12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

7. mál, togarasmíð

Forsrh. (Emil Jónsson):

Út af þessari fsp. hv. 10. landsk, þm. vildi ég aðeins segja það, að fyrirgreiðsla ríkissjóðs hefur að nokkru leyti verið meiri, en sú að útvega eða veita innflutnings- og gjaldeyrisleyfi og veita ríkisábyrgðina, því að á hennar vegum hefur að langmestu leyti verið útvegað það fé, sem til þessara togarasmíða hefur þurft. Þrír af þessum fjórum togurum eru byggðir fyrir fé, sem útvegað hefur verið á vegum ríkisstj., og það varð samkomulag við stjórn Seðlabankans um það að fara ekki í þessar sakir með meiri hraða, en þetta, sem hv. þm. þykir nú kannske fulllitill. En margir töldu það heppilegra, að heldur yrði veitt einhver ákveðin tala, stöðug, á hverju ári, heldur en að hlaupið yrði í það að kaupa einhvern stóran flota í einu, þá mætti betur fylgjast með þeim nýjungum, sem kæmu fram í þessum málum og yfirleitt var af ýmsum þeim mönnum, sem mátti telja að hefðu bezt vit á þessum hlutum, hvatt frekar til þess að hafa heldur minni árlega tölu en jafnari. Og nokkur munur er þó á því að fá fjóra togara inn á ári heldur en að fá engan, eins og verið hefur á undanförnum árum.