12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

14. mál, skattur á stóreignir

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 9 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. varðandi skatt á stóreignir. Vil ég leyfa mér að fylgja þessari fsp. úr hlaði með örfáum orðum.

Stóreignaskattslöggjöfin er byggð á þeirri hugsun, að sanngjarnt sé, að þeir, sem einkum hafa grætt á verðbólguástandi undanfarinna ára, milljónamæringar, láti nokkuð af mörkum af verðbólgugróða sínum til opinberra þarfa og þá einkanlega til þess að bæta úr fyrir þeim, sem verðbólgan hefur leikið sérstaklega grátt, húsbyggjendum og þeim, sem jarðir þurfa að kaupa. Því er svo fyrir mælt í stóreignaskattslögunum, að stóreignaskatturinn skuli að 1/3 renna til veðdeildar Búnaðarbankans og 2/3 til Byggingarsjóðs ríkisins. Báðar þessar lánastofnanir, veðdeildin og Byggingarsjóðurinn, eru í mikilli fjárþörf. Skiptir því mjög miklu máli, að innheimta skattsins gangi greiðlega og eftir áætlun og að innborgað fé renni jafnharðan til nefndra stofnana. Því er í fyrsta lagi spurt, hvað innheimtu skattsins líði. Skv. 1. gr. laganna átti skatturinn að greiðast í síðasta lagi 6 mánuðum eftir, að skattupphæð var tilkynnt gjaldanda, þó svo, að ef skattur nemur 10 þús. kr., þá er gjaldanda heimilt að greiða allt að 90% af því, sem þar er fram yfir, með skuldabréfum, svo sem nánar segir í tilvitnaðri grein laganna.

Í annan stað er að því spurt, hvort ríkisstj. sé um það kunnugt, að stóreignaskattsgreiðendur hafi kært skattlagninguna til mannréttindanefndar Evrópu og þá væntanlega í því skyni að bera málið síðar undir mannréttindadómstólinn og ef svo er, hverjar ráðstafanir ríkisstj. þá hafi gert af því tilefni.

Fsp. þessi er borin fram að gefnu tilefni. Frá því hefur verið skýrt í blöðum, fleiri en einu, að slík kæra standi til eða hafi átt sér stað og minnir mig jafnvel, að fyrirsvarsmenn félagsskapar skattgreiðenda hafi verið fyrir því bornir.

Þá hefur það og ekki farið dult manna á milli, að a.m.k. tveir af fyrirsvarsmönnum þessa félagsskapar hafi gert för sína til Strassborgar ekki einu sinni, heldur tvisvar sinnum í því skyni, að talið hefur verið, að koma þvílíku málskoti á framfæri.

Nú er það að vísu svo, að margar kærur berast mannréttindanefndinni, og er auðvitað langsamlega flestum hafnað, enda margar hverjar komnar frá hálfgeðveiku fólki, svo sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur skýrt frá í ágætri tímaritsgrein, er hann hefur skrifað, en hann á af Íslands hálfu sæti í mannréttindanefndinni. Almennt er því ekki ástæða til að taka slíkar kærur hátíðlega. En í þessu tilfelli gegnir nokkuð öðru máli. Hér eiga ekki í hlut neinar vanmetakindur, heldur vel þekktir þjóðfélagsborgarar, áhrifamenn í þjóðfélaginu, sem margir hverjir teljast til helztu ráðamanna og máttarstólpa stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, Sjálfstfl. Það eru því miklar líkur til, að svo verði litið á, a.m.k. erlendis, að Sjálfstfl. standi að baki þessum málatilbúnaði eða a.m.k. að til hans sé stofnað með vitund hans og fullu samþykki, einkanlega þegar þess er gætt, að Sjálfstfl. sýndi löggjöf þessari andúð á sínum tíma. Frá mínu sjónarmiði er þess vegna slíkt málskot mjög alvarlegt fyrir íslenzka ríkið og áliti þess út á við beinlínis hættulegt. Með slíkri kæru er gefið í skyn, að löggjafarsamkoman virði hvorki stjórnarskrána né mannréttindi. Í slíkri kæru felst enn fremur sú ásökun á hendur íslenzkum dómstólum og þá fyrst og fremst á hendur hæstarétti, að þeim sé ekki treystandi til að veita mönnum hér nægilega réttarvernd. M.ö.o.: í slíku málskoti felst óbeinlínis sú staðhæfing, að hér sé ekki réttarríki. Slík staðhæfing af hálfu þeirra manna, sem hér eiga hlut að, er skaðleg áliti okkar hjá öðrum þjóðum og auðvitað alveg sérstaklega skaðleg nú vegna landhelgismálsins og þarf ekki að efa, að Bretar muni reyna að notfæra sér slíkt til stuðnings árásum sínum og ásökunum. Þeim er með þessu framferði milljónamæringanna beinlínis fengið vopn í hendur. Þó að engum, sem kynnt hefur sér málið, detti í hug, að mannréttindanefndin leyfi framgang þessarar kæru, þá er hún engu að síður fallin til þess að vinna okkur og okkar málstað tjón á erlendum vettvangi og auðvitað alvarleg misnotkun á þessum merku mannréttindastofnunum Evrópu. Því finnst mér full ástæða til þess að beiðast skýrslu ríkisstj. um þetta efni. Hitt er svo annað mál, sem ég ræði ekki hér að þessu sinni, hvert það þegnlyndi er og hver sá hugsunarháttur er hjá milljónamæringunum, — sem að vissu leyti hafa þó af forlögunum verið settir sólarmegin í lífinu, — sem býr að baki slíku málskoti.