04.08.1959
Neðri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í ræðu þeirri, sem 3. þm. Reykv. (EOl) hélt hér í dag, minntist hann á nokkur atriði í þeirri ræðu, sem ég hafði flutt hér á föstudaginn. Mér finnst rétt að gera nokkru af því, sem hann sagði, nokkur skil.

En áður en ég vík að því, finnst mér rétt að vekja athygli á því, að ræða hans var fyrir ýmissa hluta sakir allmerkileg. Það kom mjög ljóst fram í henni, hvert hv. þm. er að fara. Þó virtist eins og hann hefði ekki að öllu leyti góða samvizku vegna þess og var hann þess vegna að reyna að finna ýmsar afsakanir fyrir því. Ræða hans gekk mjög út á það, að Framsfl. hefði unnið með Sjálfstfl. og Framsfl. kynni að hyggja á að vinna með Sjálfstfl. um að breyta kjördæmaskipuninni aftur. Sjálfstfl. hefði verið sæmilega góður, þegar Alþb. eða Sósfl. vann með honum í ríkisstj. Þannig héldu þessar afsakanir áfram, sem bentu auðsjáanlega til þess, hvert þm. var að fara og ekki sízt kom það í ljós, þegar hann vék að ræðu hv. þm. A-Húnv., því að þá kenndi dálítils ótta hjá honum um það, að hv. þm. A-Húnv. kynni að vera í einhverri samkeppni við hann. Þetta sýndi allt ljóst, hvert hv. þm. er að fara, og mun ég kannske víkja að því nánar seinna.

Mér fannst það, sem hv. þm. sagði um nýsköpunarstjórnina, benda til þess, að hann væri ekki kröfuharður umbótamaður, því að ég held, að það sé sannast sagna um þá ríkisstjórn, að af öllum þeim ríkisstjórnum, sem hér hafa setið, síðan sjálfstæðið var endurheimt, þá hefur engin ríkisstj. skilið eins lítið eftir af meiri háttar umbótum og sú ríkisstj., þegar miðað er við þá aðstöðu, sem hún hafði. Við þurfum ekki annað, en líta í kringum okkur og athuga nokkur atriði til að sannfærast um þetta. Hvað var t.d. byggt af stórum orkuverum á þeim tíma, sem nýsköpunarstjórnin fór hér með völd? Hvað var gert af rafvæðingu í dreifbýlinu, í landsfjórðungunum þremur, sem hv. þm. talaði mikið um? Hvað var gert af meiri háttar iðnaðarframkvæmdum á þeim tíma? Það var búíð að undirbúa byggingu áburðarverksmiðjunnar, þegar sú ríkisstj. komst til valda. Eitt af fyrstu verkum hennar var að stöðva þá framkvæmd. Hún stöðvaði á sama hátt byggingu sementsverksmiðjunnar. Það hefur aldrei verið lagt eins lítið fram af opinberri hálfu til ræktunarmála og á þeim tíma, sem þessi stjórn sat að völdum. Og kannske bezta dæmið um það, hvernig þessi ríkisstj. stjórnaði, er afstaða hennar til byggingarmála alþýðunnar í Reykjavík. Hvað var gert í byggingarmálum alþýðunnar í Reykjavík á þeim tíma, sem nýsköpunarstjórnin sat að völdum? Getur hv. þm. svarað því? Var kannske aukið framlag til verkamannabústaða? Var bætt aðstaða til samvinnubygginga, eða voru aukin lánsframlög til þeirra efnalítilla manna, sem voru að koma upp eigin íbúðum? Nei, það var ekki gert neitt af þessu. En það var gerður viss hlutur samt. Á þeim tíma gerðist það, að hermenn yfirgáfu úrelta hermannabragga hér í höfuðborginni. Það, sem gerðist í byggingarmálum alþýðunnar í Reykjavik á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, var það, að fátækasti hluti verkamannastéttarinnar var látinn flytja inn í þessa bragga. Það var minnisvarðinn, sem nýsköpunarstjórnin reisti yfir sig í byggingarmálum bæjanna. Þannig mætti halda áfram að rekja þessa sögu. Hv. þm. ætti þess vegna ekki að vera að minnast mikið á nýsköpunarstjórnina, ef hann vill halda því fram, að hann sé stórbuga umbótamaður og vilji koma fram meiri háttar umbótum í landinu, því þegar miðað er við þá góðu aðstöðu, sem sú ríkisstj. hafði, — þar sem var ráðstöfun alls stríðsgróðans, — þá hefur áreiðanlega engin ríkisstj. hér á landi haldið eins illa á málum og gert eins lítið af framkvæmdum og þessi ríkisstj. Og ég held, að verkamenn hér í bænum, sem t.d. minnast þess, sem gert var í byggingarmálum á þeim tíma, séu lítið hrifnir af því, þegar hv. þm. er að draga upp myndir af því, að það sé einmitt svona stjórn, sem hann vilji að taki hér við völdum aftur.

Hv. þm. minntist nokkuð á einmenningskjördæmi og hélt því mjög fram, að það væri andstætt verkalýðshreyfingunni að hafa það fyrirkomulag. Ég held, að reynslan sýni það hins vegar alveg greinilega, að verkalýðshreyfingin og verkalýðsflokkar eru hvergi sterkari, en einmitt í þeim löndum, þar sem eru einmenningskjördæmi. Frjáls verkalýðshreyfing er hvergi sterkari í heiminum í dag, en í Bretlandi og í Bandaríkjunum, þar sem eru einmenningskjördæmi. Verkalýðsflokkar eru hvergi sterkari í heiminum í dag en brezki verkamannaflokkurinn og demókrataflokkurinn í Bandaríkjunum. Það er þess vegna alger misskilningur hjá honum, að það sé andstætt verkalýðshreyfingu og verkamönnum, að höfð séu einmenningskjördæmi. Þvert á móti veitir það fyrirkomulag aðstöðu til þess, að verkalýðurinn og verkalýðssamtökin þoki sér betur saman um einn flokk og tryggi áhrif sín á þann hátt. Það er víst, að ef að því ráði verður horfið hér á landi að taka upp einmenningskjördæmi að meira eða minna leyti, þá mundi það ekki verða til þess að veikja verkalýðinn, það mundi verða til þess að þoka honum saman, eyða sundrungunni í röðum hans og skapa honum meiri áhrif á löggjöf og stjórnarathafnir, en hann hefur nú.

Hv. þm. vildi mótmæla því, að dreifbýlið mundi veikjast við þá skipan, sem nú verður tekin upp. Ég held, að það þurfi ekki að fara mörgum orðum um þetta, vegna þess að það er búið að sýna það svo ljóslega hér í hv. d., að sú breyt., sem nú er tekin upp, muni hafa þessi áhrif, nema sérstaklega verði við henni brugðizt af hálfu dreifbýlisfólksins, eins og ég mun síðar koma að.

Þá spurði þm.: Hvaða stefnur á fólkið úti í dreifbýlinu að kjósa um? Ja, spyr sá, sem ekki veit. Hvaða stefna er það, sem hv. þm. hefur verið að boða hér á þingi og annars staðar á undanförnum árum? Það er stefnan um, að það eigi að skera niður fjárfestingu og framkvæmdir í dreifbýlinu og það er stefnan, sem samstöðuflokkar hans hér á þingi, Alþfl. og Sjálfstfl., halda fram. Það, sem á að kjósa um í dreifbýlinu, er raunverulega það, hvort á að skera þar niður framkvæmdir og framfarir, hvort það eigi að stuðla að því, að jafnvægið raskist í byggð landsins. Það er til þessarar spurningar, sem fólkið í dreifbýlinu á að taka afstöðu í þeim kosningum, sem fram undan eru.

Það er ákaflega einfalt og þægilegt fyrir það að taka afstöðu til þessarar spurningar, vegna þess að reynslan hefur sýnt það, að Framsfl. er eini flokkurinn á undanförnum árum, sem hefur viljað halda uppi nægilegum framförum og framkvæmdum úti um land, svo að jafnvægi héldist í byggð landsins. Af sömu ástæðum er auðvelt fyrir það fólk í þéttbýlinu að fylkja sér um Framsfl., sem vill stuðla að því, að jafnvægi haldist í byggð landsins. Og það er vegna þess, að fólkinu úti um land — í landsfjórðungunum þremur, sem hv. þm. var að tala um — er að verða þetta miklu ljósara en áður, sem vel getur svo farið, að þessi breyt. verði ekki eins mikið til þess að veikja vald þess og til er stofnað af þeim, sem fyrir henni standa. Það er vegna þess, að niðurstaða hennar verður sú, að fólkið úti um landið lærir af þessu að þoka sér betur saman um einn flokk, heldur en það hefur gert og vinnur þannig upp þá réttarskerðingu, sem annars mundi hljótast af þeirri kjördæmabreyt., sem nú er verið að framkvæma.

Þá kom hv. þm. að því, sem átti að vera eins konar skýring á því, hvað væri vinstri stefna. Mér virtist, að þar væri aðalröksemdin hjá honum sú, að vinstri stefna væri fyrst og fremst fólgin í því að berjast fyrir þau kaupgjaldi og eiginlega án tillits til þess, hvort atvinnuvegirnir þyldu það eða ekki. Hann nefndi ýmis dæmi í því sambandi um það, að framsóknarmenn hefðu staðið á móti kauphækkunum á undanförnum árum. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að fara neitt út í þá sögu, sem hann rakti í því sambandi. Ég ætla aðeins að minnast á síðasta atriðið, sem hann minntist á. Hann sagði, að Framsfl. hefði viljað koma því fram í vinstri stjórninni, rétt áður en hún fór frá völdum, að kaupið væri lækkað um 8, og mun hann hafa átt við þá dýrtíðaruppbót, sem framsóknarmenn vildu að félli niður. Við skulum segja, að hún sé rétt, þessi tala, sem hann nefndi, að Framsfl. hafi talið það nauðsynlegt til að tryggja næga atvinnu í landinu og rekstur atvinnuveganna, að kaupið væri lækkað um 8% með þeim hætti að borga ekki alla vísitöluna. Þm. hældi sér ákaflega mikið af því og sínum flokki, að þeir hefðu komið í veg fyrir, að þessi 8% kauplækkun hefði orðið. En hvað er svo það, sem hefur gerzt í landinu, síðan þessir atburðir áttu sér stað? Hvaða kauplækkun er það, sem hefur átt sér stað í landinu, síðan þetta gerðist? Hver hefur hún verið? Samkv. upplýsingum Þjóðviljans, samkv. því, sem þessi hv. ræðumaður hefur haldið fram hér í þinginu og ræðumenn Alþb. héldu fram í seinustu kosningabaráttu, þá hefur kaupið lækkað um 13.4%, — kaup Dagsbrúnarmanns hefur lækkað um 13.4%. Öll uppskeran hjá verkalýðnum af því, að Alþb. felldi vinstri stjórnina og kom í veg fyrir 8% kauplækkun, er þá sú, að kauplækkun í landinu hefur orðið um 13.4%. Það er víst þetta, sem verkalýður landsins og Dagsbrúnarmenn eiga að þakka Alþb, sérstaklega fyrir, að kauplækkunin hefur orðið þarna miklu meiri, en hún þurfti að vera, ef vinstri stjórnin hefði haldið áfram.

En sagan er ekki öll búin með þessu, því að eftir að hv. þm. kom heim úr sinni utanför, þá var það fyrsta, sem hann lagði til að gert væri, að flokkur hans tæki upp mjög nána samvinnu við flokkinn, sem hafði haft aðalforustuna um 13.4% kauplækkunina og það var alls ekki talað um, að það skilyrði ætti að vera fyrir því samstarfi, að þá kauplækkun ætti að taka aftur. Og öll hans ræðuhöld hér á þingi benda nú til þess, að hann vilji alveg sérstaklega komast í náið samstarf og helzt stjórnarsamvinnu við þá flokka, sem bera meginábyrgð á 13.4% kauplækkuninni. Og svo kemur hann hér og þakkar sér fyrir það, að hans flokkur hafi komið í veg fyrir 8% kauplækkun, þegar hann í raun og veru með því að fella vinstri stjórnina hefur stuðlað að því, að kauplækkunin hefur orðið miklu meiri eða 13.4%. Ég held, að verkalýður landsins og verkalýður Reykjavíkur — alveg sérstaklega þó Dagsbrúnarmennirnir — muni ekki kunna honum eða hans flokki neinar þakkir fyrir frammistöðu eins og þessa.

Ég skal svo láta þetta nægja um það, sem hv. þm, sagði um kaupgjaldsmálin.

Ég skal þá víkja að því, sem frá mínu sjónarmiði er fyrst og fremst sönn vinstri stefna. Meginstefnurnar í þjóðmálunum snúast alveg sérstaklega um það, hverjir það eru, sem eiga að ráða yfir fjármagninu, yfir atvinnutækjunum og yfir verzluninni. Það er takmark íhaldsstefnunnar, að yfirráðin yfir fjármagninu, atvinnutækjunum og verzluninni séu í höndum mjög fárra aðila. Það er aftur tilgangur vinstri manna eða sannrar vinstri stefnu, að yfirráðin yfir þessu séu fyrst og fremst í höndum fólksins sjálfs.

Ég held, að það sé kannske auðveldast að skýra það, sem fyrir framsóknarmönnum vakir í þessu sambandi, með því að rifja upp atriði, sem kemur fram í bók, sem hv. þm., Einar Olgeirsson, hefur skrifað um þjóðveldi Íslendinga að fornu og er að mörgu leyti merkileg bók. Hv. þm. dregur þar upp mynd af því, að hið gamla þjóðveldi Íslendinga hafi verið fullkomnara þjóðfélag, en nokkurt annað, sem þá var uppi í veröldinni. Hvað var það, sem átti sinn meginþátt í því að hans dómi, að þetta þjóðfélag okkar var svona fullkomið? Og hvað var það, sem átti svo sinn þátt í því, að þetta þjóðfélag hrundi að verulegu leyti til grunna? Skýring hans á þessu er sú, að hið gamla íslenzka þjóðveldi hafi fyrst og fremst verið byggt upp af stétt sjálfseignarbænda. Það hafi verið stétt sjálfseignarbænda, sem hafi skapað þetta merkilega þjóðfélag. Í öðrum löndum hafi bændastéttin á sama tíma skipzt í stórbændur og leiguliða. Sú stéttaskipting hafi átt sinn þátt í því, að þjóðfélag annarra þjóða á þeim tíma var ekki jafnmerkilegt og okkar þjóðfélag. Það var hin fjölmenna stétt sjálfseignarbænda, sem hélt höfðingjunum í skefjum og tryggði hina heilbrigðu þróun í þjóðfélaginu. Þegar svo kemur fram á 12. og 13. öld, breytist þetta. Þá fer kirkjan að leggja undir sig ýmsar jarðeignir. Þá fara einstakir höfðingjar að leggja undir sig jarðeignir. Þá rís upp stétt stórbænda í landinu og leiguliðum tekur stórkostlega að fjölga. Það var m.a. þessi þróun, sem varð þess valdandi, að það skapast hér meira höfðingjavald í landinu en áður og innbyrðis deilur þess og þjónkun við erlent vald áttu svo sinn þátt í því að grafa grunninn undan þjóðveldinu.

Ég held, að með því að rifja þetta upp, þá bregði ég kannske beztu ljósi yfir það, á hvern hátt við framsóknarmenn teljum að byggja eigi upp þjóðfélagið og hvernig hin rétta vinstri stefna sé í framkvæmd. Takmarkið er að stuðla að því, að það séu sem allra flestir einstaklingar í þjóðfélaginu, sem hafi svipaða aðstöðu og sjálfseignarbændastéttin hafði á tímum þjóðveldisins, að sem allra flestir einstaklingar verði efnalega sjálfbjarga og andlega frjálsir. Og við trúum ekki, að það verði gert eftir kokkabókum hins ameríska kapítalisma eða hins rússneska kommúnisma, heldur með því að taka það til fyrirmyndar, sem við finnum bezt í okkar forna þjóðveldi og hv. þm. hefur dregið skýra mynd upp af í bók sinni og ég hef nú lauslega minnzt á. Með því að byggja verzlunarhættina og atvinnuhættina upp á þann hátt, að sem allra flestir einstaklingar verði efnalega sjálfbjarga og andlega frjálsir, þá treystum við bezt heilbrigt þjóðfélag í þessu landi. Þetta verður bezt gert með því, að það verði viðhaldið einkarekstri í landbúnaði og ýmsum smærri atvinnurekstri, en allur hinn stærri atvinnurekstur verði sameign fólksins í gegnum félagsskap þess, kaupfélög, önnur samvinnufélög, bæjarfélög o.s.frv. og ríkisvaldið eigi svo kannske sumar hinar allra stærstu eignir. Í verzluninni verður að hafa hið sama fyrirkomulag, að verzlunin sé sem mest í höndum fólksins sjálfs í gegnum félagsskap þess, en þar rísi ekki upp neitt voldugt kaupmannavald. Með því að færa valdið yfir atvinnutækjunum, yfir verzluninni, yfir fjármagninu sem mest í hendur fólksins sjálfs á þennan hátt, þá byggjum við áreiðanlega upp hina beztu þjóðfélagshætti á Íslandi. Það er það, sem við eigum að stefna að og það á einmitt að vera auðvelt fyrir okkur að stefna að þessu marki, vegna þess að við höfum leiðarljósið í okkar eigin sögu, eins og hv. þm. hefur bent á, og þurfum þess vegna ekki að vera að horfa á neinar amerískar eða rússneskar fyrirmyndir um það, sem hér eigi að gera.

Vinstri stefnan byggist á því að færa valdið yfir fjármagninu, yfir atvinnutækjunum, yfir verzluninni í hendur fólksins í landinu. Þeir, sem taka upp samvinnu við Sjálfstfl. í einni eða annarri mynd, vinna gegn því, að slík þróun verði í þjóðfélaginu, vegna þess að það er stefna hans að færa þetta vald sem mest í hendur fárra einstaklinga. Það er um þetta, sem árekstrar hafa verið á undanförnum árum. Það er um þetta, sem árekstrar koma til með að verða á komandi árum. Það er í sambandi við slík mál eins og þessi, sem reynir á um það, hvort við erum sannir vinstri menn eða ekki.

Hv. þm. talaði allmikið um það, að Framsfl. hefði átt samstarf við Sjálfstfl. öðru hverju á undanförnum árum og það er alveg rétt. En hver er ástæðan til þess, að Framsfl. hefur talið óhjákvæmilegt að hafa þessa samvinnu? Meginástæðan er fólgin í þeirri sundrungu, sem verið hefur hjá vinstri öflum landsins á undanförnum árum og hefur gert ókleift að koma upp stjórn vinnandi fólks í landinu. Þess vegna hefur Framsfl. neyðzt til þess að taka þetta samstarf upp. Og hverjir eru það, sem eiga mestan þátt í því, að þessi sundrung hefur haldizt? Ég held, að það sé alveg hlutlaust og heiðarlega frá sagt, þó að því sé haldið fram, að enginn flokkur hafi átt meiri þátt í þessu, en einmitt sá flokkur, sem nú kallar sig Alþb. og því miður hafi kannske enginn maður átt meiri þátt í þessari sundrungu en einmitt hv. 3. þm. Reykv., sem hefur notað sínar miklu gáfur og sína miklu áróðurshæfileika allt of mikið í þágu þessarar sundrungarstarfsemi. Þess vegna vildi ég nú einskis frekar óska honum, en að þann tíma, sem hann ætti eftir að standa í stjórnmálabaráttunni, þá gæti hann frekar hjálpað til þess að eyða þessari sundrungu, en til þess að auka hana og stuðla að henni, eins og mér virðist að hann sé nú á góðum vegi að reyna að gera.

Og það er líka meira en kunnugt mál, að einn megintilgangurinn, sem vakir fyrir Sjálfstfl. með þeirri kjördæmaskiptingu, sem hann hefur nú beitt sér fyrir, er að auka þá sundrungu vinstri aflanna, sem hefur verið þess valdandi á undanförnum árum, að samvinna þeirra hefur ekki getað átt sér stað. En fólkið í landinu er líka að gera sér grein fyrir því, hver tilgangur Sjálfstfl. er í þessum efnum og að vinstri stefna og frjálslynd stefna verður ekki framkvæmd í landinu, nema það þoki sér meira saman. Þetta hefur aldrei komið eins ljóst fram og í þeim kosningum, sem fóru hér fram í júnímánuði s.l. Þær sýndu alveg glögglega, að vinstra fólk í landinu hefur miklu meira vakandi auga fyrir þessu núna heldur, en það hefur nokkru sinni áður haft. Það sér, að eina leiðin út úr þessum ógöngum, sem sundrung vinstri aflanna hefur valdið, er að fylkja sér sem mest um einn flokk og gera hann nógu öflugan og sterkan til andstöðu á móti Sjálfstfl. Og það er ekkert óeðlilegt, þó að fólkið snúi sér sérstaklega að Framsfl. í þessum efnum og treysti honum bezt, vegna þess að reynslan á undanförnum árum hefur sýnt, að það hefur verið Framsfl., sem hefur dugað langsamlega bezt í andstöðu við Sjálfstfl. Þar sem Alþfl. og Alþb. hafa verið til andstöðu, eins og t.d. hér í Reykjavík, þar hefur Sjálfstfl. unnið hvern sigurinn öðrum meiri á undanförnum árum. Aftur á þeim stöðum, þar sem Framsfl. hefur verið fyrst og fremst til mótspyrnu, eins og úti um landið, þar hefur Sjálfstfl. beðið sína ósigra og það er eingöngu vegna þess styrks, sem Framsfl. hefur haft þar, að Sjálfstfl. hefur ekki náð meiri hl. í öllu landinu, eins og hann hefur gert hér í Reykjavík. Fólkið hefur þetta dæmi alveg fyrir augum sér og það dregur af þessu réttar ályktanir. Það sér á þessu, að Framsfl. er sá flokkur, sem bezt er hægt að treysta í andstöðunni við Sjálfstfl. og þess vegna fylkir það sér um hann. Þess vegna er nú líka svo komið, að Framsfl. er jafnstór og báðir hinir svokölluðu vinstri flokkarnir, Alþfl. og Alþb., og sú þróun ýtir að sjálfsögðu undir það, að vinstri sinnað fólk í landinu og frjálslynt fólk í landinu fylkir sér miklu meira um Framsfl. hér eftir, en það hefur þó áður gert, vegna þess að það sér, að þarna er að rísa upp sterkur andstöðuflokkur á móti Sjálfstfl., sterkari en nokkur einn andstöðuflokkur hans, hefur áður verið.

Það bætist svo við þetta, að í þeirri vinstri stjórn, sem nýlega starfaði í landinu, sýndi Framsfl. það, að hann er trúrri vinstri stefnunni, en nokkur hinna flokkanna, sem að henni stóðu. Framsfl. var eini flokkurinn, sem stóð óskiptur að þessari ríkisstj., í stað þess að hinir flokkarnir voru báðir klofnir í afstöðu sinni til hennar og stórir partar í báðum flokkunum byrjuðu strax á að berjast á móti henni og reyna að koma henni fyrri kattarnef, sem þeim að lokum tókst í samstarfi við Sjálfstfl. Framsfl. var einn, sem stóð óskiptur með henni til síðustu stundar. Þessa reynslu hefur vinstra fólkið og frjálslynda fólkið í landinu líka fyrir augum og dregur réttar ályktanir af henni.

Og það bætist svo við þetta allt saman, að fólkið hefur það fyrir augunum, að hinir flokkarnir, Alþfl. og Alþb., hafa það nú fyrst og fremst í huga að taka upp nána samvinnu við Sjálfstfl. Milli Sjálfstfl. og Alþfl. er nú svo náin samvinna, að hún getur alls ekki nánari verið. Og það verður ekki annað séð en hv. 3. þm. Reykv. hafi fullan áhuga á því að leiða Alþb. inn í þetta samstarf. Það sést bezt á forsetakosningunum hér á Alþ., sem fóru fram fyrir nokkru. Það var engin þörf vegna kjördæmamálsins að hafa þessa samvinnu við forsetakosningarnar og nefndakosningarnar, sem áttu sér stað á þinginu. Það var ekki nein nauðsyn vegna kjördæmamálsins að hafa þessa samvinnu. En það var annað, sem var nauðsynlegt að dómi hv. 3. þm. Reykv., og það var, að það þurfti að hafa eins konar liðsæfingu, áður en gengið væri til víðtækara samstarfs við Sjálfstfl. Þetta var eins konar prófun þess, hvernig liðsmenn flokksins mundu taka því og líta á það ef tekin væri upp náin samstaða við Sjálfstfl. Það var byrjað að prófa þetta með því að kjósa hv. 1. þm. Reykv. fyrir forseta Sþ. og vita, hvaða undirtektir það fengi í Alþb. Ef fólk í Alþb. sætti sig sæmilega við þetta, þá var kannske hægt að halda lengra áfram í næstu umferð. Þess vegna veltur það ákaflega mikið á viðbrögðum hinna óháðu kjósenda, sem hafa fylgt Alþb. á undanförnum árum, hver þróunin verður í þessum efnum, hvort hv. 3. þm. Reykv. tekst að leiða Alþb. inn í íhaldssamvinnu eða ekki. Þess vegna verður einmitt það fólk, sem hefur fylgt Alþb. að undanförnu, að sýna það í næstu kosningum, að það sé andstætt þessari samvinnu, með því að verðlauna ekki Alþb. fyrir að hafa kosið hv. 1. þm. Reykv. fyrir forseta sameinaðs þings. Ef það veitir verðlaun fyrir það, þá mun það fá meiri íhaldssamvinnu á eftir.

Það, sem ég vildi svo segja að síðustu, er þetta: Það, sem hefur verið að gerast í landinu á undanförnum árum, hefur bent vinstri sinnuðu fólki og frjálslyndu fólki á, að það þarf að sameina sig um einn sterkan flokk. Þó að þessari breyt. væri ætlað að ýta undir aukna sundrung vinstri aflanna í landinu, hinna frjálslyndari afla, þá verður það þetta nýja viðhorf fólksins, sem getur gert það að verkum, að sá tilgangur íhaldsins heppnist ekki. Framsfl. sem forustuflokkur vinstri stefnu í landinu verður miklu sterkari eftir en áður, heldur en sjálfstæðismenn reiknuðu með. Þeir töluðu um það mjög vígamannlega fyrir kosningarnar, að þegar þessi breyt. væri komin fram, þá mundi Framsfl. ekki hafa nema kannske 9 eða 10 þm. á Alþingi. Nú sýna kosningaúrslitin hins vegar það, miðað við tölurnar í seinustu kosningum, að Framsfl. mun alltaf hafa 17 þm. eða jafnmarga og hann hafði fyrir breyt. Og þessar tölur sýna enn meira. Þær sýna það, að Framsfl. þarf ekki að bæta við sig nema fáum hundruðum atkv. í vissum kjördæmum, til þess að hann fái 22 þm. kosna. Og þá verður nú niðurstaðan sú út úr öllu þessu braski hjá íhaldinu og bræðraflokkum þess, að í stað þess, sem Framsfl. átti að tapa — ja, hann hafði 17 áður og átti að fara niður í 9 þingsæti, átti að tapa átta þingsætum, — þá getur útkoman orðið sú, að hann bæti við sig 5 þingsætum og fái þannig 5 af þessum 8 þingsætum, sem bætt er við. Vegna þess að fólkið í landinu — vinstra fólkið í landinu og frjálslynda fólkið í landinu — er farið að átta sig á því, hvað hér er verið að gera og bregzt þess vegna öðruvísi við, en íhaldið og bræðraflokkar þess ætluðust til, þá er það trú mín, að þegar upp verður staðið eftir alla þá baráttu, sem hefur verið í frammi höfð til að breyta kjördæmaskipun landsins, þá verði það hvorki Sjálfstfl. né bræðraflokkar hans, sem verða sigri hrósandi.