12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

7. mál, togarasmíð

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir greinargóð svör við þessum fyrirspurnum okkar þremenninganna.

Það kemur hér í ljós, eins og tæpt var á í blöðum, að raunverulega er ekki búið að gera samninga um smíði eða ákveða smíði nema á 4 togurum og er aðeins óljós von um það, að unnt verði að smíða 4 skip á næsta ári. Þetta undirstrikar sem sagt það, sem sagt var um þetta mál í blöðum.

Í sambandi við annan lið fsp. er það að segja, að ekki virðist fullgengið frá lánskjörum eða ekki a.m.k. búið að undirrita samninga, og er vitanlega ekkert við því að segja, þar sem fyrir virðast liggja bæði lánstími og vextir.

En með þriðja og fjórða lið spurningarinnar kemur í ljós, að ríkisstj. hefur ekki á nokkurn hátt leitað tillagna atvinnutækjanefndar um dreifingu þessara mikilvirku atvinnutækja. Ég skal taka það fram strax, til þess að það valdi ekki misskilningi, að það er alveg vafalaust, að þessi tæki hafa verið látin til staða, sem höfðu þeirra full not og a.m.k. ég og fyrirspyrjendur sjáum á engan hátt ofsjónum yfir ráðstöfunum á skipunum. En ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, þegar farið verður að endurnýja togaraflota okkar áframhaldandi, að stuðzt verði við till. atvinnutækjanefndar um dreifingu þessara mikilvirku atvinnutækja, því að það er vitað mál, að þrátt fyrir það, þótt togaraútgerð hafi oft gengið verr úti á landi, en hér við Faxaflóa, þá eru þetta svo mikilvirk tæki til jöfnunar á atvinnu og bæta svo mikið aðstöðu þeirra, sem í dreifbýlinu búa, að það verður óhjákvæmilegt að staðsetja nokkuð mikið af þessum skipum utan Faxaflóasvæðisins.