12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

7. mál, togarasmíð

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi leita upplýsinga um í sambandi við þessi togarakaup, því að mér sýnist, að þetta sé á allmikið öðrum grunni, en gert hafði verið ráð fyrir. Hér er um það að ræða, að aðeins séu veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir 4 skipum á þessu ári og þá aftur væntanlega öðrum 4 eða vonir standa til þess á næsta ári, en hins vegar er gert ráð fyrir því, að ríkisábyrgð verði veitt allt að 90%. En þar sem ekki er um aðra fyrirgreiðslu, en þetta að ræða frá hálfu ríkisins, þá vildi ég spyrjast fyrir um það: Er nokkuð á móti því, að ríkisstj. veiti innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir meira en fjórum skipum, ef kaupendur skipanna geta útvegað sér erlend lán fyrir allt að 80–90% af andvirði skipanna og geta fengið þessa ríkisábyrgð? Mér er kunnugt um það, að einstakir aðilar hafa sótt allfast eftir að fá að kaupa skip. Er nokkuð á móti því, að það séu veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi af hálfu ríkisins til fleiri aðila en þessara fjögurra? Ég vildi, að það kæmi hér fram og mér finnst, að það væri sú minnsta fyrirgreiðsla, sem hægt er að veita, eins og ástatt er með okkar togaraflota, að veita þeim aðilum, sem eftir slíku sækjast, slík leyfi, þegar ekki er um það að ræða, að ríkið þurfi sjálft að kaupa skipin og útvega lán fyrir þeim, þegar ekki er um það að ræða, að það strandi á því, að ríkið geti útvegað lánið.

Þessu vildi ég beina til hæstv. forsrh. og spyrjast fyrir um það, hvort ekki væru möguleikar á því að veita fleiri innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, ef einstakir aðilar sækja eftir því og geta útvegað sér þessi erlendu lán.