12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

7. mál, togarasmíð

Ólafur Thors:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Ég er sammála hæstv. forsrh. um það, að farsælla sé að dreifa skipakaupunum frekar á fleiri ár, en eins og við gerðum í nýsköpunarstjórninni, að kaupa 30 togara í einu, þótt það væri út af fyrir sig farsæl ráðstöfun. Og ég vil leyfa mér sérstaklega að minna hv. 10. landsk. (LJós) í öllu bróðerni á það, að þegar við vorum að deila um stjórnarskrármálið og reyna að ná samkomulagi um það, þá var það fleinn í hans holdi, að sú hæstv. ríkisstj., sem nú fer með völdin, ætti að fara áfram með völdin og hann treysti henni m.a. ekki til þess að framkvæma með réttlæti ýmsar þær ráðstafanir, sem eðli málsins samkvæmt falla undir verkahring ríkisstj. Og hann átti sinn veigamikla þátt í því, að þá var ákveðið, að ekki sjálf ríkisstj., heldur aðrir skyldu ráða því einvörðungu, gagnstætt því, sem var í hans ráðherratíð, hverjir fengju byggingarleyfi á vélbátum. Þetta vald var að hans tilhlutun og hans flokks, tekið frá ríkisstj. og lagt í hendur innflutningsskrifstofunnar, út frá því sjónarmiði, að það væri öruggari hemill á meint ranglæti núverandi hæstv. ríkisstj., að þetta vald væri af henni tekið. Nú sýnist hann ekki í rónni, nema þessi hæstv. ríkisstj. flýti sér að úthluta helzt öllum þeim togaraleyfum, sem ætti að úthluta á næstu árum. Það er auðséð, að hann gerir ekki ráð fyrir að komast í stjórn. Ég er ekki að segja, að ég geri ráð fyrir að ráða neinu. En ég treysti mér að ráða þessu máli eins vel og núverandi ríkisstj. og vil gjarnan hafa hönd í bagga með því, hverjir fái þessi leyfi að afloknum kosningum, úr því að þessi hæstv. ríkisstj. hefur sætt sig við það. Ég tel líka samkvæmt eðli málsins mjög réttlátt að segja: Við höfum lofað 4 togurum á ári. Við úthlutum þeim 4 togurum, sem á að ráðstafa á þessu ári. Hitt geymum við þeim, sem koma skal, hvort sem það verður hv. 10. landsk. eða einhver annar. — Ég skil ekki þennan óróleika kommúnista og trúi ekki, að þeir séu einlægir.