12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

14. mál, skattur á stóreignir

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir mjög greinargóða skýrslu varðandi fyrri lið þessarar spurningar, sem hér var um að tefla, þ.e.a.s. hvað liði innheimtu stóreignaskatts. Sú skýrsla, sem hann gaf þingheimi um það efni, var mjög fróðleg og lærdómsrík og ég tel það vel farið, að þingheimi var gefin sú skýrsla, því að vissulega á Alþingi fullan rétt á að fylgjast með, hvað jafnþýðingarmiklu máli liður. En af skýrslu þeirri, sem ráðh. flutti um það efni, er það m.a. auðsætt, að þessi skattur hefur í meðförum stjórnarvaldanna og dómstólanna lækkað frá því, sem var í upphafi, úr 134 millj., ef ég man rétt, og niður í um 113 millj., eða um rúmlega 21 millj. Og það er ekki svo lítið, sem þannig fellur niður af þessari skattupphæð frá því, sem upphaflega var reiknað með.

Um skýrslu hæstv. ráðh. varðandi innheimtuna verður það annars að segja, að innheimtan hefur gengið seint, en til þess liggja sjálfsagt ýmsar ástæður, sem ekki hefur verið gott að komast hjá, eins og hann rakti og ég skal ekki fara frekar út í það, heldur aðeins láta í ljós þá ósk, að þessari innheimtu sé hraðað, svo sem kostur er á, eins og hæstv. ráðh. reyndar gaf fyrirheit um að gert mundi verða.

Varðandi annan lið spurningarinnar var hæstv. ráðh. miklu fáorðari, en um fyrri liðinn og gat raunar litlar upplýsingar gefið aðrar en þær þó, að hann staðfesti þann orðróm og þær blaðafregnir, sem hafa verið á kreiki varðandi þetta mál, að fyrirsvarsmenn félagsskapar skattgreiðenda hygðust að bera það undir mannréttindanefnd Evrópu. Hins vegar taldi hæstv. ráðh., að ríkisstj. væri ekki að öðru leyti um málskot þetta kunnugt.

Nú er það svo, að það á náttúrlega ekki að geta farið fram hjá ríkisstj., ef þetta málskot er fram komið, vegna þess að eftir þeim reglum, sem um þetta gilda, stofnskrá nefndarinnar, á að gera þeim deiluaðilum, sem eiga hlut að máli, viðvart, svo að þeir geti talað sínu máli og auk þess á, eins og ég drap á áðan, hæstv. dómsmrh. sæti af hálfu Íslands í þessari mannréttindanefnd. Þess vegna verð ég að segja það, að mér þykir raunar nokkurri furðu gegna, hversu hæstv. ráðh. er fáfróður um þetta atriði.

Í annan stað tók hæstv. ráðh. enga afstöðu til þess álits, sem ég lét í ljós, að ég teldi þetta hættulegt fyrir íslenzka ríkið, fyrir málstað og álit íslenzka ríkisins erlendis. En hæstv. fjmrh. er þó jafnframt utanrrh. og fer með það veigamikla deilumál, sem við allir þekkjum, landhelgismálið, sem ég einmitt minntist á að hugsanlegt væri að þessi málatilbúnaður allur gæti orðið mjög hættulegur. Ég hefði nú kosið, að hæstv. ráðh. hefði látið í ljós álit sitt á þessu atriði, látið í ljós, hvort hann fordæmdi ekki þessa aðferð hjá þessum milljónamæringum, sem hafa átt þess fullan kost að leita til réttra íslenzkra stjórnarvalda um þetta mál og hafa líka gert það, eins og fyrri skýrsla hans bar greinilega með sér, — hafa átt kost á því að leita til íslenzkra dómstóla, þ. á m. hæstaréttar og hafa líka gert það, eins og skýrsla hans bar líka með sér, en vilja svo ekki láta sitja við þetta, vilja ekki virða þessar stofnanir íslenzku þjóðarinnar, vilja ekki treysta því, að hæstiréttur kveði upp um þetta atriði réttan dóm lögum samkvæmt. Ég tel það mjög fróðlegt — (Forseti: Hv. þm. hefur lokið sínum tíma.) Já, ég skal ljúka máli mínu. Ég tel það mjög fróðlegt fyrir þingheim að fá að vita, hverja afstöðu hæstv. ráðh. hefur í þessu efni.