13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

12. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. (RÓ) er þessu máli mjög kunnugur og mér skildist eiginlega á honum í ræðu hans áðan, að hann staðfesti þá upplýsingu mína, að þessi hlutabréf hefðu verið metin á sjöföldu verði. Var það ekki rétt? (Grípið fram í.) Ég hélt kannske, að hv. þm. vissi betur um þetta en ég. En við erum sammála um, — út frá ólíkum forsendum, — að ef svo væri, væri þetta rangt mat.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á, að það mundi ekki vera rétt hjá mér, að amerískir auðmenn hefðu komið því neitt nærri, að reynt væri að gera áburðarverksmiðjuna. að hlutafélagi einstaklinga. Jæja, ef maður leggur saman tvo og tvo um þetta, fer maður kannske að komast nokkuð nærri því, að þeir amerísku bankar, sem hafi átt að veita lán til þeirra fyrirtækja, sem þarna var verið að hugsa um, hafi unnið að því á bak við tjöldin að reyna að fá slíkt í gegn. Ég býst við, að það sé viðurkennt, meira að segja af hv. 2. þm. Reykv., að þegar átti að lána til sementsverksmiðjunnar, var það gert að skilyrði af hálfu viðkomandi amerískra banka, að hún væri ekki ríkisfyrirtæki, heldur hlutafélag. Og það má sú stjórn eiga, sem þá sat að völdum og var sú stjórn, sem ég annars deildi mjög mikið á, stjórn Sjálfstfl. og Framsfl., að hún stóð á móti því og hún lét aldrei undan því. Sementsverksmiðjan er eign ríkisins enn í dag og lögunum var aldrei breytt.

Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að sá grunur komi upp hjá manni, að voldugir aðilar vestan hafs, með góð sambönd hér heima, hafi litið það hýru auga, að reynt yrði að breyta áburðarverksmiðju ríkisins í hlutafélag einkaaðila. En á meðan hins vegar þeir ráðherrar, sem þá sátu að völdum, opna ekki munninn um þetta, getur maður engar sannanir fært.

Þá talaði hv. 2. þm. Reykv. um, að það mætti ekki selja hlutabréfin, sem ríkið ætti núna í áburðarverksmiðjunni og vildi halda því fram, að það hefði aldrei verið reynt að selja þau, vildi vefengja það, sem ég hélt fram viðvíkjandi því. Þegar frv. um Framkvæmdabanka Íslands var lagt fyrir Alþ., 72. löggjafarþing, 1952, 154. mál, af þáverandi ríkisstj. sem stjórnarfrv., stóð í 3. gr. þess frv.: „Ríkissjóður leggur Framkvæmdabankanum til stofnfé samtals að upphæð 101 milljón“ — og þar stendur svo undir í lið 2: „Eftirtalin hlutabréf: Í Áburðarverksmiðjunni h/f 6 millj. kr.“ Það stóð þá að vísu, að það mætti ekki selja þessi hlutabréf án samþykkis Alþ., en þetta átti að verða stofnhlutafé fyrir Framkvæmdabankann og á fundi fjhn. Ed., þegar ýmsar spurningar voru þar lagðar fyrir, segir svo í áliti minni hluta fjhn., með leyfi hæstv. forseta, þ.e. á þskj. 543, 16. jan. 1953:

„Ein af þeim spurningum, sem n. lagði fyrir dr. Benjamín Eiríksson, var sú, hvaða tilgang það hefði, að ríkissjóður legði Framkvæmdabankanum til sem stofnfé hlutabréf sín í Áburðarverksmiðjunni, Raftækjaverksmiðjunni og Eimskipafélagi Íslands. Dr. Benjamín svaraði, að hann hugsaði sér, að hlutabréf þessi yrðu seld síðar.“

Það var alveg greinilegt, að hverju var stefnt þá. Það var tillaga þáverandi ríkisstj., sem hv. 2. þm. Reykv. mun hafa verið í, ef ég man rétt, — var það ekki rétt hjá mér? — Að afhenda Framkvæmdabankanum sem stofnfé þessi hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni að upphæð 6 millj. kr. Það mun hafa verið hugmynd þess manns, sem var fyrirhugaður sem framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans, dr. Benjamíns Eiríkssonar, að þessi hlutabréf yrðu seld síðar meir. Það var að vísu settur þá sá varnagli, að ekki mætti selja þetta án leyfis Alþ., hvorki selja þau né veðsetja, en svona litu alþm. þá á þessa grein, að þetta var fellt út úr lögunum. Í meðferð Alþ. var þetta ákvæði um að afhenda Framkvæmdabankanum hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni sem stofnfé fellt út úr frv., í meðferðinni hér á Alþ., af því að mönnum þótti það ekki nægilega tryggt. Þannig hafa komið upp hugmyndir um að selja öll hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni einmitt hjá þeim mönnum, sem þá voru tengiliðurinn á milli þeirra amerísku banka, sem réðu efnahagspólitík Íslands og ríkisstj. Íslands þá, dr. Benjamíns Eiríkssonar, þess manns, sem var efnahagsmálaráðunautur þeirrar ríkisstj., þess manns, sem kom með gengislækkunarfrv, tilbúið hingað heim og lagði fyrir ríkisstj., hvernig það skyldi fara í gegn, þannig að einn ráðh. í þeirri stjórn sagði: Mér datt aldrei í hug, að þetta væri svona mikið. — Þannig er ekkert undarlegt, þó að maður sé dálítið tortrygginn.

Svo vildi nú hv. 2. þ m. Reykv. reyna að lægja alla mína tortryggni og sefa allan minn kvíða, svo að ég þyrfti ekki að halda fleiri ræður um þetta, það væri engin hætta, ríkið ætti þarna meiri hlutann, meira að segja hann sjálfur, 2. þm. Reykv., eins mikið og hann væri með einkaframtakinu, áliti, að ríkið ætti ekki að selja þessar 6 millj. kr. Það væri alveg óhætt að láta þetta vera svona í næstu hundrað ár, bara láta ríkið eiga þessar 6 millj. og hina þessar 4. En hvað lengi heldur hv. 2. þm. Reykv., að Sambandið og þessir milljónamæringar í Reykjavík, svo að ég noti sérstaklega orðalag Framsfl., — hvað lengi heldur hann, að þeir sætti sig við það að eiga í fyrirtæki eftir þeirri skoðun, sem hann lýsir hér og Framsóknarráðh. hafa lýst, 80 millj. kr. eftir skulum við segja 10–14 ár, ef áburðarverksmiðjan væri fyrirtæki, sem jafngilti 200 millj. kr., — hún mun vera nærri því nú, — og allt þetta væri skoðað sem eitt, þá væri 4 millj. kr. eignin, 40% af eigninni, orðin 80 millj. kr., — hvað lengi heldur hann, að þessir hluthafar, sem ættu þarna 80 millj. kr., sættu sig við það að fara ekki að sjá eitthvað af þessum peningum? Og skyldi nú vera, að það kynni ekki einhvern tíma á komandi áratugum að verða hér ríkisstj., — kannske meira að segja eftir næstu kosningar, því að nú kvað Framsfl. allt í einu stríða á móti fjárplógsstarfseminni, — sem dytti í hug, að það væri alveg upplagt sem eitt í sambandi við lausnina á efnahagsvandamálunum að selja þessi hlutabréf ríkisins? Á stefnuskrá Sjálfstfl. er það núna að selja þessi fyrirtæki ríkisins. Og jafnvel þó að hv. 2. þm. Reykv. kynni að slást á móti því, ef hann yrði á þingi þá, sem er ekki víst, þá gætu verið hér miklu ríkari menn en hann og miklu harðvítugri í að sölsa undir sig eignir ríkisins, og þá kynni að vera, að hvorugur okkar gæti ráðið neitt um, hvað verður viðvíkjandi þessu í framtíðinni. Þess vegna er eina ráðið, ef við erum sammála um, að ríkið eigi að eiga þetta, að nota einmitt tækifærið, nú í dag, til að semja við þessa hluthafa, sem þarna eru. Ég hef satt að segja þá hugmynd, svo að ég noti orðalag Framsfl., að milljónamæringarnir í Reykjavík væru kannske ekki verstir viðureignar um þetta. Þetta eru iðnrekendur, sem eiga þarna í þessu 2 millj., þeir mundu jafnvel vera til í samninga um það. Þá skil ég ekki í öðru, en þeir fengju Sambandið inn á það líka. Ég trúi því ekki, að Sambandið verði erfiðara viðureignar með að afhenda almenningi þetta fé, því að allt er nú Sambandið að gera fyrir almenning, svo að ég trúi nú ekki öðru, en það næðist tiltölulega gott samkomulag. Þess vegna gerði ég líka þessa till., sem um getur í 3. gr., að gefa ríkisstj. þessa heimild og láta þingflokkana koma þarna að. Ég hef svo mikla trú á þegnskap og hollustu þessara aðila, sem eiga nú þessi hlutabréf upp á 4 millj. og sjá ekki enn sem komið er eyri af þeim, en fá þau metin svona hátt, — ég hef þá trú á því, að við getum samið við þá í dag. En með hverju árinu, sem líður, held ég að verði erfiðara að semja og dýrara fyrir þjóðina.

Því miður er enginn ráðherra Alþfl. hér staddur nú. Ég hef átt tal við þann ráðh., sem þetta mál heyrir undir, hæstv. menntmrh., um, að ég mundi ræða þetta mál í dag og biðja hann um að athuga fyrir sitt leyti, ef svo mætti verða, að þetta mál kæmi seinna til 2. umr. hér, hvers konar yfirlýsingu Alþýðuflokksstjórnin væri reiðubúin til að gefa í þessu máli. Alþfl. hefur alltaf tekið þá afstöðu um þetta mál eins og ég, að þessi verksmiðja sé eign ríkisins. Forsrh. þeirrar stjórnar, sem setti þessi lög, Stefán Jóh. Stefánsson, hefur sjálfur lýst því yfir. Núverandi forseti Íslands hefur sem fulltrúi Alþfl. í fjhn. tekið sömu afstöðu og ég, að 13. gr. merkti eingöngu, að þetta væri rekið sem hlutafélag og þetta væri eign ríkisins, þannig að þarna stangast alveg skilningur hinna ýmsu ráðh. á lögunum, og það væri gott, a.m.k. ef það ættu eftir að verða málaferli út af þessu, að það kæmu einmitt yfirlýsingar frá hæstv. núv. ráðh., sem þjóðin og þjóðfélagið gætu notað sinum réttindum til framdráttar. En einmitt þessi hæstv. ráðh, hefur fjarvistarleyfi í dag og er forfallaður, getur ekki mætt.

Þá spurði hv. 2. þm. Reykv., hvað ég meinti með 6%, hvort ég meinti, að það ætti að borga þeim 6% í eitt skipti fyrir öll. Það er alveg greinilegt í mína frv. Það á að borga að viðbættum 6% ársvöxtum af upphæðinni frá því, að hlutabréfin voru keypt, og þeir eiga að fá sín 6%, eins og þeim er áskilið í lögunum að eigi að greiða þeim og enn fremur megi greiða þeim til viðbótar, ef þeir vilja ekki láta bréfin fyrir þetta verð. M.ö.o.: 3. gr. fjallar um það, að ríkisstj. fær heimild með aðstoð nefndar, sem þingflokkarnir setja, með neitunarvaldi til að borga þeim hærra verð, að semja um hærra verð, en nafnverðið plús 6% ársvexti fyrir þeirra hlutabréf.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að þessir hluthafar hefðu enga nauðsyn á að láta þessi bréf af hendi, þetta væri þeirra eign og verksmiðjan væri þeirra eign. Þar fer hv. 2. þm. Reykv. alveg með skakkt mál. Þessir hluthafar byggja þann rétt, sem þeir telja sig hafa, einvörðungu á þessari 13. gr. l. Um leið og þessi 13. gr. l. er felld úr gildi, standa þeir raunverulega uppi réttlausir. Þá er Áburðarverksmiðjan h/f ekki lengur til. Það er hlutafélag, sem rekur áburðarverksmiðjuna og það er fjarri því, að þeir eigi hana. Það er greinilega tekið fram í l., alveg ótvírætt, að hún sé sjálfseignarstofnun, m.ö.o. eign ríkisins, þannig að þessum hluthöfum mundi, ef þeir athuguðu sinn gang í dag, vafalaust þykja eðlilegt að semja við ríkið, reyna að fá eitthvað fyrir sinn snúð, en hætta sér ekki út í nein löng málaferli, út af þessu, því að valdið í þessum efnum er algerlega Alþingis. Þótt þessir hluthafar færu í mál, ef þessi till. mín er samþ., geta þeir átt langa lengi í því máli við ríkið, og það er ómögulegt að segja, hvernig það kynni að fara. Mitt álit er, að þeir mundu fara raunverulega illa út úr því. Þeir mundu að vísu reyna að hanga í yfirlýsingunni, sem ráðherrar Framsfl. hafa gefið. En við þær vitlausu yfirlýsingar mundu stangast réttari yfirlýsingar frá ráðherrum Alþfl. og frá núverandi forseta landsins og lögin sjálf, þannig að ég held, að það mundi alls ekki vera uppi sá gállinn á þessum hluthöfum að ætla að fara í margra ára málaferli við ríkið, ef búið væri að samþykkja að fella 13. gr. niður, því að þá bara svífa þeir í lausu lofti. Þá hafa þeir engan grundvöll til þess að ganga á, enga jörð undir fótum. Ég held þess vegna, að það rétta í þessu máli nú væri að samþykkja þetta frv., láta það ekki bíða. — Þetta hefur þegar beðið of lengi og því lengur sem það er látið bíða, því dýrara verður það því miður ríkinu.