27.07.1959
Efri deild: 4. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

5. mál, stjórnarskrárnefnd

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í 16. gr. stjórnarskrárinnar segir svo:

„Heimilt er þó hvorri deild að kjósa lausanefndir til að íhuga einstök mál. Hver lausanefnd kýs sér formann og ritara.“

Undir þetta ákvæði falla þær stjórnarskrárnefndir, sem kosnar hafa verið, bæði nú í hv. Nd. og áður á þingi, þegar stjórnarskrárbreytingar hafa verið á döfinni.

Það er svo að segja um vinnubrögðin, að vitaskuld er málinu eða frv. formlega vísað til stjskrn. í hvorri deild um sig. Þegar frv. eða frumvörpin, sem hér er um að ræða, stjórnarskrárbreytingin og kosningalögin, koma til þessarar deildar, geng ég að sjálfsögðu út frá því, að þeim verði vísað til stjskrn. þessarar d. og hún afgreiði málin frá sér með venjulegum þinglegum hætti. Ástæðan til þess, að farið er fram á, að n. sé kosin nú þegar, er sú og það er réttilega fram tekið af hv. 1. þm. Eyf. (BSt), að það er fyrst og fremst kosningalagafrv., sem hér er um að ræða. Það þarf allmikillar athugunar við að sjálfsögðu og kosning stjskrn. nú yrði til þess að hraða meðferð málsins og þar með stytta þingtímann, ef n. beggja deilda gætu unnið saman að þessari athugun.

Það var gefið í skyn í ræðu hv. 1. þm. Eyf., að þetta væri ekki alls kostar í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og þingskapa um deildaskiptinguna. Þetta ætla ég að sé á nokkrum misskilningi byggt, því að það er löng þingvenja, að um ýmis meiri háttar mál vinna samkynja nefndir beggja deilda saman. Það er bæði til þess að hraða málum og jafnvel til þess að fá betri upplýsingar og fleiri sjónarmið komi til greina. Og sérstaklega vil ég minna á það, að hv. 1. þm. Eyf. var á síðasta kjörtímabili formaður fjhn. þessarar hv. d. og undir hans forustu kom það iðulega fyrir, að fjhn. beggja d. athuguðu í sameiningu ýmis hin meiri háttar mál, sérstaklega þó t.d. frv. 1958 um efnahagsráðstafanir, frv. ríkisstj. og oftar hefur það komið fyrir undir hans forustu, svo að þetta er ekkert nýmæli. En til að fyrirbyggja misskilning, þá vil ég sem sagt taka það skýrt fram, að vitanlega er til þess ætlazt, þó að n. þannig vinni saman að athugun mála, að frv. fái formlega afgreiðslu n. í þessari hv. deild.