14.08.1959
Sameinað þing: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

11. mál, niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar þessari till. var útbýtt á sínum tíma, hafði ríkisstj. að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að hún fengi venjulega þinglega meðferð og yrði vísað til n. Í viðskmrn. hafði ég gert ráðstafanir til þess að geta látið þeirri n., sem fengi málið til meðferðar, í té nauðsynlegar upplýsingar, til þess að n. gæti tekið afstöðu til efnis till. Nú hefur hins vegar fyrsti flm. till. óskað þess, að málinu yrði ekki vísað til n. Þá væri nauðsynlegt og sjálfsagt, ef sú yrði niðurstaðan, að veita þingheimi í heild þær upplýsingar í málinu, sem ég tel bráðnauðsynlegar, til þess að þm. geti greitt skynsamlega atkv. um till. En á þeim tíma, sem liðinn er, síðan þessi ósk var fram borin af hálfu fyrsta flm. till., hef ég ekki haft aðstöðu til þess að afla eða láta útbúa þær upplýsingar, sem ríkisstj. hefði viljað koma á framfæri, áður en til afgreiðslu till. kæmi. Þess vegna verð ég, herra forseti, mjög eindregið að mælast til þess, að umræðunni verði frestað.