27.07.1959
Efri deild: 4. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

5. mál, stjórnarskrárnefnd

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa á móti því, að það sé kosin sérstök stjórnarskrárnefnd núna í hv. d. og sá háttur mun áður hafa verið hafður á, að kosin hefur verið sérstök stjórnarskrárnefnd, þegar það mál hefur legið fyrir þinginu og í síðari deild áður, en málinu var þar formlega vísað til n. Ég ætlaði að rannsaka þetta nánar, en var truflaður við það, svo að það varð ekki af því. En það man ég, að árið, sem lýðveldið var stofnað, var sá háttur hafður á, að kosin var svo kölluð skilnaðarnefnd 12 manna og stillt svo til, að það voru 7 menn í henni úr Nd. og 5 menn úr Ed. og síðan voru sömu menn kosnir í stjskrn. d. En það var þessi lýðveldisnefnd, sem kosin var í Sþ., sem fjallaði aðallega um stjórnarskrármálið.

En út af því, sem hv. aðalflm. þessarar till. sagði og liggur í augum uppi, að aðaltilgangurinn með því að fara að kjósa nú stjskrn. er sá, að n. vinni saman, sú n., sem hér er lagt til að kjósa, vinni með stjskrn. hv. Nd., þá er það að athuga, að ég sé ekki, að þingsköp geri ráð fyrir, að slíkt geti orðið á formlegan hátt. Hér stendur í 16. gr. þingskapa:

„Til fastanefnda getur hvor þingdeild vísað þeim þingmálum, sem fyrir d. eru lögð og þörf þykir, að nefnd íhugi og skal þá að jafnaði vísa hverju máli til sömu fastanefndar í báðum deildum. Það er samvinnunefnd, ef samkynja fastanefndir beggja deilda vinna saman.“

Svo stendur hér í næstu málsgr.: „Heimilt er þó hvorri deild að kjósa lausanefndir til að íhuga sérstök mál. Hver lausanefnd kýs sér formann og ritara“. Hér er ekkert nefnt um það, að lausanefndir geti unnið saman.

Þetta er nú e.t.v. ekki svo þýðingarmikið atriði í sjálfu sér, því þó að n. vinni saman, gæti það ekki verið beinlínis á formlegan hátt, því að vitanlega yrði málinu vísað til stjskrn. hér, þegar stjórnarskrárfrv. kemur hingað. Og þýðingu hefur þetta ekki að því er stjórnarskrármálið snertir, því að því er marglýst yfir af forsvarsmönnum mikils meiri hluta Alþingis, að stjórnarskrárfrv. verði samþykkt óbreytt, og það mun ekki þurfa mikillar athugunar við í nefndum.

En öðru máli gegnir um kosningalögin aftur á móti. Ég hef lítillega farið yfir þau og mér sýnist frv. munu þurfa mjög mikillar athugunar við og vera vandasamt að fjalla um það og afgreiða það, svo að vel fari. Nú er það tilgangurinn með því að skipta þinginu í deildir, að fram fari tvisvar sinnum sérstök athugun hvers máls, það er tilgangurinn. Og með því að þessar nefndir vinni saman algerlega, virðist tilgangurinn vera sá, sem kemur í bága við deildaskipunina, að það fari fram ein athugun á málinu. Ég vildi því nú þegar undir umræðunni um þessa þáltill. láta það álit í ljós, að jafnvel þó að nú verði kosin stjórnarskrárnefnd, taki hún sjálfstæða afstöðu til kosningalagafrv. og bindi sig ekki við það endilega, hvað skeður í hv. stjskrn. Nd. Ég get vel hugsað það, að það veiti ekkert af, að kosningalagafrv. fari í gegnum tvo hreinsunarelda.