21.07.1959
Sameinað þing: 1. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 3. kjördeildar (Gísli Jónsson):

Herra forseti. 3. kjördeild hefur fengið til athugunar alla þá þm., sem sæti eiga í 2. kjördeild, en þeir eru sem hér segir: Björn Pálsson, þm. A-Húnv., mun ég ræða það atriði nokkuð síðar,

Eggert G. Þorsteinsson, 2. landsk. þm., Einar Ingimundarson, þm. Siglf., Eysteinn Jónsson, 1. þm. S-M., Finnbogi R. Valdimarsson, 5. landsk. þm., Gísli Guðmundsson, þm. N-Þ., Guðlaugur Gíslason, þm. Vestm., Guðmundur Í. Guðmundsson, 6. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, 6. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, 4. þm. Reykv., Magnús Jónsson, 2. þm. Eyf., Ólafur Jóhannesson, 1. þm. Skagf., en ég vildi gera nokkrar athugasemdir í sambandi við það mál, Páll Zóphóníasson, 1. þm. N–M., Páll Þorsteinsson, þm. A-Sk., Sigurður Bjarnason, þm. N–Ísf., Skúli Guðmundsson, þm. V–Húnv., og Þórarinn Þórarinsson, 7. þm. Reykv.

Í sambandi við kjörbréf Björns Pálssonar, þm. A–Húnv., hafði kjördeildinni borizt bréf, sem skrifstofustjóri Alþingis afhenti og er frá dómsmrn., dags. 20. júlí 1959 og er úrskurður um kæru fram komna frá Sjálfstæðisfélagi Húnavatnssýslu út af göllum á kosningunni. Bréf þetta og önnur gögn, sem fylgdu, voru lesin upp á fundi í kjördeildinni svo og athugaðar ljósmyndir, sem fylgdu með, en kjördeildin hefur fallizt á úrskurð rn. og það sé ekki ástæða til þess að gera neina aths. við þetta kjörbréf frekar en önnur, sem hún hafði til meðferðar.

Eftir að kjördeildin hafði slitið fundi, bárust mér sem frsm. gögn frá yfirkjörstjórn Skagafjarðarsýslu með bréfum með þremur seðlum, sem taldir voru ógildir og um hefur verið ágreiningur, sem skotið er til úrskurðar dómsmrn. og hefur verið sent til Alþingis. Þessir ógildu seðlar hafa ekki áhrif á kjör hv. þm. fyrir Skagfirðinga, svo að kjördeildin gerir ekki neina aths. við það kjörbréf heldur.

Kjördeildin leggur því til, að öll þau 17 kjörbréf, sem hér hefur verið rætt um, séu tekin gild ágreiningslaust.