14.08.1959
Sameinað þing: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

8. mál, stjórnarskrárendurskoðun

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. — Ég hlýt að líta svo á, að einmitt 7 manna nefndin sé mjög til þess kjörin m.a. að gera tillögur um vinnubrögð áframhaldandi um þessi mál. Þess vegna finnst mér það ákaflega eðlilegt, að á hennar vit sé leitað um það að fá fram þau verkbrögð, sem við á að hafa og í raun og veru felst það í þáltill. einungis að skora á ríkisstj., að hún komi þessari n. til nokkurra verka og ég hygg, að hv. 1. þm. Reykv. (BBen) sé ekki svo brugðið, að hann sé með öllu hættur að geta haldið húskörlum sínum að starfi. Þá er nokkuð um breytt frá því, sem maður hafði áður vitað um þann mæta mann og ég vænti þess, að einmitt hann kveðji nú n. saman hið fyrsta, taki þar manntal og vanti einhvern hásetanna, sjái hann svo til, að hann komi um borð og síðan verði tekið til starfa svo sem ber.