12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

14. mál, skattur á stóreignir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls, en vegna þess, sem hv. þm. G-K. (ÓTh) sagði og hv. síðasti ræðumaður, þá vil ég þó nota þessar örfáu mínútur, sem ég hef til þess að leggja hér orð í belg.

Ég vil þá fyrst segja, að það kom fram hjá síðasta ræðumanni, að samvinnufélögin borguðu ekki stóreignaskatt. Og hann segir, að það hefði átt að leggja stóreignaskattinn á alla skattaðila í landinu. Við höfum heyrt þetta áður, að Sjálfstfl. vildi leggja stóreignaskattinn þannig á, að hann væri lagður á félög og einstaklinga. Þetta hefði þýtt, að þeir einstaklingar, sem voru svo forsjálir að hafa dreift milljónum sínum í nægilega mörg fyrirtæki, hefðu í ýmsum tilfellum engan stóreignaskatt borgað. En aftur á móti var það fyrir áhrif annarra manna, að lagt var á þannig, að hver einstaklingur í landinu borgar af öllum sínum eignum, í hvaða félögum sem eignirnar eru og það ætla ég að öllum mönnum ætti að geta fundizt réttlátt. Ef samvinnufélögin þurfa lítið að borga af stóreignaskatti fyrir sína félagsmenn, þá er það fyrir það, að í þeim eru fáir milljónamæringar, og ekki fyrir neitt annað. Málið er ekkert flókið. Það er svona. Það borgar hver einstaklingur í landinu af því, sem hann á, í hvaða félagi sem það stendur.

Varðandi það, sem hv. þm. G-K. sagði, hefði ég kunnað betur við, að hann hefði beint orðum sínum til hv. 1. þm. Skagf. (ÓlJ), meðan hann gat tekið til máls og svarað fyrir sig, en það gerði hv. þm. ekki. En hv. 1. þm. Skagf. sagði, að menn gætu auðveldlega álitið, að Sjálfstfl. stæði að því, að þetta ógeðslega málskot ætti sér stað, vegna þess, hversu margir milljónamæringar væru innst við jötu í Sjálfstfl. Hygg ég, að þetta sé ekkert ofmælt.

Nú hefði maður getað haft ástæðu til að álíta, að hv. þm. G-K. hefði hreinlega viljað reka þetta orð af flokknum með því að lýsa hér yfir andúð sinni á þessu framferði, þessum aðförum. Það var einfaldast fyrir hann að taka skelegglega afstöðu á móti því, sem þarna er verið að gera. En það gerði hann ekki í þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan og ekki heldur hv. þm., sem síðast talaði. Þeir lýstu ekki hér yfir neinni fordæmingu á því, að þessi félagsskapur virðist ætla að kæra hæstarétt landsins og Alþingi fyrir að hafa brotið almenn mannréttindi, á sama tíma sem við eigum í einhverri erfiðustu deilu út á við, sem við höfum staðið í, þar sem er landhelgisdeilan. Og við vitum, að slíkt getur orðið til þess að veikja traust annarra þjóða á okkar réttarfari og löggjafarstarfi. Það var ekki eitt einasta orð til fordæmingar þessu af hálfu hv. þm. G-K. og hefði þetta þó verið ágætt tækifæri, eins og ég sagði, fyrir hann og aðra talsmenn Sjálfstfl. að taka hreinlega og drengilega afstöðu gegn þessu og fordæma það, eins og aðrir hafa gert, sem hér hafa talað.