12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

Fríverslunarmálið

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Síðan umr. og samningaumleitanir hófust innan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu fyrir u.þ.b. þrem árum um stofnun svonefnds fríverzlunarsvæðis í Evrópu, hef ég tvívegis flutt hinu háa Alþingi skýrslu um gang þessara mála og þá afstöðu, sem ríkisstj. hverju sinni hefur tekið í málinu. Með hliðsjón af því, sem nú er á döfinni á þessu sviði, þykir mér rétt að gera Alþingi stuttlega grein fyrir því, sem gerzt hefur í málinu, síðan ég gaf seinni skýrslu mína til hins háa Alþingis.

Í október og nóvember s.l. kom í ljós, að hinn mikli ágreiningur, sem lengi hafði verið uppi milli sexveldanna svokölluðu annars vegar og annarra aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu hins vegar, um skipulag hins fyrirhugaða fríverzlunarsvæðis, yrði ekki leystur, svo að allir gætu við unað. Var ágreiningurinn einkum mikill milli Frakka annars vegar, en þeir vildu, að fríverzlunarsvæðið yrði sem líkast tollabandalagi sexveldanna að skipulagi og hins vegar Breta, sem lagt höfðu fram hinar upphaflegu till. um fríverzlunarsvæði, er ná skyldi fyrst og fremst til iðnaðarvöru.

Þegar slitnað hafði upp úr samningum um miðjan nóvember, var þegar hafizt handa um að kanna, hvernig komast mætti hjá því, að framkvæmd ákvæða Rómarsamnings sexveldanna um lækkun tolla og rýmkun innflutningshafta, hefði óhagstæð áhrif á aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar utan tollabandalagsins. Nokkrum árangri hefur verið náð í þessu efni, einkum á þrennan hátt. Í fyrsta lagi ákváðu tollabandalagslöndin, að nokkur hluti þeirra tollalækkana, sem fram skyldu fara samkvæmt Rómarsamningnum 1. jan. s.l., skyldi einnig ná til allra aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu og hins alþjóðlega tollasamkomulags (GATT). Í öðru lagi komu Frakkar í lok desember aftur á frjálsum innflutningi í samræmi við skuldbindingar sínar í Efnahagssamvinnustofnuninni og dró það að sjálfsögðu mjög úr þeim aðstöðumismun, sem ákvæði tollabandalagsins mundu ella hafa haft í för með sér. Í þriðja lagi hafa, það sem af er þessu ári, verið gerðir allmargir tvíhliða samningar milli aðildarríkja tollabandalagsins annars vegar og annarra aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar hins vegar um rýmkun innflutningshafta hliðstæða þeirri, sem átti sér stað milli sexveldanna innbyrðis 1. janúar.

Þrátt fyrir þetta var fjarri því, að það vandamál, sem framkvæmd tollabandalagsins skapaði í viðskiptum Evrópu, væri leyst. Sérstaklega var ljóst, að ekki yrði hægt að halda áfram á sömu braut, þegar næst kæmi að því, að sexveldin lækkuðu tolla og rýmkuðu viðskiptahöft sín á milli. Sú skoðun kom því fljótt fram meðal ýmissa ríkja, sem utan við tollabandalagið standa, að nauðsynlegt væri, að þau vernduðu hagsmuni sina með því að koma á sín á milli öðru viðskiptabandalagi.

Svíar áttu frumkvæðið að því snemma í vor að setja fram till. um stofnun nýs fríverzlunarsvæðis og hófust brátt viðræður milli 7 ríkja um þátttöku í því, þ.e.a.s. Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur, Bretlands, Portúgals, Sviss og Austurríkis. Hafa þau einatt verið nefnd ytri ríkin sjö til aðgreiningar frá sexveldunum. Embættismenn frá ríkjunum sjö komu saman á fund í Svíþjóð í júnímánuði og gengu þá frá till. um stofnun fríverzlunarsvæðis. Þessar till. voru síðan lagðar fyrir ráðherrafund þessara ríkja, sem haldinn var í Stokkhólmi 21. júní s.l. Ákváðu ráðh. þar að leggja til við stjórnir sínar, að stofnað yrði fríverzlunarbandalag Evrópu og féllust þeir að mestu á till. embættismannanna um skipulag þess. Sérfræðingum var síðan falið að gera frv. að samningi, sem hægt yrði að leggja fyrir ráðherrana 31. okt. n.k.

Þessar nýju fríverzlunartill. eru í aðalatriðum mjög svipaðar þeim, sem upphaflega voru lagðar fram varðandi stofnun fríverzlunarsvæðis fyrir alla Evrópu, en vegna þess að hv. alþm. eru þær till. í aðalatriðum kunnar, nægir að stikla á stóru. Till. um fríverzlunarbandalagið gera ráð fyrir því, að tollar og höft milli aðildarríkjanna verði afnumin á tæpum tíu árum. Fyrsta tollalækkunin, 20%, á að fara fram 1. júní 1960, en hin síðasta 1. jan. 1970. Innflutnings- og gjaldeyrishöft yrðu einnig afnumin smám saman á jafnlöngum tíma. Þessi ákvæði um fríverzlun skulu ná til allra vörutegunda annarra, en landbúnaðarafurða og fiskafurða. Hér er að sjálfsögðu um að ræða atriði, sem skiptir Íslendinga meginmáli. Varðandi landbúnaðarafurðir eru aðildarríkin sammála um, að gert verði sérstakt samkomulag til þess að stuðla að auknum viðskiptum milli aðildarríkjanna. Jafnframt geri aðildarríkin sín á milli tvíhliða samninga varðandi viðskipti með þær afurðir, sem sérstaka þýðingu hafa fyrir útflutning einstakra ríkja. Danir hafa þegar náð mikilvægum samningum á þessum grundvelli, sérstaklega við Breta, og þeir hafa talið þá nægilega til þess að gera þeim aðild að fríverzlunarbandalaginu mögulega. Um meðferð fiskafurða ríkir enn nokkru meiri óvissa. Norðmenn lögðu fram till. um, að fríverzlunin næði til svonefnds iðnaðarfisks, þ.e. lýsis, mjöls, freðfisks og niðursoðinna fiskafurða. Útlit er nú fyrir, að samkomulag verði um, að fríverzlunin taki til lýsis og mjöls, en hins vegar andstaða, einkum af hálfu Breta, gegn því, að fríverzlunin nái til annarra unninna fiskafurða. Enn fremur hafa Norðmenn lagt til, að sérstakt samkomulag verði gert til að stuðla að auknum viðskiptum milli aðildarríkjanna með þær fiskafurðir, sem fríverzlunin tekur ekki til. Ekki liggur enn fyrir, hverja afstöðu aðrar þjóðir taka til till., en vænta má, að hún nái fram að ganga.

Allt útlit er nú fyrir, að þessar nýju fríverzlunartill. nái fram að ganga og fríverzlunarbandalag Evrópu verði stofnað einhvern tíma fyrir mitt næsta ár. Því er ekki að neita, að þessi þróun er að mörgu leyti uggvænleg, ekki sízt fyrir okkur Íslendinga. Yfir vofir, að Evrópa klofni í tvær andstæðar viðskiptaheildir, og mundi það að sjálfsögðu hafa óhagstæð áhrif, ekki sízt á þau ríki innan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, sem utan við standa. Ég hef áður í skýrslu minni til hins háa Alþingis rakið þau óhagstæðu áhrif, sem stofnun tollabandalags sexveldanna hlýtur að hafa á útflutningsverzlun Íslendinga. Þau eru fyrst og fremst fólgin í tvennu. Annars vegar verður nýr meðaltalstollur settur á allan innflutning til tollabandalagsríkjanna. Þetta þýðir t.d., að á Ítalíu, þar sem hingað til hefur verið tollfrjáls innflutningur á íslenzkum saltfiski, er gert ráð fyrir 17% tolli, þegar Rómarsamningurinn er fullkomlega kominn til framkvæmda. Í öðru lagi hefur tollabandalagið þau áhrif, að aðstaða aðila utan þess til samkeppni við framleiðendur innan tollabandalagsins versnar mjög verulega. Munu Íslendingar eiga erfiðara um vik að keppa við þýzka og belgíska fiskframleiðendur á markaði á Ítalíu og í Frakklandi. Áhrif hins væntanlega fríverzlunarbandalags á samkeppnisaðstöðu aðila utan þess er að því leyti minni, að ekki er gert ráð fyrir því, að tollar út á við breytist. Íslendingar þurfa því ekki að óttast tollahækkanir af þessum sökum. Hins vegar hljóta framleiðendur innan fríverzlunarbandalagsins að hafa betri samkeppnisaðstöðu, en framleiðendur utan þess, sérstaklega þegar um er að ræða vörur, sem háir tollar eru á gagnvart ríkjum utan bandalagsins.

Nú er það svo, að allt útlit er fyrir, að fríverzlunin taki ekki til fiskafurða nema að litlu leyti og dregur það að sjálfsögðu úr hinum óhagstæðu áhrifum, sem bandalagið hefur á útflutningsverzlun Íslendinga. Búast má við því, að samkeppnisaðstaða okkar varðandi sölu á mjöli og lýsi versni nokkuð, þar sem Norðmenn geta flutt tollfrjálst inn til hinna sex ríkjanna í sjöveldabandalaginu, þar sem Íslendingar yrðu að sæta nokkrum tollum. Þetta er að vísu ekki mjög alvarlegt atriði vegna þess, hve lágir tollar eru á þessum vörum yfirleitt. Hitt verður þó að hafa í huga, að búast má við, að ýmsar ráðstafanir verði gerðar, eftir því sem tímar líða, til þess að auka fiskverzlun milli aðildarríkja fríverzlunarbandalagsins, t.d. í samræmi við till. Norðmanna. Gæti það vel orðið til að rýra samkeppnisaðstöðu Íslendinga í framtíðinni.

Yfirleitt er því óhætt að segja, að bæði tollabandalag sexveldanna og hið fyrirhugaða fríverzlunarbandalag ríkjanna sjö muni hafa óhagstæð áhrif á útflutning íslendinga á sjávarafurðum. Eins og sakir standa kann hitt að virðast skipta litlu máli, þótt þessi bandalög hafi tvímælalaust í för með sér minnkandi samkeppnisaðstöðu varðandi útflutning iðnaðarvarnings frá Íslandi, þar sem enn er ekki um neinn teljandi útflutning að ræða af því tagi. Sé hins vegar litið lengra fram í tímann, er það alvarlegt fyrir Íslendinga, ef möguleikar þeirra til að koma upp nýjum útflutningsatvinnugreinum versna verulega frá því, sem nú er.

Eins og málin standa nú, virðist ekki koma til greina fyrir Íslendinga að gerast aðilar að öðru hvoru þeirra viðskiptabandalaga, sem ýmist hefur verið komið á fót eða eru í uppsiglingu. Yrði hins vegar um að ræða fríverzlunarsvæði fyrir alla Evrópu, eins og áður var um rætt, mundi margt mæla með því, að Íslendingar yrðu þar aðilar, ef reglurnar um fiskverzlunina yrðu viðunandi og hef ég áður hér á hinu háa Alþingi lýst þeim rökum, sem ég tel liggja til þess. Vonandi verður hið nýja fríverzlunarbandalag ríkjanna sjö ekki lokaspor í þessu máli, heldur áfangi í átt til fríverzlunarbandalags, er taki til allra ríkja Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Það er vitað, að hin aðildarríkin þrjú, sem eru þátttakendur í hvorugu bandalaganna, þ.e.a.s. Írland, Grikkland og Tyrkland, telja hagsmunum sínum bezt borgið innan allsherjar fríverzlunarsvæðis Evrópu. Þó hafa nú bæði Grikkland og Tyrkland leitað eftir samningum við tollabandalagið, en ekki er enn vitað, í hverju þeir eru fólgnir. Ríkisstj. og sérfræðinganefnd sú, sem ég hef ráðgazt við um þetta mál, síðan það komst á dagskrá, telur hins vegar ekki tímabært að sinni fyrir Íslendinga að taka upp neina slíka samninga við hvorugt bandalagið. Ríkisstj. telur heppilegast að bíða átekta um sinn og sjá, hverju fram vindur. Ef næstu mánuðir líða án þess, að teknir verði að nýju upp samningar um viðskiptabandalag, er taki til allra aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, telur ríkisstj. tímabært og nauðsynlegt að leita hófanna um samninga við helztu viðskiptalönd okkar í bandalögunum eða bandalögin í heild í því skyni, að þessi nýju viðskiptasamtök torveldi ekki viðskipti Íslendinga við aðildarríkin og rýri ekki viðskiptaaðstöðu þjóðarinnar.