07.08.1959
Neðri deild: 12. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

Löggæsla á Keflavíkurflugvelli

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir þá fyrirspurn, sem hv. þm. hefur hér gert og vænta þess, þar sem hæstv. utanrrh. er nú ekki viðstaddur og enginn úr ríkisstj., að hann gefi Alþ. síðar nána skýrslu um þetta mál, hvað sé hæft í þessari sögusögn og þá gefist tækifæri til að ræða nánar um þetta mál hér í þinginu. En það er hins vegar ljóst mál, að ef hér er rétt frá sagt og hin erlendu hernaðaryfirvöld komast upp með það að brjóta þannig þær reglur og þau lög, sem íslenzkt ríki hefur sjálft sett og eiga að ná til þeirra ekki síður, en landsmanna sjálfra, er skylt, að það mál sé til hlítar upplýst einmitt hér á Alþ. og þingmönnum gefist kostur á að ræða um það. Þess vegna tek ég undir þá ósk, að hæstv. utanrrh. gefi ýtarlega skýrslu um þetta mál siðar hér á þingi.