31.07.1959
Neðri deild: 8. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þegar hugsað er til stjórnarskrárbreyt. þeirrar, sem nú er verið að knýja fram og um þann málatilbúnað allan, sem þeir flokkar hafa haft um það mál, sem samtökum bundust um að knýja það fram, þá hrýs manni hugur við þeim blekkingum, sem þar hafa verið notaðar. Þessir flokkar hafa t.d. haldið því fram, að hér muni verða miklu traustara stjórnarfar á eftir, þegar þessi bylting þeirra er fullkomnuð, þá verði sjaldnar stjórnarkreppur, þá verði sterkari stjórnir, þá verði engin hrossakaup um neitt, þá verði hreinar línur í stjórnmálum. Þeir hafa sagt þjóðinni, sem orðin er þreytt á þessum flokkum og öllu þeirra athæfi, að nú skuli koma gott tímabil. Þegar búið er að hræra hinum fornu kjördæmum saman í stórar samsteypur með hlutfallskosningum, þá segja þeir, að tími dýrðarinnar renni upp í íslenzku þjóðlífi. Þetta segja fulltrúar þessara flokka, þótt þeir viti, að hlutfallskosningakerfið sé stórgallað og hafi yfirleitt reynzt illa, en dæmin hins vegar deginum ljósari um hitt, að þær þjóðir, sem aldrei hafa haft slíkt fyrirkomulag, hafi verið og eru enn í dag traustustu lýðræðis– og þingræðisþjóðir heimsins. Norðurlandaþjóðirnar eru þær þjóðir, sem skást hafa þolað þetta kosningakerfi, sem kalla mætti kosningakerfi sundrungarinnar, því að það leiðir alls staðar til sundrungar, flokkafjölgunar og óheilinda í stjórnmálum. En þegar maður lítur til Norðurlandaþjóðanna, sem þríflokkarnir hér vitna, svo oft til, þá er nú ástandið þannig, að aðeins ein þeirra býr við flokkslega meirihlutastjórn, og er þó sá meiri hluti mjög naumur. Hinar allar hafa bræðingsstjórnir og stundum minnihlutastjórnir og hafa sumar þeirra verið skapaðar upp úr undangengnum pólitískum þrengingum og oft hangir stjórnarsamstarf hjá þessum þjóðum á veikum þræði. Það má t.d. nefna Finna. Allar hafa þessar þjóðir fjölda af flokkum, sem hafa flestir fæðzt vegna þeirra möguleika, sem hlutfallskosningakerfið veitir til stofnunar flokka og síðan nærast þeir á göllum þess. Norðurlandaþjóðirnar hafa frá fimm og upp í níu þingflokka hver. Svona er nú ljóminn, sem af þessu hlutfallskosningakerfi og stóru kjördæmum skín á Norðurlöndum, en til þeirra vitna kjördæmabyltingarmenn ákaft hér. Hvernig hefur svo hlutfallskosningakerfið reynzt sunnar í Evrópu, hjá hinum stóru þjóðum, sem þar búa, eins og t.d. Frökkum og Þjóðverjum? Það þarf ekki að rekja þá sögu, hún er svo kunn, svo sorglega kunn.

Við vitum, að tvisvar á s.l. 50 árum hefur í miðri og sunnanverðri Evrópu kviknað ófriðarbál, sem steypti öllum heiminum í hinar ægilegustu styrjaldir, sem veraldarsagan kann að greina frá. Þjóðirnar, sem á morgni þessarar aldar áttu hugsjónir um lýðfrelsi og lýðræðisskipulag, þannig að allir þegnarnir hefðu sem jöfnust áhrif á þjóðmálin og stjórn ríkjanna, hafa nú lifað sorglega reynslu. Hlutfallskosningakerfi þeirra framkallaði sundurlyndi og slíkan flokkafjölda, að stjórnarfarið veiktist og fólkið gafst upp vegna pólitískrar þreytu og lýðskrumarar, sem áttu að takmarki að verða einræðisherrar, settust í valdastólana og framkvæmdu þar vilja sinn, eins og t.d. Hitler og Mussolini. Hlutfallskosningakerfl lýðræðisþjóða lyfti þessum mönnum í valdastólana. Þannig gekk lýðræðið í þessum löndum vegna gallaðs kosningakerfis af sjálfu sér dauðu.

Þá má minna á Frakkland, sjálft höfuðból stjórnfrelsishugsjóna og lýðfrelsis. Það er nú svo kunn saga og svo nálæg í tímanum, hvernig þjóðin gafst blátt áfram upp á því kosningakerfi, er hún eitt sinn tók upp og taldi þá frjálslegast og réttlátast, að óþarft er um það að tala, allir vita og muna, hvernig þar fór. Og menn biða milli vonar og ótta um það, hvort sú fræga menningarþjóð verður einræðisöflum að bráð eða hvort þar tekst að byggja upp nýtt þingræði á heilbrigðum lýðræðisgrundvelli og almennum kosningarrétti, sem þjóðin getur treyst.

Það er oft talað um, hversu nauðsynlegt það sé að vernda og efla mannréttindi, þ.e.a.s. rétt hvers einstaklings til þess að lifa og njóta menntunar, atvinnu og íhlutunar um stjórn þess þjóðfélags, þar sem hann er og hverra annarra gæða, sem lífið getur veitt, innan þeirra takmarka, sem nauðsynleg kunna að vera. Að menn eigi almennan aðgang að menntun, kemur því aðeins einstaklingunum og þjóðfélaginu að fullu gagni, að hún veiti trausta þekkingu. Það er ekki heldur nóg að hafa atvinnu, ef atvinnan getur ekki fullnægt eðlilegum þörfum einstaklinga og þjóða. Það er ekki heldur nóg að veita hverjum manni rétt að kjósa til þings, þannig að öll atkv. séu jafnþung, hvar sem þau eru greidd. Hitt er meira um vert, að undirstaðan að sjálfum réttindunum sé svo grundvölluð, að henni verði ekki hrundið með hringlandahætti og valdabaráttu. Það er eðlilegt í hverju þjóðfélagi, að menn og flokka greini á um takmörk og leiðir. En grundvöllurinn þarf að vera svo traustur, að „hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,“ þá bifist ekki það, sem á er staðið.

Einmenningskjördæmi til þingkosninga eru áreiðanlega traustasti kosningagrundvöllur. Með þeim hætti hafa íbúar kjördæmisins möguleika til að ráða einhverju um það, hverjir verði í framboði og þegar til sjálfrar kosningarinnar kemur, þá geta þeir valið eftir persónulegu mati sínu á mönnum. En hlutfallskosningar gefa kjósandanum ekki tækifæri til að velja um annað en flokka og mennirnir, sem flokkarnir munu fyrst og fremst senda fram, verða vitanlega þeir, sem hver flokksstjórn telur sér bezt að skapi og er engin trygging fyrir því, að slíkir fulltrúar verði búnir þeim kostum, sem fólk úti á landi teldi æskilegasta vegna þess umboðs, er maðurinn ætti að rækja. Við Íslendingar höfum átt tiltölulega marga þingskörunga og duglega stjórnmálamenn. Ýmsir þeirra hafa verið úr fjarlægum kjördæmum og fámennum. Þar fann fólkið sjálft þessa menn og kaus þá til umboðs fyrir héruð sín á Alþingi. Mjög miklar líkur eru fyrir því, að ef hlutfallskosningar hefðu verið viðhafðar hér, þá hefðu sumir þessir gömlu garpar aldrei komið fram á sjónarsviðið sem stjórnmálamenn og þá væri saga Íslands önnur, en hún er og ærið fátæklegri.

Þegar þeir flokkar, sem að kjördæmabreytingunni standa, voru fyrir síðustu kosningar að túlka tilgang kosninganna og stjórnlagabreytingarinnar, þá sögðu þeir, að kosningarnar færu fram aðeins formsins vegna, stjórnlagabreytingin væri í rauninni afgert mál, sem hvorki þyrfti né ætti að ræða, það ætti heldur að tala um allt annað. Fjöldi manna, sem algerlega var á móti kjördæmabyltingunni, trúði þessu og kaus sinn gamla flokk þrátt fyrir hans syndugu breytni í þessu máli. Ég veit um marga sjálfstæðismenn, sem þetta gerðu með það einnig í huga, að þeim var sagt á framboðsfundum og víðar, að mikil hætta væri á því, að Framsfl. og kommúnistar næðu meiri hluta og ef svo færi, þá væru þessir flokkar búnir að semja um að mynda stjórn saman og vera við völd næstu fjögur ár. En það er kunnugt, að fjöldi sjálfstæðismanna úti á landi er mjög andvígur allri ráðsmennsku kommúnista á þjóðarbúinu, en það er gagnstætt því, sem er um sjálfstæðismenn hér í Reykjavík og nágrenni, þar sem þeir eru oft og ekki sízt nú þessa mánuðina eins og góðir bræður. Þessi tilbúningur og blekkingar, sem ég hef hér drepið á að flokksvald Sjálfstfl. lét frambjóðendur flokksins og talsmenn viðhafa, varð áreiðanlega til þess, að margt fólk, sem var og er á móti kjördæmamálinu, kaus með flokknum af hræðslu við, að annars kysi það kommúnista yfir sig. Mér hefur fundizt á því, sem nokkrir sjálfstæðismenn hafa núna sagt við mig, síðan forseta- og nefndarkosningar fóru fram hér á hv. Alþingi, að þeir telji flokkinn sinn illa hafa gabbað sig og þeir sjá nú eftir að hafa ekki látið afstöðu sína til kjördæmamálsins ráða því, hvernig þeir greiddu atkvæði.

Það er engu líkara, en þessum þriflokkum, sem standa að kjördæmamálinu og kjördæmabreytingunni, sé nautn í því að þvinga kjördæmamálinu og kjördæmabreytingunni upp á þjóðina. Það kom berlega í ljós hér í þessari hv. d. í gær, þegar þeir felldu dagskrártill. minni hl. stjórnarskrárnefndar um frestun þessa aukaþings og almenna atkvæðagreiðslu um kjördæmamálið meðal kjósendanna í kjördæmunum. Ótti þeirra við þjóðina í þessu máli er augljós. Hann lýsti sér í þeim blekkingum, sem ég áðan vék lítils háttar að, að þeir viðhöfðu í kosningunum, en hann kom þó enn berlegar fram hér í gær, þegar felld var till. um að láta þjóðina fá málið eitt og laust við önnur mál til umsagnar með jái eða neii. Þá fór lýðræðisástin í felur eða hún gufaði hreinlega upp, en vilji flokksvaldsins í Reykjavík réð. Það var fyrsta bendingin um það, sem í vændum er.