13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

12. mál, áburðarverksmiðja

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. lengur, nema út af því, sem hv. flm. sagði nú síðast, að væri 13. gr. numin burt, þá væri þar með ekkert hlutafélag lengur, skildist mér.

Við erum að vísu hvorugur lögfræðingur, en ég held, að það sé mjög vafasöm skýring hjá honum, að með niðurfellingu 13. gr. muni hlutafélagið af sjálfu sér verða leyst upp. Ég held, að eitthvað þurfi fleira að koma til í því efni.

Hann vildi enn tortryggja eða efast um það, sem ég sagði um, að það hefði verið krafa frá amerískum auðmönnum, sem lá bak við brtt. við 13. gr. Ég get ekki gert annað, en sagt honum satt, eftir því sem ég veit bezt, hann ræður, hvort hann trúir því. Hitt er svo annað mál, að það er rétt, sem hann sagði og það er kannske á því, sem hann byggir staðhæfingu sína, að við þær umr., sem fóru fram um lán til sementsverksmiðjunnar, var sú ósk sett fram af hálfu væntanlegra lánveitenda, að einstaklingar ættu einhvern hlut að félaginu. En ástæðan fyrir því, að lánveitendur leggja fram slíka ósk, er auðvitað sú, að þeir treysta betur því félagi, sem er að einhverju leyti rekið af einstaklingum, en því félagi, sem að öllu leyti er rekið af ríkinu, og telja, að sá lántakandi, sem þannig er, sé betri lántakandi og traustari, en hinn, vegna þess að fyrirtækið verður betur rekið. Það er ástæðan, en ekki nein pólitísk brögð til þess að vinna á móti stefnu hv. 3. þm. Reykv., að enginn megi eiga neitt nema ríkið. Það er bara vantraustið á rekstri ríkisrekinna fyrirtækja.

Hann gat um það, að talað hefði verið um að afhenda hlutabréf verksmiðjunnar sem stofnfé til Framkvæmdabankans. Ég man ekki eftir því, eins og ég tók fram áðan, að það hafi nokkurn tíma komið til tals í ríkisstj. 1950–53, að slíkt yrði gert. Ég skal ekki segja, hvort einstakir ráðh. hafi talað um það sín á milli, að slíkt væri æskilegt, en ég man ekki eftir, að ég hafi nokkurn tíma orðið var við slíkar umr.

Hann sagði, að þetta væri eina ráðið til þess að gera það öruggt, að ríkið ætti verksmiðjuna. Ég hygg, að ekkert sé til, sem er öruggt í þessu efni. Lögum má breyta. Lög má einnig afnema. Einnig má samþ. ný lög. Og þó að eitt sé í lögum í dag, þá getur það orðið numið úr lögum eftir eitt eða tvö ár. Það er allt undir því komið, hvernig straumar tímans breytast. Ég sé þess vegna ekki, ef hann ætlar sér að tryggja eignarrétt ríkisins á áburðarverksmiðjunni, annað en hann neyðist til þess að koma því inn í stjórnarskrána, að áburðarverksmiðju ríkisins megi ekki selja.