05.08.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

2. mál, byggingarsjóður ríkisins

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alveg rétt, sem hv. flm. sagði hér áðan, að það væri mikil ástæða til þess að afla byggingarsjóði aukins fjár. Ég hygg, að það sé enginn ágreiningur um það. En þegar athuguð er sú till., sem hér liggur fyrir og athugaðar eru þær leiðir, sem þar er gert ráð fyrir, til þess að vinna að þessu marki, leyfi ég mér að efast um, að þar sé bent á leiðir, sem eru sérstaklega raunhæfar í þessu sambandi og ég tel, að það sé ekki ástæða til þess að gera minna úr þeim vandkvæðum, sem eru á því að leysa þetta mál, en rétt er. Ég tel, að það sé alveg rétt að gera sér grein fyrir þeim erfiðleikum, sem á því eru og að gera sér grein fyrir því, að í þessum till. er ekki bent, að mínu viti, á leiðir, sem hafa raunhæfa þýðingu, a.m.k. ekki án þess að gerðar séu víðtækar ráðstafanir að öðru leyti.

Ég vil þannig benda á, að í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er bent á leiðir til þess að efla byggingarsjóðinn í fimm liðum. Fyrsti liðurinn gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. sé falið að hlutast til um, að veðdeild Landsbankans gefi út vísitölutryggð bankavaxtabréf fyrir a.m.k. 20 millj. kr. Þetta lítur vel út á pappírnum, ef það þyrfti ekki að gera annað, en gefa út þessi bréf. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá, að það hefur verið prentað nú þegar og er til prentað nægilega mikið af þessum vísitölubréfum. Það eru engin vandræði í sambandi við útgáfuna út af fyrir sig, en vandkvæðin eru þau, að það er ekki hægt að selja þessi bréf á frjálsum markaði og ég hygg, að það sé ástæða til þess að gera sér grein fyrir því, að þessi till. hv. flm. er algerlega óraunhæf, meðan ástandið er þannig.

Þá er 2. tölul. þessarar till. á þá leið, að ríkisstj. hlutist til um, að bankarnir kaupi A-flokksbréf fyrir a.m.k. 20 millj. kr. á árinu 1959. Það má segja, að það sé svipað ástatt hvað snertir þennan tölulið, eins og fyrsta töluliðinn. Það er svipað ástatt að því leyti, að eins og málum er nú háttað, er hvort tveggja álíka óraunhæft. Það er fullkunnugt, að bankarnir hafa ekki talið sér fært að kaupa þessi bréf á þessu ári og raunar hefur stöðugt dregið úr kaupum bankanna á þessum bréfum, frá því að almenna veðlánakerfið var sett á stofn árið 1955. Fyrst eftir að almenna veðlánakerfið var sett á stofn, keyptu bankarnir slík bréf samkvæmt ákveðnu samkomulagi, þannig að það munaði verulega um það, en það var mögulegt vegna þess, að á þeim tíma var um að ræða mjög mikla aukningu á spariinnlánum í bönkunum. Á þeim tíma, sem liðið hefur síðan, hefur það verið að smábreytast, svo sem kunnugt er, þannig að það hefur raskazt að verulegu leyti sá grundvöllur, sem almenna veðlánakerfið var byggt á og tekjuöflun til byggingarsjóðsins. Ég hygg, að það hafi verið gert allt, sem hefur staðið í valdi ríkisstj., til þess að fá fjármagn hjá bönkunum í þessu skyni, en það hefur ekki tekizt og það hefur ekki verið hægt af þessum ástæðum. Ég sé ekki, að þessu verði breytt með einfaldri samþykkt þessarar þáltill.

Þá er 3. tölul. þessarar till. um það, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að atvinnuleysistryggingasjóður kaupi A-flokksbréf fyrir allt að 10 millj. kr. eða veiti samningsbundið lán til skemmri tíma. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, virðist mér, að þessi leið sé ekki raunhæf fyrir tekjuöflun til byggingarsjóðs nú á næstunni. Það er talað um í grg. með þessari till., að hún sé miðuð við það, að gerðar séu ráðstafanir fljótlega til þess að bæta úr fjárskortinum. Ég held, að það sé ekki hægt að gera það, þó að þessi till. yrði samþ., hvað snertir atvinnuleysistryggingasjóðinn, hreinlega vegna þess, að þar er ekki fyrir fé eins og stendur til ráðstöfunar í þessu skyni. Mér skilst, að því fjármagni, sem hefur verið til ráðstöfunar eða verður til ráðstöfunar á þessu ári, sé þegar ráðstafað í aðrar þarfir.

Þá er 4. tölul., sem er á þá leið, að ríkisstj. sé falið að beita sér fyrir því, að Tryggingastofnun ríkisins, Brunabótafélag Íslands og önnur tryggingafélög kaupi á þessu ári A-flokksbréf fyrir allt að 10 millj. kr. Um þetta atriði er það að segja, að Tryggingastofnunin hefur á undanförnum árum lagt fram í þessu skyni eða keypt þessi bankavaxtabréf, að svo miklu leyti sem fært hefur verið talið og það sama hefur átt sér stað á þessu ári. Ég hygg því, að hér sé ekki bent á sérlega raunhæfa leið í þessu máli, Þá er hér enn fremur talað um Brunabótafélag Íslands. Ég held, að það sé algerlega út í loftið að benda á þann aðila í þessu sambandi, þótt ekki væri nema af þeirri ástæðu, að samkv. lögum um Brunabótafélag Íslands er það tilgangur félagsins m.a. að lána fé til vatnsveitna, hitaveitna og sjóveitna, eftir því sem ástæður félagsins leyfa. Ég hygg, að Brunabótafélagið hafi ekki fullnægt eftirspurn eftir þeim lánum, sem tilgangur félagsins er að veita, hvað þá heldur að það hafi aðstöðu til þess að gera meira.

Þá er að lokum 5. liður þessarar till. Hann er á þá leið, að ríkisstj. sé falið að vinna að því, að hinir ýmsu sparisjóðir kaupi A-flokksbréf fyrir a.m.k. 5 millj. kr. árið 1959. Hér er í rauninni það sama að segja og ég hef sagt áður í sambandi við Tryggingastofnun ríkisins. Þessir aðilar hafa á undanförnum árum lagt fram fé í þessu skyni, eftir því sem þeir hafa talið sér fært og það er engin ástæða til að ætla, að það hafi ekki verið fullur vilji hjá þessum aðilum til þess að gera sitt bezta í þessu efni.

Nei, mér virðist, eftir að hafa athugað þessa till., að þá sé hún því miður ekki sérlega vænleg til þess að ráða bót, þó að ekki sé nema til bráðabirgða, á þeim mikla vanda, sem hér er við að etja.

Eins og ég sagði áðan, þá hlýtur okkur öllum að koma saman um, að það er ákaflega mikil þörf á því að gera ráðstafanir til þess að efla byggingarsjóðinn. En þær ráðstafanir, eins og ég tók fram áðan, eru þó ekki þess eðlis, að þær nái ekki út yfir víðara svið, en það að setja fyrirmæli um beina tekjuöflun í sjóðinn. Það, sem er aðalatriðið í því sambandi er, að skapað sé í landinu það ástand, að það fáist grundvöllur fyrir þá tekjuöflun. Eins og ég sagði áðan, var sá grundvöllur, þegar almenna veðlánakerfið var stofnað, hin aukna sparifjármyndun í landinu. Til þess að ráða einhverja verulega bót á þessum vanda verður þess vegna að koma efnahagsmálunum, efnahagskerfinu í það ástand, að sparifjármyndun leyfi tekjuöflun fyrir byggingarsjóðinn í eins ríkum mæli og nauðsynlegt er. En það er annað mál og miklu víðtækara og svo víðtækt, að ég ætla ekki að fara út í það hér í þessum orðum, sem ég mæli nú. Margt kemur að sjálfsögðu til athugunar og til greina í því sambandi. Það er m.a. spurningin um það, hvað fjárfestingin á að vera mikil og hvort fjárfestingin sé of mikil. Því dettur mér þetta í hug, vegna þess að í grg. með þessari till. er tekið alveg sérstaklega fram, að það séu ekki þau rök nú gegn framlögum til eflingar byggingarsjóðnum, að þau verði til þess að auka verðbólguna, því að, eins og segir í grg., fátt eða ekkert sé mikilvægara í baráttunni við hana, en draga úr húsnæðisskortinum og koma framboði og eftirspurn eftir húsnæði í eðlilegt horf. Hér er komið fram með kenningu, sem vægast sagt er út frá almennum forsendum nokkuð vafasöm. En það bregður ákaflega kynlega við, að þetta skuli koma í grg. hjá flm. þessarar till., vegna þess að menn eru ekki búnir að gleyma því, að fyrir nokkrum árum var haldið uppi miklum áróðri af hálfu Framsfl. og í höfuðmálgagni hans, Tímanum, blaði hv. flm., að það væri sérstakur voði, sem stafaði af því, að fjárfestingin væri of mikil. Þetta var sérstaklega tekið fram í stjórnmálayfirlýsingu Framsfl. á árinu 1956 og þetta virtist vera ein af forsendunum fyrir því, að Framsfl. rauf samstarfið við Sjálfstfl. á því ári. Og það, sem átt var við með þessu tali var, að það væri of mikið byggt af íbúðum í landinu. Þá stóðu málin þannig, að af því stóð sérstök hætta fyrir verðbólguna. Nú segir ritstjóri þessa sama blaðs, hv. flm. þessarar till., að nú sé ekki hægt að færa þessi rök gegn framlögum til byggingarsjóðs. Ég bendi aðeins á þetta til þess að sýna fram á, hvert samræmi er hér á milli.

Enn fremur er sagt í grg., að ef menn vilji hamla gegn verðbólgunni með einhverjum samdrætti, verði hann að eiga sér stað á öðrum sviðum, t.d. með minnkuðum innflutningi miður nauðsynlegra vara. Hér er líka komið með kenningu, sem frá almennu sjónarmiði er vægast sagt vafasöm. En hún er meira en vafasöm, ef ætti að leggja til grundvallar henni stefnu og verk Framsfl., flokks hv. flm. Í grg. segir hv. flm., að hægt sé að hamla gegn verðbólgunni með því að minnka innflutninginn. En í framkvæmd hefur það verið þannig, að Framsfl. hefur alla jafna ekki haft raunhæfari ráð til þess að berjast gegn verðbólgunni en að afla ríkissjóði tekna af innflutningi og miður nauðsynlegum innflutningi til þess að greiða niður vísitöluna. Og þetta gerði þessi flokkur eða ríkisstj. undir forustu þessa flokks með þeim árangri, að útgjöld úr ríkissjóði til niðurgreiðslu vísitölunnar hækkuðu í tíð vinstri stjórnarinnar um l00%.

Ég bendi á þetta til þess að sýna fram á, að það mál, sem hér er hreyft, er miklu víðtækara, en gert er ráð fyrir í till. þeirri, sem hér liggur fyrir. Það þarf að gera miklu meira og aðra hluti, en þar er lagt til. Það kann að vera, að undir vissum kringumstæðum geti það, sem hér er lagt til, verið raunhæft. En undir þeim kringumstæðum, sem nú eru fyrir hendi, hygg ég, að það sé ekki. Og ég held, að það sé óhætt að fullyrða það, að þessar till., þótt samþykktar yrðu, kæmu ekki að neinum notum fyrir þann tíma, sem gert er ráð fyrir í grg. flm., eða áður, en haustþingið kemur saman. En þótt svo sé, er hér hreyft ákaflega þýðingarmiklu mál, og það verður þó a.m.k. til þess að vekja athygli okkar á því og minna okkur á það, hversu þessi mál eru öll þýðingarmikil.