti fyrir öll? Mér skildist hv. flm. minnast á, að það ætti að borga hlutaféð með 6%, en þá ætti það að vera fyrir allan þann tíma, sem mennirnir hafa átt hlutina og engan arð fengið af þeim. En svo kemur það, að ef þeir skyldu nú ekki vilja selja fyrir þetta verð, þá á ríkisstj. að vera heimilt að borga þeim hærra verð. Hvað má ríkisstj. fara hátt? Eða eiga þeir menn, sem á að kjósa í n. af þingflokkunum, að segja til um, hvað megi fara hátt í að borga fyrir hlutabréfin? En ef hluthafarnir skyldu nú ekki vilja selja, þá virðist vera unnið fyrir gíg að vera að samþ. þetta frv.

Aðalatriðið, sem fyrir hv. flm. vakir, er það, að einstaklingarnir, sem í félaginu eru, geti ekki undir neinum kringumstæðum hagnazt á því að hafa lagt peninga í fyrirtækið. En ég vil nú spyrja hv. þm.: Hvaða hætta er á því, að einstaklingarnir geti hagnazt á þessu? Ég get ekki séð, að nokkur leið sé fyrir þá að hagnast á þessu, nema Alþ. vilji breyta lögunum. Meðan lögin ákveða, að þeir skuli ekki fá nema 6% í arð, þá er hlutaféð ekki meira virði, meðan svo stendur. Ef svo stendur um allan aldur, að aldrei verði borgað nema 6%, þá er ekki hlutaféð, sem lagt er í verksmiðjuna, meira virði en nafnverð + 6% vextir á ári. Ég get ekki betur séð, en það þurfi samþykki þingsins til þess að breyta þessu. En meðan það er ekki gert, hefur ríkið eða ríkisstj. í hendi sér allt ráð verksmiðjunnar. Ríkið hefur 60% af hlutafénu og það hefur undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaganna, sem takmarka atkvæðisrétt, það er numið burt. Ríkið getur ráðið verksmiðjunni eins og það vill og ríkið getur ráðið því — eða réttara sagt Alþ. getur ráðið því, að ekki fáist meira fyrir bréfin, en þessi arðgreiðsla, 6%, gefur til kynna, ef engar breytingar eru gerðar frá því, sem nú er. Ég tel fyrir mitt leyti, að ríkið eigi alls ekki að selja sin bréf, eigi ekki að hafa leyfi til þess. Ég get ekki heldur betur séð en það sé með öllu óheimilt að selja bréf ríkisins nema með breyt. á lögunum. Þegar málið er athugað út frá þessum forsendum, get ég ekki betur séð, en þetta frv. hv. flm., sem hann hefur nú flutt í nokkur ár á þinginu, sé gersamlega óþarft.