14.08.1959
Sameinað þing: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

11. mál, niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum

Forseti (BBen):

Það mun verða tekið til athugunar, en þinglausnir eru ákveðnar kl. hálf tvö eins og menn vita. Ég skal láta kanna það strax í fyrramálið. hvort hægt er að hafa samband við menn. Rétt er því, að menn verði við því búnir með stuttum fyrirvara að koma á fund kl. 11. En ég get ekki tekið afstöðu til þess fyrr en sést, hvort í þm. næst, þá sem sögðu mér, að þeir mundu fara og mundu ekki koma aftur fyrr en á þeim tíma, sem þinglausnir voru ákveðnar á. Ég vil ekki hér á neinn halla, en ég verð að hafa þá meðferð á, að mín orð standi gagnvart þeim mönnum, sem í góðri trú fóru úr bænum.

Þar sem fleiri menn eru á mælendaskrá og þess hefur verið óskað af hæstv. menntmrh., að umr. yrði frestað og ljóst er, að hér geta orðið almennar umr., ef haldið verður áfram, en tilgangslitlar og tilkynnt er, að atkvgr. fer ekki fram í kvöld, þá fresta ég umr., tek málið út af dagskrá.

Eins og tilkynnt hefur verið, eru þinglausnir ákveðnar kl. 1½ miðdegis á morgun. Ég mun athuga, hvort fært er að ná í menn, þannig að þingviljinn raunverulega geti komið fram. Það er óskað eftir því, að hann komi fram og þá er þýðingarlaust að halda fund, nema náist í þá, sem úrslitum geta ráðið, úr því að hér er um deilumál að ræða. Ég mun athuga það, og þm. munu fá vitneskju um það milli 10 og 11 í fyrramálið.